Í gegnum aldirnar hefur Katla að meðaltali gosið á 47 ára fresti en nú eru sem sagt liðin 100 ár frá síðasta gosi. Bergrún sagði að það væru engin ný tíðindi að langt goshlé væri í Kötlu. Hún sagði að nýlegar efnagreiningar á gjóskulögum úr eldfjallinu megi túlka þannig að kvikuaðfærslukerfið sé að breytast og það megi tengja við gostíðni.
Á sögulegum tíma hefur gjóskutíðnin verið fremur lág og það sama á við um gjóskuframleiðni. Hún sagði að vísbendingar væru um að löng goshlé verði þegar kvikuaðfærslukerfi séu að breytast og það geti þýtt að gostíðnin aukist og eldsupptök verði á fleiri stöðum en ekki sé hægt að segja til um hvenær það gerist.