DV.is hefur fjallað ítarlega um braggamálið í vikunni en um er að ræða framkvæmd sem átti samkvæmt kostnaðarmati að kosta um 150 milljónir en hefur nú kostað Reykvíkinga yfir 400 milljónir. Málið er mjög umdeilt og er verkefnið til rannsóknar hjá innra eftirliti borgarinnar. DV.is hefur birt reikningana sem Reykjavíkurborg greiddi í tengslum við verkefnið, þar á meðal einn reikning þar sem misræmi er á milli talnanna í reikningnum og heildartölunni sem Reykjavíkurborg greiddi.
Um er að ræða reikning fyrir glerskerm og uppsetningu á barborði inni í bragganum. Efnið og vinnan kostaði 117.000 krónur og við það bætist virðisaukaskattur upp á 28.000. Heildartalan er því 145.000 krónur, en neðst í reikningnum stendur „Samtals 245.000“. Sérsmíði ehf. endurgreiddi borginni mismuninn daginn eftir að greiðslan barst.
Bjarmi Sigurðsson hjá Sérsmíði ehf. var fámáll þegar hann ræddi við DV um málið. Sagði hann það meira en sjálfsagt að endurgreiða ofgreiddan reikning frá borginni. „Finnst þér það ekki sjálfum?“ spurði Bjarmi.