Í samtali við DV sagði Ómar Smári Óttarsson, einn þeirra sem fyrirtækið skuldar fjármuni, að hann sé búinn að tala við starfsmenn fyrirtækisins margoft vegna þessa og hafi honum alltaf verið lofað greiðslu innan skamms tíma. „Þeir sögðust líka bara ekki kannast við að ég hafi unnið hjá þeim. Þau báðu mig að senda aftur reikning þar sem þau sögðust aldrei hafa fengið upprunalega reikninginn. Þegar hann var loksins kominn til þeirra þá hættu þeir bara að hafa samskipti. Það endaði með að ég fór að reyna hitta á einn starfsmann og ræða við hann til að reyna fá launin mín, en án árangurs. Seinna fékk ég svo tölvupóst þess efnis að hann væri búinn að tilkynna mig til lögreglu þar sem hann taldi mig vera ógnandi.“
Friðrik Ólafsson, stjórnarformaður Solstice Productions, staðfesti við DV að lítið fjármagn væri til staðar hjá fyrirtækinu. „Það verður engin hátíð á næsta ári ef fjárfestar setja ekki aukið fjármagn inn í fyrirtækið. Veðrið fór alveg með okkur fjárhagslega á síðustu hátíð.“ Þegar Friðrik var spurður hvort fyrrverandi starfsfólk fengi greidd laun sín, sagði hann: „Eins og staðan er núna þá er nánast ekkert fjármagn inni í fyrirtækinu.“