fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Fréttir

Allt í háaloft á hálendinu

Björn Þorfinnsson
Sunnudaginn 28. október 2018 13:30

Deilt hefur verið um lokun Vonarskarðs um árabil

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þróunin er í þá átt að þrengja aðgengi almennings að náttúruperlum. Við erum ekki hlynnt því nema að sterk náttúruverndarrök liggi að baki. Við teljum að engin slík rök séu á bak við lokun Vonarskarðs. Það má segja að baráttan um opnun skarðsins sé táknræn fyrir baráttuna um aðgengi almennings að hálendinu almennt,“ segir Skúli Skúlason, framkvæmdastjóri Ferðafélagsins Útivistar í samtali við DV. Rúm fimm ár eru síðan lokað var fyrir umferð um Vonarskarð í kjölfar stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs. Deilt hefur verið á þá ákvörðun æ síðan.
„Það hefur verið reynt að ná sáttum við stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs en öllum þeim tilraunum hefur verið hafnað. Nú hefur staðan versnað því auk lokunar Vonarskarðs hefur verið bannað að tjalda á þessu 100 ferkílómetra svæði sem endanlega útilokar að fólk geti notið þeirrar náttúru sem þarna er að finna,“ segir Skúli. Að hans mati eru engin vísindaleg rök að baki lokunar Vonarskarðs. „Þetta er gríðarstórt svæði, aðallega sandar og melar, en aðeins lítill hluti þess er virkilega viðkvæmurSnapadalur og hverasvæðin þar um kring. Þetta svæði er alltaf notað sem rök fyrir lokuninni. Á sama tíma er Vatnajökulsþjóðgarður að setja upp skilti og gera göngustíga inn í þetta viðkvæma svæði. Það er ákveðinn tvískinnungur,“ segir Skúli.

Slíta samstarfi við Landvernd

Á dögunum sögðu fimm útivistarfélög sig úr samstarfi við Landvernd vegna viljayfirlýsingar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands undir heitinu „Hálendið – Hjarta landsins“. Ritað var undir viljayfirlýsingu þann 7. mars 2016 en með úrsögninni líta útivistarfélögin svo á að Landvernd sé ekki aðili að samstarfi við félögin á grundvelli viljayfirlýsingarinnar. Félögin sem um ræðir eru Ferðafélagið Útivist, Íslenski alpaklúbburinn, Skotveiðifélag Íslands, Ferðaklúbburinn 4×4 og Kayakklúbburinn.
Ástæðan fyrir úrsögn félaganna er sú að í umsögn Landverndar um stjórnar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs lýsa samtökin yfir afgerandi stuðningi við áframhaldandi hömlur á aðgengi almennings í Vonarskarði. Í skriflegri yfirlýsingu, sem DV hefur undir höndum, segja forsvarsmenn félaganna fimm að erfitt sé að skilja umsögnin á aðra leið en þá að Landvernd hafi ekki hug á að standa við viljayfirlýsinguna og þá samstöðu sem félögin treystu á varðandi Miðhálendisþjóðgarð. Trúnaðarbrestur hafi átt sér stað og í ljósi þess er niðustaðan sú að Landvernd eigi að óbreyttu ekkert erindi í samstarf við félögin.
Í skriflegu svari til DV segir Rósbjörg Jónsdóttir, formaður Landverndar, að samtökin styðji og treysti niðurstöðum vísindamanna sem mæla með því að halda Vonarskarði lokuðu. „Við treystum því að stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs taki réttar ákvarðanir á grundvelli þess,“ segir Rósbjörg. Hún segist eiga von á því að funda með félögunum fimm á næstunni. „Við höfum alltaf verið tilbúin til að funda með þeim um málið, því það er meira sem sameinar okkur en sundrar. Við erum tilbúin að taka umræðuna um Vonarskarð en minnum á að það er stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs sem tekur þessa ákvörðun og svæðið er á þeirra ábyrgð,“ segir Rósbjörg.  
Sér ekki fyrir endann á átökum
Mjög skiptar skoðanir eru uppi vegna fyrirhugaðrar stofnunar Miðhálendisþjóðgarðs. Sumir tala um sjálfsagða verndun náttúruverðmæta til framtíðar en aðrir spyrja hvort vernda eigi manngerðar auðnir og hvort þrengja eigi enn frekar að rétti almennings til að fara um eigið land. Sumir taka svo djúpt í árinni að tala um pólítíska sýndarmennsku þegar ráðast eigi í stórt verkefni án þess að liggi fyrir hver sé ávinningurinn og hvernig eigi að fjármagna verkefnið. Bent hefur verið á að Íslendingum hafi ekki enn tekist að standa almennilega að þeim þjóðgörðum sem fyrir eru í landinu enda séu þeir vanfjármagnaðir. Jafnframt eru verulegar efasemdir um verkefnið á landsbyggðinni, óttast margir að tilgangurinn sé að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bráðabirgðaniðurstöður loðnumælinga gefa ekki ástæðu til bjartsýni

Bráðabirgðaniðurstöður loðnumælinga gefa ekki ástæðu til bjartsýni
Fréttir
Í gær

Ingibjörg sýnir hvernig sagan er að endurtaka sig og hvað getur „leitt okkur út úr þessum ógöngum“

Ingibjörg sýnir hvernig sagan er að endurtaka sig og hvað getur „leitt okkur út úr þessum ógöngum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Talsverð óánægja með nýja leikskólaskipulagið í Kópavogi – Mesta óánægjan með áhrif á fjárhaginn

Talsverð óánægja með nýja leikskólaskipulagið í Kópavogi – Mesta óánægjan með áhrif á fjárhaginn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ellert B. Schram fallinn frá

Ellert B. Schram fallinn frá