fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fréttir

Sema Erla hrósar sigri – Snorri dæmdur fyrir hatursorðræðu gegn henni

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 17. október 2018 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 3. júlí 2016 birtist grein á dv.is með fyrirsögnina: „Sema Erla sökuð um herferð gegn Útvarpi Sögu:Birtir hatursfull skilaboð.“

Ein athugasemd sem skrifuð var undir fréttina hljómaði svo: „Vona að Sema Erla Serðir farist í næstu hryðjuverkaárás skítmenna af hennar tagi (múslimaskítmenna).“

Ummælin voru rituð í nafni Jónu Salmínu Ingimarsdóttur, sem í viðtali við DV nokkrum dögum síðar þvertók fyrir að hafa skrifað ummælin. Í ljós að það var eiginmaður hennar, Snorri Jónsson, sem ritaði þau í nafni konu sinnar. Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum ákærði hann fyrir hatursorðræðu vegna ummælanna, en í ákæru eru þessi orð talin fela í sér ógnun, háð, rógburð og smánun á opinberum vettvangi í garð ótiltekins hóps manna hér á landi vegna trúarbragða þeirra.

Í maí fór Sema Erla og bar vitni í málinu, en maðurinn neitaði sök í málinu. Dómurinn féll í málinu í júní, en hefur enn ekki birst opinberlega.

Í Facebook-færslu hjá Semu Erlu fyrr í dag segist hún hafa haft samband við dómstól og fengið afrit af dómnum. Segir Sema Erla að dómurinn sé stórsigur í baráttunni gegn hatursorðræðu.


Í dómsorði segir „að það sé hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og að útilokað sé að ummælin geti verið varin af skoðanafrelsisákvæði 73. gr. Stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 enda hefur ákærði sjálfur ekki byggt á því að þarna hafi hann verið að lýsa skoðunum sínum, hvorki á Semu Erlu né múslimum, heldur verður þvert á móti ráðið af framburði hans að hann hafi ekki verið að lýsa skoðunum sínum.“

Var Snorri dæmdur til að greiða 100.000 kr. sekt til ríkissjóðs innan 4 vikna, en sæta ella fangelsi í 8 daga. Hann var einnig til að dæma allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, auk ferðakostnaðar hans.

„Hatursorðræða er ofbeldi“

Segir Sema Erla dóminn mikinn sigur og marka tímamót í baráttunni gegn hatursorðræðu. „Dómurinn staðfestir að hatursorðræða er ekki varin af skoðanafrelsisákvæði Stjórnarskrárinnar, enda á hatursorðræða ekkert skilt við tjáningarfrelsi. Ekkert. Hatursorðræða er ofbeldi.“

Að lokum gagnrýnir Sema Erla tillögur sem lagðar eru fram til breytinga á lögunum sem taka á hatursorðræðu. Telur hún að í stað þess að þrengja eigi skilgreininguna á hatursorðræðu ætti að skilgreina hana betur.

Færsla Semu Erlu hljómar svona í heild sinni:

Stórsigur í baráttunni gegn hatursorðræðu!
Í maí s.l. fór ég og bar vitni í máli Lögreglunnar í Vestmannaeyjum gegn manni sem ákærður var fyrir hatursorðræðu. Ummælin, sem sjá má hér að neðan, voru skrifuð á vef DV.is, í nafni konu hans. Maðurinn var ákærður fyrir hatursorðræðu gagnvart múslimum, en ekki mér sérstaklega, þó nafn mitt komi þarna fram. Þrátt fyrir að maðurinn hafi viðurkennt að hafa skrifað þetta þá neitaði hann sök og hélt því fram að „ekki hafi vakað fyrir honum að smána, hæða, rógbera eða ógna á opinberum vettvangi með þessu“ og að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að ummælin myndu hafa áhrif. Ákærði vildi ekki tjá sig um afstöðu sína til múslima, hvorki í yfirheyrslu hjá lögreglunni né fyrir dómi. I wonder why.

Í júní s.l. var kveðinn upp dómur í málinu, en dómurinn hefur ekki enn verið birtur opinberlega, en eftir að hafa „refreashað“ vef dómstólsins í nokkra mánuði hafði ég beint samband við dómstólinn og fékk afrit af dómnum. Maðurinn var dæmdur fyrir hatursorðræðu. Að mati dómstólsins er það „augljóst að ummælin eru til þess fallin að hæðast að, rógbera, smána eða ógna múslimum almennt vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða…“

Í dómnum er síðan gengið lengra en upphaflega ákæran sem fjallar um hatursorðræðu gegn múslimum þar sem segir: „…en jafnframt Semu Erlu Serdaroglu þó að hún sé ekki múslimi.“ Þá segir í dómnum að það sé hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og að útilokað sé að ummælin geti verið varin af skoðanafrelsisákvæði 73. gr. Stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 enda hefur ákærði sjálfur ekki byggt á því að þarna hafi hann verið að lýsa skoðunum sínum, hvorki á Semu Erlu né múslimum, heldur verður þvert á móti ráðið af framburði hans að hann hafi ekki verið að lýsa skoðunum sínum.“

Þessi dómur er mikill sigur og markar tímamót í baráttunni gegn hatursorðræðu. Dómurinn staðfestir að hatursorðræða er ekki varin af skoðanafrelsisákvæði Stjórnarskrárinnar, enda á hatursorðræða ekkert skilt við tjáningarfrelsi. Ekkert. Hatursorðræða er ofbeldi.

Það sem er einkennir hatursorðræðu er að gerandinn sendir þolanda meiðandi skilaboð með vísan í stöðu beggja í samfélaginu og því hefur hún áhrif á og grefur undan rétti annarra til jafnréttis og þess að þurfa ekki að þola mismunun. Hún er notuð til þess að niðurlægja einstaklinga, gera lítið úr persónu þeirra og brjóta þá niður. Í hvert skipti sem hatursorðræða er notuð kostar hún einhvern hluta af þeim sjálfum, sjálfsmynd þeirra og hluta af sálarlífi þeirra. Hatursorðræða er stórhættulegt samfélagsmein. Hatursorðræða sem látin er óáreitt getur haft mjög alvarlegar afleiðingar en fæstir gera sér grein fyrir að fáein orð á Facebook eða öðrum miðlum geta haft mikil áhrif á einstaklinga og hópa auk þess sem það getur kveikt hugmynd eða sáð fræi í huga einstaklinga og hópa sem mögulega ganga þegar með einhverjar skaðvænlegar hugmyndir í kollinum enda er hatursorðræða oftast undanfari hatursglæps. Hatursorðræða getur ýtt undir þess konar ástand í samfélögum að ákveðnir hópar eru lítilsvirtir og mismunun þeirra almennt viðurkennd. Í alvarlegustu tilvikum leiðir það til samfélagsrofs.

Í þessu samhengi er ég hugsi yfir þeim tillögum sem lagðar hafa verið fram um breytingar á lögunum sem taka á hatursorðræðu. Í stað þess að þrengja skilgreininguna á hatursorðræðu ætti að skilgreina hana betur. Hið sama á við um hatursglæpi. Þegar kemur að því erum við langt á eftir nágrannaríkjum okkar, en víða eru td. heimildir til refsihækkunar ef hægt er að sýna fram á ásetning byggðan á neikvæðu viðhorfi.

Að mínu mati er galið að það eigi að fara að gera þolendum hatursorðræðu erfiðara fyrir með að leita verndar gegn ofbeldinu, nú þegar það er loksins orðið mögulegt. Slíkt er mikil afturför. Orðum fylgir ábyrgð og fólk verður að axla ábyrgð á því sem það segir.

Að lokum, mér ofbýður að heyra fulltrúa í nefndinni um þessi nýju lög tala um hatursorðræðu og móðganir í sömu umræðu, eins og gert var í Kastljósi í gær. Það lýsir miklu skilningsleysi. Hatursorðræða snýst ekki um að móðgandi hlutir séu sagðir við eða um einhvern eða leyfi til þess. Hatursorðræða snýst um ofbeldi sem m.a. verður til þess að fólk tekur sitt eigið líf, drepur stjórnmálafólk og fremur hryðjuverk. Þess vegna er hún hættuleg. Þess vegna hefur myndast víðtæk alþjóðleg samstaða um að mikilvægt sé að sporna gegn henni. Við eigum að taka skýra afstöðu í þeirri baráttu og berjast gegn því að hatursorðræða festi sig í sessi með öllum mögulegum leiðum!

Dómurinn í heild sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri