Svona hefst pistill Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Fréttablaðinu í dag. Í honum fjallar hún um okur í ferðaþjónustunni og níðingsskap þeirra atvinnurekenda sem níðast á erlendu verkafólki.
„Undanfarið hafa birst átakanlegar sögur af illri meðferð á erlendu verkafólki. Fólkið er ekki bara látið þræla í vinnu heldur er beinlínis lagt upp úr því að snuða það um laun á allan mögulegan hátt. Þegar forsvarsmenn fyrirtækja sem þetta stunda standa eftir sjónvarpsþátt berstrípaðir frammi fyrir alþjóð með svikastimpil framan á sér þá er þeim vitanlega brugðið. Þetta er ekki auglýsing sem nokkur fyrirtækjaeigandi sækist eftir. Fulltrúar fyrirtækjanna vita að umfjöllunin hefur valdið þeim stórskaða. Þeir hefðu betur mátt huga að því í upphafi, áður en þeir fóru að níðast á erlendu verkafólki. Illt er svo að ekki hafi hvarflað að þeim sú hugsun að starfa í anda hugmyndarinnar um íslenska gestrisni þar sem vel er tekið á móti ókunnum gestum. En þá er vissulega verið að fara fram á mikið, svo miklu meira en fulltrúar þessara fyrirtækja virðast færir um.“
Því næst víkur Kolbrún penna að ferðaþjónustunni sem henni finnst að gangi oft á tíðum ansi langt í verðlagningu á vörum og þjónustu.
„Hinir erlendu ferðamenn sem hingað til lands koma í stórum stíl eru blessunarlega, ólíkt fjölda erlendra verkamanna hér á landi, vel settir. Þeir kunna yfirleitt afar vel við sig og finnst landið bæði fagurt og frítt. Líklegra er þó en ekki að þeir verði fórnarlömb þess okurs sem hér viðgengst, til dæmis í verðlagi á hótelum og veitingahúsum. Einhverjir falla í þá gildru að kaupa sér hamborgara á 4.900 krónur þótt aðrir séu líklegir til að leggja hið snarasta á flótta frá þeim sölustað. Verðlag í ætt við þetta er ekki hægt að skrifa á hátt gengi krónunnar heldur stafar það af okri sem tíðkast ansi víða, þótt fulltrúar ferðaþjónustunnar séu merkilega tregir til að viðurkenna það. Óskandi er að þeir ranki við sér. Reyndar er engu líkara en þeir séu í fullkominni afneitun þegar orðið „okur“ er nefnt.“
Segir Kolbrún og bætir við að fulltrúar ferðaþjónustunnar syngi sífellt sama sönginn um að allt sé þetta háu gengi krónunnar að kenna.
„Gróðasjónarmiðin eru of ríkjandi innan ferðaþjónustunnar þar sem stöðugt er kvartað undan því að túristar séu upp til hópa ekki nógu ríkir og skilji ekki eftir sig nægilega mikinn gjaldeyri. Sumir þeirra leyfa sér jafnvel að ferðast á puttanum og versla í Bónus, sem þykir víst ekki fínt. „Græðgi virkar,“ sagði Gordon Gekko í kvikmyndinni Wall Street. Hún virkar á þann hátt að einhver græðir á kostnað annarra. Sá sem einblínir á gróða hefur ekki mikið rými til að sýna öðrum gestrisni. Hann græðir nefnilega ekkert á því. Og græðgin þykir svo miklu betri en gestrisni sem skilar engu í kassann.“
Segir Kolbrún að lokum í pistli sínum. Nú er bara spurning hvað fulltrúar ferðaþjónustunnar segja við þessum orðum Kolbrúnar.