Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins gagnrýnir vinstrimenn, sérstaklega Pírata og Samfylkinguna, fyrir að kenna sig við frjálslyndi og segir það í engu samræmi við stefnu flokkana. Gunnar Smári Egilsson sósíalistaforingi og fyrrverandi útgefandi gagnrýnir Brynjar á móti og segir Sjálfstæðisflokkinn ekki hafa neinn áhuga á frelsi annarra en hinna ríku. „Til að ná til yngri kjósenda hafa vinstri flokkar stundum kennt sig við frjálslyndi, eins öfugsnúið og það er nú. Fyrst gerðist það þegar klofningur úr Sósíalistaflokknum á sjöunda áratugnum fór í framboð undir nafninu „Samtök frjálslyndra og vinstri manna“. Þeir voru auðvitað jafn botnfreðnir sósíalistar og aðrir í gamla flokknum. Nú um stundir eru helst vinstri menn í Samfylkingunni og Pírötum sem trúa því að þeir séu frjálslyndir auk flokks sem stofnaður var í þeim tilgangi að berjast fyrir inngöngu í Evrópusambandið og kallar sig Viðreisn,“ segir Brynjar í færslu á Fésbók, þeirri þriðju eftir að hann sneri aftur á samfélagsmiðlinn eftir sjálfskipaða útlegð síðustu mánuði.
Brynjar segir þá sem kenna sig við frjálslyndi eiga það helst sameiginlegt að vilja að ríkið hafi eftirlit með nánast öllu sem einstaklingar geri, þá oftast í nafni réttlætis og jafnréttis: „Svo þarf að hafa vit fyrri okkur í hegðun og tjáningu með beitingu refsinga og annarra valdheimilda ríkisvaldsins. Engum öðrum en ríkinu er treystandi fyrir því að reka ljósvakamiðla eða sinna heilbrigðisþjónustu, hvað þá selja áfengi, og allir eigi að hafa sömu laun óháð getu eða framlagi. Í þeim efnum skiptir samkeppni og markaður engu máli. Best væri að ríkið tæki öll laun til sín og úthlutaði síðan eftir þörfum. Og skrítnast að öllu er að telja inngöngu í lokað hagsmuna- og tollabandalag, sem kæfir hvern meðalmann í regluverki og afskiptasemi, sé ótvírætt merki um frjálslyndi,“ segir Brynjar og bætir við að það klikki aldrei að kalla þá sem skilji þetta frjálslyndi siðspillta sérhagsmunaseggi.
Gunnar Smári segir þetta fórnarlambsblæti. „Þið hafið verið við meiri völd og lengur en nokkur flokkur, lagt kalda náhönd ykkar yfir allar kröfur um samfélagsbreytingar og staðið vörð um stöðnun og valdaleysi almennings, plantað varðhundum ykkar um kerfið sem hafa svo setið á upplýsingum, tafið framfarir og beitt dómstólum til að hefta tjáningarfrelsi og halda venjulegu fólki undir hæl valdsins. Svo þegar þið lítið yfir óskapnaðinn sem þið hafið skapað stökkvið þið upp og kennið einhverjum vinstrimönnum um, fólki sem hefur aldrei haft nein teljandi völd á Íslandi,“ segir Gunnar Smári, hann bætir við: „Sjálfstæðisflokkurinn hefur engan áhuga á frelsi annarra en hinna ríku til að koma sér undan ábyrgð og sköttum, að hlaupa með hagnaðinn af verstöðinni til útlanda. Þetta er flokkur þrælahaldara sem fyrirlíta almennilegt fólk. Og markaðurinn er ekki frjáls, Það vita það allir. Markaður er vettvangur þar sem hinn fjársterkasti kemur vilja sínum fram.“
Brynjar segir að hann hafi aðeins verið að velta fyrir sér hugtakinu „frjálslyndi“ og hvort merking orðsins hafi skolast til í seinni tíð. Gunnar Smári spurði þá á móti: „Ég veit ekki Brynjar, segðu mér. Þú ert á þingi og manna mest í dauðafæri til að vinna að framgangi frjálslyndis. Ertu til í að lista upp þau mál sem þú hefur lagt fram og ætlað var að styðja, verja og efla frjálslyndi?“