Í vikunni var greint frá því að 18 ára gamall hælisleitandi frá Marokkó hefði orðið fyrir hrottalegri líkamsárás á Litla-Hrauni. Mun drengurinn, sem er í haldi vegna ítrekaðra tilrauna til að komast úr landi með því að smygla sér um borð í flutningaskip, hafa verið að spila körfubolta í íþróttahúsi fangelsisins þegar árásin átti sér stað.
Samkvæmt heimildum DV höfðu tveir fangar sig mest í frammi, Baldur Kolbeinsson og Trausti Rafn Hendriksson, en hópur annarra fanga tekið þátt í henni. Samkvæmt heimildum DV hafði ungi hælisleitandinn átt í deilum við hóp fanga um nokkurt skeið. Gengu hótanir á víxl þar til upp úr sauð með hinum framangreinda voveiflega hætti.
Baldur hefur meira og minna setið í fangelsi frá sautján ára aldri. Hann hefur ítrekað ratað í fréttirnar fyrir átök við samfanga sína í gegnum árin. Hann hlaut 18 mánaða fangelsisdóm árið 2014 fyrir tvær líkamsárásir sem framdar voru með nokkurra mánaða millibili á útivistarsvæðinu á Litla-Hrauni.
Sú fyrri var sérstaklega hrottalegt en þá makaði hann saur í munn samfanga auk þess að slá hann í höfuð og líkama. Þá greindi DV frá því í júlí 2017 að Baldur hefði lent í átökum við annan fanga, Styrmi Haukdal Snæfeld Kristinsson, á gervigrasvelli við fangelsið. Styrmir hafði haft Baldur undir í átökunum en þá brást Baldur við með því að bíta stykki úr efri vör Styrmis og spýta því út úr sér.