Nú standa réttarhöld yfir í hinu svokallaða Skáksambandsmáli þar sem þrír eru ákærðir fyrir innflutning á miklu magni fíkniefna. Meðal þeirra er Sigurður Ragnar Kristinsson sem er ákærður fyrir að hafa skipulagt og fjármagnað innflutning á fimm kílóum af amfetamíni frá Spáni. Sigurður játaði sök í yfirheyrslum hjá lögreglu en neitaði sök við þingfestingu málsins. Lögmaður Sigurðar segir að hann efist um vigtun efnanna og hvort efnin séu rétt tilgreind í ákæru. Spænska lögreglan eyddi þeim hluta fíkniefnanna, sem hún haldlagði, áður en réttarhöldin hófust og því er ekki hægt að gera frekari greiningar á þeim.
Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Blaðið hefur eftir Önnu Barböru Andradóttur, saksóknara, að íslenska lögreglan hafi óskað eftir að efnunum yrði ekki eytt en beiðnin komst ekki til skila í tíma og því var þeim eytt. Hún sagði að ákvörðun um að eyða efnunum hafi verið tekin á grundvelli vinnureglna á Spáni sem byggja á stöðlum frá Sameinuðu þjóðunum. Spánverjar fylgi sömu viðmiðum og gert er hér á landi og allar mælingar ættu að fullnægja íslenskum stöðlum.