fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Fyrirsæta sem dvaldi á Íslandi talin hafa verið myrt – Heimsótti ömmu sína í Kópavogi á sumrin – Fjölskyldan berst við spillingu

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 26. október 2018 13:14

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í nóvember árið 2017 hrapaði litháísk fyrirsæta að nafni Dovile Didziunaityte til bana af hótelsvölum á fjórtándu hæð í borginni Klaipeda í Litháen. Dovile, sem á ömmu búsetta á Íslandi og hafði dvalið hér á sumrin, hafði að öllum líkindum verið byrluð eiturlyf og henni haldið nauðugri og henni nauðgað í marga daga samfleytt. Ættingjar hennar eru sannfærðir um að hún hafi verið misnotuð og myrt af háttsettum mönnum og í kjölfarið hafi verið hylmt yfir glæpinn. Um viku eftir dauða hennar lést hótelstarfsmaður á voveiflegan hátt.

Dovile Didziunaityte var sláandi fríð og hávaxin fyrirsæta sem bjó í Vilnius, höfuðborg Litháen. Hún var vinsæl bæði sem ljósmynda- og fatafyrirsæta og starfaði úti um allan heim, í Kína, Rússlandi, Þýskalandi, Spáni, Frakklandi og Ítalíu þar sem umboðsmaður hennar starfaði. Frá því að hún var ung stúlka kom hún til Íslands á sumrin og dvaldi hjá ömmu sinni sem er búsett í Kópavogi. Einnig dvaldi hún mikið hjá móður sinni í Noregi.

Amberton
Dovile féll niður 14 hæðir.

Féll fjórtán hæðir

Þann 10. nóvember árið 2017 kom Dovile að hafnarborginni Klaipeda í Litháen í fylgd með framleiðandanum Richard Pinik eftir tískusýningu í Vilnius. Hegðun hennar var undarleg, líkt og hún væri lyfjuð. Hún sagði engum í fjölskyldu sinni að hún væri í borginni og svaraði engum símhringingum. Þau innrituðu sig á Amberton-hótelið og fengu herbergi á fjórtándu hæð. Tveimur dögum síðar átti hún að vera komin til starfa í Ítalíu en lét ekki sjá sig. Hótelstarfsmenn sáu fjölda manns fara inn og út úr herberginu næstu tíu daga. Einnig sáu þeir menn með lyfjaglös.

Klukkan hálf átta um kvöldið þann 20. nóvember fannst Dovile látin fyrir utan hótelið. Hún hafði hrapað af svölum á gangi fjórtándu hæðar og látist samstundis. Lögregla kom á staðinn til að rannsaka málið en skömmu síðar gaf Gintautas Maciulaitis, lögreglustjóri borgarinnar, út yfirlýsingu um að líklegast hefði fallið verið slys.

Maðkur í mysunni

Margt benti hins vegar til þess að fall Dovile hefði ekki verið af slysförum eða sjálfsvíg. Fyrir ofan svalirnar voru tvær járnstangir og nokkuð mikið átak þurfti til að komast yfir þær. Fjórir menn höfðu komið inn á herbergið hennar þennan dag og einn þeirra sást á myndbandsupptöku elta Dovile út á svalir gangsins. Eftir það heyrðust óp.

Pinik var yfirheyrður en sagðist ekki hafa séð neitt og var honum í kjölfarið sleppt. Ekki hafði starfsfólk hótelsins heldur neitt að segja. Engu að síður var búið að þrífa og dauðhreinsa herbergið skömmu eftir fall Dovile þó að vitað væri að þar hefði verið mikið fyllerí í gangi. Þegar lögreglan kom var búið að eyðileggja mörg sönnunargögn þar. Ekkert í fari Dovile benti til sjálfsvígs, hún var hamingjusöm, átti góðan feril og gott samband við fjölskyldu sína og vini.

Móðir hennar, Daiva, flaug strax frá Noregi til Litháen og fór beint á Amberton-hótelið til að reyna að skilja hvað hafði gerst. Eftir að hafa skoðað aðstæður og rætt við fólk varð hún sannfærð um að lát Dovile hefði hvorki verið slys né sjálfsvíg. Einnig skildi hún ekki hvernig Pinik gat gengið laus þar sem hann hlyti að hafa komið að málinu.

Þann 29. nóvember, aðeins níu dögum eftir fall Dovile, fannst annað lík við Amberton-hótelið. Var það af 27 ára gömlum hótelstarfsmanni sem fallið hafði af þakinu á annarri bygginu hótelsins, tólftu hæð. Á þakinu fundust sími hans, lyklar og fleiri persónulegir munir. Lögreglan rannsakaði málið en fljótlega kom tilkynning frá lögreglufulltrúa um að dauðsfallið væri ekki talið hafa borið að með saknæmum hætti og tengdist falli Dovile ekki neitt.

Ísland
Dovile dvaldi hjá ömmu sinni á sumrin.

Fjölskyldan berst við spillingu

Við rannsókn á líki Dovile kom í ljós að hún hafði innbyrt mikið magn af deyfandi lyfjum og var með áverka sem bentu til barsmíða og fjölmarga marbletti á fótleggjunum. Hún hafði haft samfarir við að minnsta kosti tvo menn þennan dag og var lík hennar án nærklæða. Einnig fannst DNA-sýni sem passaði við lækni að nafni Aivaras Miltenis. Hann var einn af þeim fjórum mönnum sem komið höfðu á herbergið þennan dag.

Fjölskylda Dovile er sannfærð um að henni hafi verið haldið nauðugri og í lyfjamóki á hótelherberginu í tíu daga. Einnig að það hafi verið selt inn á hana og hátt settir menn nýtt sér það. Fjölskyldan telur líklegt að þegar Dovile rankaði við sér og reyndi að komast burt hafi henni verið fleygt fram af svölunum. Hefur frændi Dovile, Arunas Pakulevicius, gerst talsmaður fjölskyldunnar út á við og komið fram í fjölda viðtala.

Rannsókn málsins hefur verið mjög hæg. Pakulevicius sagði að fyrstu vikuna hefði ekkert verið gert og að lögmaður fjölskyldunnar þyrfti að hafa sig allan við til að þoka málinu áfram. Nú tæpu ári eftir dauða Dovile hefur enginn verið ákærður en mestur grunur beinist að Pinik og Miltenis.

Pakulevicius sagði í þættinum KK2:

„Ég er ekki reiður, en þetta er hættulegt öðru fólki. Maður er ekki sekur nema maður sé dæmdur en ef maður er grunaður um morð, nauðgun og eiturlyfjasmygl, þá ætti hann ekki að ganga laus. Það skapar hættu fyrir aðrar stúlkur.“

Rannsóknin stendur enn þá yfir og fjölskyldan er orðin þreytt á bið eftir réttlætinu og því að saksóknari beiti sér ekki í málinu. Þá sé Pinik ekki grunaður um morð heldur aðstoð við sjálfsvíg. Hefur fjölskyldan komið fram í viðtölum og skrifað opin bréf til að halda málinu lifandi, en í Litháen er mikil spilling, sérstaklega í réttarkerfinu og grunar fjölskylduna að málið verði einfaldlega látið niður falla.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Hafberg í Lambhaga lætur samkeppnisaðila sinn heyra það

Hafberg í Lambhaga lætur samkeppnisaðila sinn heyra það
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“
Fréttir
Í gær

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá