fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fréttir

Segir skýrslu Hannesar Hólmsteins geta dregið úr trúverðugleika Íslands og Háskóla Íslands

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 1. október 2018 08:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og fram hefur komið í fréttum þá afhenti dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, skýrslu um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins 2008 í síðustu viku. Fyrir þessa skýrslu greiddu skattgreiðendur 10 milljónir króna.

Í pistli í Morgunblaðinu í dag fjallar Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, um skýrsluna og telur að hún sé til þess fallin að geta dregið úr trúverðugleika Íslands og Háskóla Íslands erlendis. Hún bendir á að það hafi verið formaður Sjálfstæðisflokksins sem fékk Hannes til verksins og þar með hafi einum helsta áróðursmeistara flokksins verið falin skýrslugerðin. Ekki nóg með það því Hannes sé beinlínis einn af þeim sem sköpuðu það ástand sem leiddi bankahrunið af sér.

„Í siðuðu ríki hefði verið ritað í inngangi að höfundur hennar hefði um áratugaskeið verið áhrifamaður bak við tjöldin í Sjálfstæðisflokknum, sem stýrt hefði landinu meira eða minna frá lýðveldisstofnun, og að hann hefði sömuleiðis um áratugaskeið verið einn aðaláróðursmeistari þess flokks. Enga slíka umfjöllun er að finna í skýrslunni. Þó má í inngangi lesa þann fyrirvara að höfundur hafi setið í bankaráði Seðlabankans og skipulagt nokkrar ráðstefnur fyrir hönd bankans sem kunni að valda einhverri skekkju á sýn hans á verkefnið.“

Segir Helga Vala í inngangi pistilsins og bætir síðan við:

„Dr. Hannes hefur á sínum ferli sjaldan farið leynt með sína flokkspólitísku afstöðu, enda engin þörf á því. Hann hefur um áratugaskeið skrifað lipurlega um málefni Sjálfstæðisflokks síns og önnur þau samfélagslegu mál hvar flokkur hans kemur við sögu, sem í ljósi stjórnarþátttöku flokksins er ansi víða. Hannes skrifar einnig lipurlega um málefni annarra flokka, aðkomu þeirra að ýmsum atburðum í sögu landsins en þó ævinlega með sinn Sjálfstæðisflokksbundna blekpenna að vopni. Hér á Íslandi ætti hver sá sem eitthvað hefur fylgst með stjórnmálum að geta greint skrif hans, greint að þar er þess gætt vandlega að sneiða framhjá hverju því sem fellt gæti skugga á hans Sjálfstæðisflokk sem og sneitt vandlega að því að krydda með frjálsu lagi hvað það sem gæti komið sjálfstæðisflokkspólitískum andstæðingum miður.“

Því næst víkur Helga Vala penna að því hvort það sé heppilegt að einstaklingur með þessa sögu sé fenginn til að rita skýrslu, sem á að vera trúverðug, um þetta mál:

„En þá komum við að því hvort það sé heppilegt að íslensk stjórnvöld séu að velja slíkan einstakling til verks þegar rita á trúverðuga skýrslu fyrir íslenska ríkið á erlendri tungu, hvar tilgangurinn virðist að koma í dreifingu sem víðast um heim? Erlendir aðilar hafa mögulega ekki tök á að greina að dr. Hannes hafi ekki bara verið óháður stjórnarmeðlimur í Seðlabankanum heldur beinlínis einn af sköpurum þess ástands sem leiddi af sér hið íslenska bankahrun. Þegar skýrsla dr. Hannesar er þar að auki stimpluð í bak og fyrir með velþóknun íslenskra stjórnvalda er hætta á að lesandi álykti að hér sé á ferðinni vandað faglegt rit frá virtum Háskóla. Þegar æviferill höfundar verður lesendum ljós er hætta á að það rýri enn frekar trúverðugleika Íslands og Háskóla Íslands í augum umheimsins. Það, auk milljónanna tíu sem við greiddum fyrir verkið getur orðið okkur ansi dýrkeypt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Hraun hefur runnið yfir Njarðvíkuræð

Hraun hefur runnið yfir Njarðvíkuræð
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar