fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Bergur Snær tók eigið líf eftir að saksóknari felldi málið niður: „Seinna fann faðir Bergs messenger skilaboð á tölvu hans frá þessum brotamanni“

Hjálmar Friðriksson
Mánudaginn 5. nóvember 2018 14:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bergur Snær Sigurþóruson var 19 ára gamall þegar hann svipti sig lífi í mars árið 2016. Móðir hans, Sigurþóra Bergsdóttir, hélt erindi á ráðstefnunni „Kynferðisbrot í brennidepli“ á vegum lagadeildar og sálfræðisviðs HR sem haldið var í maí. Þar segir hún átakanlega sögu Bergs en erindið var fyrr í dag birt á Facebook-síðu minningarsjóðs hans.

„Ég er hér til að segja sögu af upplifun fjölskyldu af réttarkerfinu okkar. Þessi saga er einstök fyrir okkur, við upplifum þetta með okkar hætti og er sagan sögð með þeim formerkjum. Ég er ekki löglærð og get ekki túlkað það sem á gekk með öðrum hætti en eigin hyggjuviti og upplifun. Ég var alin upp við traust á samfélagsstofnunum – líkt og flestir íslendingar á mínum aldri. Ég hafði traust til Alþingis, saksóknara, til löggunnar og til dómsstóla. Ég trúði því að samfélagsgerðin okkar þegar kemur að glæpum væri þannig að hún væri besta leiðin til að sanngirni og réttlæti ríkti. Kannski horfi ég of mikið á ameríska réttardramaþætti. Ég einfaldlega hélt að kerfið okkar leitaði sannleikans og réttlætis í hverju máli. Ég var ekki alveg það einföld að ég héldi að það tækist alltaf en í prinsippinu trúði ég því að lögreglan og sakskóknari gerðu sitt til að upplýsa glæpi og leita sannleikans. Svona leit ég á þetta,“ segir Sigurþóra.

Sjá einnig: „Hann missti alla von“ Bergur Snær svipti sig lífi 19 ára – Varð fyrir kynferðisofbeldi – Kærunni vísað frá

Þegar á reyndi þá var upplifun hennar af þessu kerfi önnur. „Bergur Snær drengurinn minn dó þann 18. mars 2016. Hann var 19 ára. Opinber dánarorsök var sjálfsvíg en það sem dró hann til þess var áfallastreituröskun sem osakaðist af kynferðisofbeldi. Tveimur árum áður hafði lögreglumaður frá kynferðisafbrotadeildinni hringt og tilkynnt að nafn Bergs hefði komið upp í sambandi við rannsókn á umfangsmiklu kynferðisafbrotamáli. Þetta var í janúar 2014, og Bergur 17 að verða 18. Mikið hafði gengið á á þeim tímapunkti, drengurinn kominn í slæm mál og erfiða hegðun. Dottinn út úr skóla og farinn að misnota kannabis. Ég fór með hann í skýrslutöku upp á lögreglustöð þar sem hann neitaði öllu með mjög sannfærandi hætti. Einum og hálfum mánuði seinna fann faðir Bergs messanger skilaboð á tölvu hans frá þessum brotamanni – sem skv. okkar upplýsingum sat í fangelsi á þeim tíma og átti ekki að hafa internet aðgang. Bergur sagði þá loksins sagði hann frá og við kærðum brotamanninn,“ segir Sigurþóra.

Eyddi öllum skilaboðum

Hún segir að lokum hafi Bergur opnað sig um kynferðislega ofbeldið sem hann varð fyrir. „Í raun var mjög ýtt á hann að segja frá, af mér, af lögreglunni og fjölskyldunni. Ég leitaði ráðgjafar hjá ýmsum sérfræðingum, sálfræðingum hjá Barnavernd og fleirum sem töldu réttast að gera allt til að fá hann til að segja frá. Það væri leiðin til að hann fengi hjálp og liði betur. Ég hef seinna lesið rannsóknir og heyrt af öðrum sjónarmiðum þar sem fram kemur að það að þvinga fórnarlamb kynferðisofbeldis fram áður en viðkomandi er tilbúinn geti haft verri áhrif en að bíða. Að það að fórnarlamb ofbeldis finnist hann ekki hafa stjórn á eigin sögu og tímalínu sé skaðlegt. Þetta vissum við ekki þá og vorum alltaf að vinna að því er við héldum að bestu hagsmunum Bergs. En sagði loks frá og í ljós kom að hann hafði verið í kynferðisofbeldis sambandi við þennan mann í nær þrjú ár frá  14-17 ára,“ segir Sigurþóra.

