Eyþór Arnalds, frambjóðandi í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, er ekki með gráðu í hagsögu frá Harvard Business School. Áberandi er á Facebook-síðu Eyþórs, sem og í kynningu á honum á vef Sjálfstæðisflokksins að hann hafi verið í framhaldsnámi við hinn virta Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Á Facebook-síðu Eyþórs mætti ætla að hann hefði útskrifast úr Harvard en staðreyndin er hins vegar sú að Eyþór hefur lokið stuttu námskeiði við stjórnunarskóla Harvard.
DV hafði samband við skrifstofu Harvard Business School. Engar upplýsingar eru til um nemanda að nafni „Eyþór“ eða „Arnalds“ og nemandi með því nafni hefði aldrei útskrifast úr Harvard eða stundað þar nám í meira en sjö vikur. „Ég finn hann hvergi í okkar gögnum, það er samt möguleiki á að hann hafi sótt stutt námskeið við stjórnunarskóla Harvard, það yrði þá að vera undir sjö vikum,“ sagði starfsmaður Harvard Business School í samtali við DV.
Eyþór brást ekki vel við spurningum DV um námið. „Hver er spurningin? Hvort ég hafi verið í Harvard? Það liggur fyrir. Það er staðreynd.“ Eyþór hafnar því alfarið að vera að skreyta sig með stolnum fjöðrum. „Þetta er ekki gráða heldur stjórnendanám, ýmsir stjórnendur, þar á meðal á Íslandi hafa sótt slíkt nám. Ég hef hvergi sagt að ég hafi útskrifast þaðan enda gerði ég það ekki.“ Telur Eyþór að vangaveltur um nám hans séu runnar undan rifjum pólitískra andstæðinga: „Það er margt gagnlegra fyrir borgina en að reyna að koma höggi á samherja. Það ekkert sem dregur stjórnmálin eins mikið niður og stjórnmálamenn sjálfir, eða þeir sem vilja vera stjórnmálamenn.“
Ef Facebook-síða Eyþórs er skoðuð má sjá Harvard koma þar þrisvar fyrir og einum stað stendur einfaldlega: Útskrifaðist úr Harvard 2010. Segir Eyþór að Facebook bjóði ekki upp á aðra möguleika til að greina frá því að viðkomandi hafi lokið námi eða námskeiði við skólann og þetta sé nýtt til að koma höggi á hann daginn fyrir prófkjör.
Eyþór vildi koma athugasemd á framfæri og sagði um misskilning hefði verið að ræða. Hann hefði sótt námskeið sem er á vegum Harvard Kennedy School sem er hluti af Harvard. Eyþór segir:
„Ég hef eins og margir aðrir stjórnendur farið í stjórnendanám en auk MBA námsins sem ég tók hjá HR sótti ég “executive education” í Harvard. Meðal prófessora voru Niall Fergusson og Aldo Musacchio,“
Uppfært: 17:50