Meira en helmingur landsmanna, eða 54%, telja Ísland gera of lítið til að aðlagast loftslagsbreytingum. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Gallup á viðhorfi Íslendinga til umhverfis- og loftslagsmála kynnt á ráðstefnu í Hörpu í dag.
Fram kemur í niðurstöðum rannsóknarinnar að landsmenn telja íslenska stjórnmálamenn gera of lítið til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda og tæplega helmingur aðspurðra telur sig hafa séð eða upplifað afleiðingar loftslagsbreytinga í sínu sveitarfélagi.
27% fólks á aldrinum 18-34 ára telja loftslagsbreytingar og umhverfismál vera eina af helstu áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í dag. Landsmenn gera ýmislegt til að draga sjálfir úr losun en 82% svarenda hefur flokkað sorp, 70% hafa minnkað plastnotkun og 44% hafa keypt umhverfisvænar vörur. Hlutfallslega fleiri konur en karlar hafa gert eitthvað af þessu þrennu.