Hún segir að Bergur hafi eytt öllum skilaboðum mannsins og þannig hafi mikilvæg sönnunargögn tapast. „Bergur lýsti því sjálfur við mig að hann hefði upplifað sig fastan í vef – hann sá ekki neina leið til að losa sig og var upp á þennan mann komin. Þannig misnotaði hann drenginn minn kynferðislega en ekki síður hélt honum í heljargreipum andlega á viðkvæmu þroskaskeiði. Við sumsé kærum vorið 2014 þegar Bergur er enn barn – 17 ára. Lögreglan tekur tvær skýrslur, Bergur fer í Barnahús í meðferð og þar koma fram aðeins fleiri upplýsingar svo sálfræðingur Barnahúss hefur samband við lögreglu sem tekur eina skýrslu í viðbót. Það sem flækti málið mikið var að í skömm sinni áður en hann sagði frá hjá lögreglu – hafði Bergur eytt öllum samskiptum við þennan mann sem höfðu verið fyrst og fremst á facebook. Lögreglan fékk tölvu Bergs  til rannsóknar til að finna einhver samskipti sem leiddi til lítils því miður. Við reyndum að fá upplýsingar frá facebook en það gekk ekki – en hefðum væntanlega lagt meira í sölurnar til að ná í þessar upplýsingar hefðum við vitað lyktir málsins,“ segir Sigurþóra.

Greindur með alvarlega áfallastreituröskun

Hún segir að Bergur hafi verið greindur með alvarlega áfallastreituröskun. „Lögreglan taldi samt í samtali við okkur að við hefðum nóg. Þetta var stórt mál, sem vakti athygli fjölmiðla. Alls höfðu 11 strákar kært hann fyrir kynferðisbrot og var þetta rannsakað saman. Allt í máli Bergs rímaði við frásagnir hinna strákanna. Alls kyns smáatriði í samskiptum, gjafaloforðum, hótunum og fleira var nákvæmlega eins í frásögn Bergs og hinna drengjanna. Sálfræðingur í Barnahúsi mat Berg með alvarglega áfallastreituröskun vegna kynferðisofbeldisins sem hún mat mjög alvarlegt og gróft og gaf út mjög ítarlega skýrslu inn í málið. Lögreglan taldi sig hafa nóg til að fá fram ákæru. Þetta kláraðist sumarið 2014,“ segir Sigurþóra.

Síðan tók við löng bið. „Síðan gerðist ekkert. Við tók hin fræga bið sem margir í sömu stöðu hafa lýst. Við höfðum verið í ágætu sambandi við lögreglumanninn sem sá um rannsókn málsins og hafði ég samband við hann um haustið og spurði frétta og fékk þær upplýsingar að málið hefði verið sent til Ríkissaksóknara. Hann taldi augljóst að sönnunagögn nægðu til að maðurinn yrði ákærður fyrir glæpi sína gagnvart Bergi. Ég ákvað að vera róleg og treysta – þó ég væri samt alltaf með varnaglann á að þetta myndi ekki fara alla leið og sagði það við Berg til að reyna að halda væntingum í lágmarki.  Þannig leið veturinn – við vorum farin að verða órólegri þegar leið á – á nýju ári var ekkert enn að frétt og við vissum ekki hvar málið væri statt. Réttargæslumaðurinn okkar fékk engar upplýsingar aðrar en að þetta væri á borði Ríkissaksóknara og yrði tekið fyrir bráðlega.  Sem betur fer sat hinn meinti brotamaður í fangelsi á þessum tíma fyrir önnur brot svo sú vá var ekki yfir okkur – eins og hún er fyrir svo mörgum öðrum sem hafa verið og eru í þessari stöðu. Svo við gátum verið nokkuð róleg að hann mætti ekki á svæðið,“ segir Sigurþóra.

Fékk engar upplýsingar

Ári síðar frétti hún af ákæru í málinu í fréttum RÚV. „Svo var það – föstudaginn fyrir 10. júlí 2015, í miðju sumri og sumarfríum að í fréttum RÚV er sagt frá því að búið sé að ákæra manninn.  Í fréttinni kemur fram að ákæra hafi verið gefin út vegna brota gegn 9 drengjum af þeim ellefu sem kærðu. Ég fékk algjört sjokk. Þetta voru sexfréttir á föstudagskvöldi og ekki hægt að ná í neinn. Ég hringdi út um allt og  í réttargæslumanninn en auðvitað ekkert hægt að gera á þessum tíma dags rétt fyrir helgi. Ég sótti drenginn í vinnu því ég vildi ekki að hann heyrði þetta frá öðrum en mér. Við vissum ekkert – ég var með hræðilegan grun um að Bergur væri annar þeirra sem ekki væri ákært vegna – en vissi ekkert,“ lýsir Sigurþóra.

