Hilmar Ágúst Hilmarsson, flug- og athafnamaður, hefur verið dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir skjalafals. Hann var dæmdur fyrir að hafa lagt fram falsað afrit af hæfnisprófi fyrir Bombardier-flugvél af gerðinni BD-700 þegar hann sótti um endurútgáfu á flugliðaskírteini sínu fyrir slíka vél í september 2015.
DV fjallaði ítarlega á dögunum um farsakenndan rekstur Hilmars Ágústs á Reykjavíkurflugvelli. Hilmar Ágúst kom fyrir í Panamaskjölunum. Félag hans, Global Fuel, er skráð með lögheimili í Skýli 1 á Reykjavíkurflugvelli en fasteignin er í eigu Hilmars Ágústs í gegnum félagið Bjargfast ehf. Þar eru einnig önnur félög í eigu Hilmars Ágúst skráð með lögheimili. Meðal annars Heimflug, BIRK Invest, ACE FBO og Ace Handling.
Í fyrrnefndri umfjöllun DV kom fram að hinn dæmdi barnaníðingur, Sigurður Ingi Þórðarson, betur þekktur sem Siggi hakkari, væri skráður sem stjórnarformaður og framkvæmdastjóri síðan í maí síðastliðnum. Einn annar einstaklingur situr í stjórn Ace Handling, Robert Tomasz Czarny, sem einnig er dæmdur barnaníðingur.
Í dómi Hilmars Ágúst kemur fram að hann hafi ekki mætt í réttarsal. Samkvæmt dómi hefur hann einu sinni gengist undir sátt vegna tollalagabrots. Líkt og fyrr segir hlaut hann 60 daga skilorðsbundinn dóm fyrir skjalafals.
„Ákærði falsaði afrit af hæfniprófi fyrir BD-700 tegundaráritun, á tímabilinu 29. ágúst til 10. september 2015, með því að breyta skýrslu um hæfnipróf fyrir CL604/605 tegundaráritun, dags. 29. ágúst 2015, sem ákærði fékk eftir að hafa staðist hæfnipróf fyrir CL604/605 áritun hjá samþykktu þjálfunarfyrirtæki, þannig að CL604/605 skýrslan liti út fyrir að vera um hæfnipróf fyrir BD-700 tegundaráritun,“ segir í dómi.