Hún segist hafa vitað að þetta myndi ganga fram af Bergi. „Á mánudeginum reyndi réttargæslumaðurinn eins og hún gat að fá upplýsingar en fékk engar. Engin svör voru hjá Saksóknaraembættinu – sú sem hafði lagt fram ákæruna var farin í sumarfrí og engin svör að fá. Það gekk þannig fram á miðvikudag – þegar réttargæslumaðurinn fékk loksins að vita að kæra okkar fyrir Berg hefði ekki leitt til ákæru. Ég man nákvæmlega hvar ég var og hvað ég var að gera – við hvern ég var að tala og hvernig lykt var í kringum mig þegar ég fékk þetta símtal frá réttargæslumanninum okkar. Þetta símtal er eitt að þeim mómentum sem ég þurfti sérstaklega að vinna með í sálfræðimeðferð sem ég hef verið í til að vinna úr mínu áfalli að missa drenginn minn. Hvernig átti ég að útskýra þetta fyrir honum? Hvernig gat ég sagt honum að það væri ekkert réttlæti í boði. Ég vissi á þessu mómenti að þetta myndi fara með drenginn,“ segir Sigurþóra.

RÚV vissi á undan Bergi

Hún furðar sig á því að RÚV hafi vitað af ákærunni á undan Bergi. „Ef ég upplifiði þetta svona –get ég ekki með nokkru móti ímyndað mér hvernig Bergur upplifði það þegar ég settist niður og sagði honum þetta. Hann varð svo reiður og svo sár og svo uppgefinn. Hann var búinn að halda niður í sér andanum – bíða eftir að fá fram ákæru – bíða eftir einhverju réttlæti í þessu öllu saman og hann fékk ekkert. Hann fékk ekki einu sinni símtal til að vara hann við! RÚV vissi þetta á undan honum. Hann fékk ekki útskýringu, við fengum ekki tækifæri til að mótmæla eða koma með frekari sönnunargögn. Við hefðum getað gert meira til að sanna mál hans – við hefðum getað gert svo margt. Ef við hefðum vitað neitun brotamannsins – ef við hefðum fengið tækifæri til að sanna mál Bergs. En við vorum ekki aðilar málsins. Við vorum ekki issjú í þessu máli. Bergur skipti engu máli. Þetta var á milli saksóknara og sakbornings,“ segir Sigurþóra.

Hún segir að svona virki kerfið. „Þolendur kynferðisofbeldis eru bara vitni að eigin naugðun og líkamar þeirra eru brotavettvangar.  Bergur fékk svo niðurfellingarbréfið inn um lúgun seinni part ágúst. Rúmum mánuði eftir fréttirnar um ákæru í fjölmiðlum. Í niðurfellingarbrefinu kemur fram að ekki hefði verið hægt að sýna fram á að þeir hefðu þekkst – hinn „meinti“ brotamaður hafði algerlega harðneitað því að hafa hreinlega hitt Berg – hann hefði bara kannast við hann. Þetta taldi saksóknari sig ekki geta sannað. Við ræddum við lögregluna um þetta – og þeir voru ósáttir og sögðu að það hefðu verið raunveruleg sönnunargögn um að þeir þekktust – töldu sig hafa sýnt fram á það í rannsókn málsins en það var greinlega ekki nóg. Og ekkert hægt að gera. Ég skil ekki alveg af hverju það er ekki samtal í gangi á milli saksóknara og lögreglu. Eru þau ekki á sama stað í þriskiptingunni? Ég hélt það einhvern veginn? En nei – lögreglan afhendir málið og út frá því tekur saksóknari ákvörðun. Ég í einfeldni minni hélt að það væri hlutverk dómara að leggja mat á gögn og vitnisburði og dæma út frá því. Ég upplifið þetta eins og saksóknari hefði tekið sér dómsvald,“ segir Sigurþóra.

Hætti ekki að hafa samband

Hún segir að saksóknari hafi fórnað Bergi. „Maður getur heldur ekki annað en fyllst tortryggni um að eitthvað annað hafi líka haft áhrif á þessa niðurstöðu. Kærendur voru 11 – í níu tilfellum voru mjög konkret sönnunargögn og þegar þau voru birt hinum kærða þá játaði hann þau brot. Þannig þurfti ekki vitnaleiðslur og réttarhöld vegna þeirra brota. Aðeins dómsuppkvaðiningu sem kostaði minna vesen og minni áhættu. Það hefur alveg hvarflað að mér að kannski vildi saksóknarði ekkert fara í alvöru fyrirtöku með vitnaleiðslum og öðru því það hefði sennilega ekkert bætt við dóminn. Það var búið að ná honum og þau þurftu ekki meira. Bergi og hinum drengnum var fórnað – þeirra réttur til að fá viðurkenningu á brotum gegn sér og skaðabætur fyrir það var enginn. Þegar maður býr við svona upplýsingagjöf og kerfi er ekki óeðlilegt að slíkar hugsanir herji á mann – en aftur – kannski hef ég bara horft á of mikið af glæpa sjónavarpsþáttum,“ lýsir Sigurþóra.

Hún segir að þrátt fyrir allt þetta þá hafi brotamaðurinn ekki hætt, þó hann væri í fangelsi. „Brotamaðurinn hélt áfram að herja á Berg – reyndi að ná sambandi við hann þarna um haustið. Hann var ekki að fara neitt augljóslega. Við ræddum við lögregluna um þetta – en það var ekkert hægt að gera – hann var bara maður út í bæ gagnvart Bergi enda búið að fella niður málið. Við íhuguðum að reyna að veiða hann í gildru – fá hann til að segja eitthvað – en hættum snarlega við það enda ekki þess virði að fá þennan mann meira inn í okkar líf. Hann eyðilagði bara og færði illsku til okkar. Þessi vetur varð erfiður – nokkuð brokkgengur – stundum gekk aðeins betur og stundum verr. Við héldu áfram að reyna að finna viðeigandi hjálp fyrir drenginn sem virtist samt í raun vera búinn að gefast upp. Ég man einu sinni að ég grátbað hann um að fara til læknis – koma upp á geðdeild og reyna að fá hjálp og hann leit bara á mig og sagði – En ég er búin að reyna. Honum fannst hann hafa reynt allt og það voru bara vonbrigði og svartnætti. Bergur Snær tók eigið líf 18. mars 2016. 8 mánuðum eftir að málið var fellt niður,“ segir Sigurþóra.

Vill nýtt kerfi

Þessi upplifun breytti sýn hennar algjörlega á kerfið. „Ég sagði í upphafi að ég  hefði borið fullt traust til kerfisins okkar. Þessi reynsla breytti því, ég tek ekki lengur sem gefnu að kerfið okkar leiti sannleikans og bestu niðurstöðu.  Ég hins vegar trúi á lýðræði og málfrelsi og getu einstaklingsins til að knýja fram breytingar á gölluðum kerfum. Við sáum það í höfum hátt og í mee too byltingunni sem tröllríður samfélagi okkar. Í anda þess trúi ég að með því að segja sögu drengsins míns og fjölskyldu minnar, með því að leggja mig fram um vekja athygli á þessu málefni, geti ég gert mitt til að knýja fram nauðsynlegar breytingar á þessu kerfi sem snýr að þolendum kynferðislegs ofbeldis,“ segir Sigurþóra.

Hún segir nauðsynlegt að taka þetta kerfi til endurskoðunar: „Svo að aðrir þurfi ekki að upplifa hörmungar eins og okkar. Öll kerfi eru mannanna verk og þeim má breyta. Ég vil að við skoðum og ákveðum hvaða leið hentar okkur best – nágrannalönd okkar hafa fundið betri leiðir – þar sem þolendur eru annað hvort aðilar mála eða þá fá mun meiri aðkomu að þeim. Þau lönd eru í engu minni réttaríki en Ísland. Þess vegna stend ég hér í dag – Bergur minn er farinn – því get ég ekki breytt en ég veit að móðurástin er eilíf og ég mun berjast fyrir honum allt til enda.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá
Fréttir
Í gær

Guðmunda þekkir það vel að vera aftast í röðinni og gleymast – „Ég lifi það ekki af að bíða svo lengi, henni varð á að hlæja“

Guðmunda þekkir það vel að vera aftast í röðinni og gleymast – „Ég lifi það ekki af að bíða svo lengi, henni varð á að hlæja“
Fréttir
Í gær

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“
Fréttir
Í gær

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?