fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Sverrir er strætóbílstjóri og bóndi: „Ég hef alltaf verið í vinnu og þetta hefur alltaf snúist um það“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 27. september 2018 09:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er ættaður frá Landeyjum, og fór á sjóinn strax eftir gagnfræðapróf en hjálpaði alltaf til þegar ég var í landi og stuðlaði að uppbyggingu á jörðinni minni sem hefur verið í eigu fjölskyldunnar í tvö hundruð ár. Ég vann strax sem barn, handmjólkaði og sló með orfi og ljá, nokkuð sem engu barni væri leyft í dag. Ég tók síðan alfarið við jörðinni árið 1972 og sá um hana þar til sonur minn tók við helmingnum.“

Þetta segir Sverrir Kristjánsson, strætóbílstjóri og bóndi, en saga hans birtist á síðunni Fólkið í Eflingu. Þar segir hann frá því hvað kom til þess að hann hafi byrjað að keyra strætó 65 ára. „Það var eftir sauðburð, þegar ég var búin að bera á túnin að mig langaði að prófa eitthvað annað og fór að kíkja í kringum mig og fékk tvær ferðir með túrista sem ég fór með yfir hálendið og það má segja að þar með hafi ég komist á bragðið og í desember daginn fyrir 65 ára afmælið mitt réð ég mig hjá Allrahanda sem voru þá með samning við strætó. Þessir rosknu bílstjórar sem voru aðeins eldri en ég og voru enn þá að keyra hjá fyrirtækinu skildu ekkert í þessu af því þeim hlakkaði svo til að hætta og komast á lífeyri,“ segir Sverrir.

Að hans sögn er strætóbílstjórastarfið skemmtilegt. „Í desember verð ég 76 ára og þá hef ég keyrt strætó í ellefu ár en síðustu 8 árin hjá Kynnisferðum sem tóku við samningum við strætó árið 2010. Mér finnst strætóbílstjórastarfið hvort tveggja lífrænt og skemmtilegt starf en það á vel við mig að eiga samskipti við fólk. Suma daga talar maður meiri ensku en íslensku af því þetta er orðið svo mikið af túristum í borginni,“ segir Sverrir.

Hann segist einu sinni hafa lent í kröppum dans. „Maður þarf að vera vakandi í umferðinni og starfið krefst athygli, ég þarf að vera fljótur að hugsa og vera nákvæmur, en fólk þarf að ná næsta bíl og það má engu muna. Ég má eiga það að hafa ekki skilið eftir rispu á neinum af þeim bílum sem ég hef keyrt á þessum ellefu árum og það kalla ég gott. Eina vonda uppákoman sem ég hef lent í var þegar barn hjólaði fyrir strætó þegar ég var að keyra leið 35 í Kópavogi en ég var sem betur fer á hægri ferð og náði að beygja og barnið slapp alveg heilt frá þessu,“ segir Sverrir.

Hann segir ferðamennum fjölgi mikið meðal ferðþega. „Síðan ég byrjaði að keyra hefur farþegum fjölgað í strætó og það eykst bara með hverju árinu. Túristunum og börnunum fjölgar, sérstaklega í nýju barnahverfunum eins og Lindunum í Kópavogi, börnin taka strætó í skóla og í tómstundirnar. Síðan eru það gamalmennin sem maður verður að hugsa um og taka tillit til, það er ekki öruggt að fara af stað fyrr en þau hafa fengið sér sæti,“segir Sverrir.

Hann segir að auðmenn hafi slæm áhrif á landbúnað á Íslandi. „Ég var ekkert að hika þegar sonurinn og tengdadóttir mín sýndu því áhuga að taka við hálfri bújörðinni. Ég losaði mig við sauðféð fyrir tveim árum og er enn þá með hluta af hrossunum og framleiði folöld en sonur minn tók við kúabúinu og hluta af hrossunum. Það er ekkert einfalt að byrja að búa í dag, jarðirnar eru orðnar svo dýrar og ég var þakklátur fyrir það að unga fólkið þurfti ekki að leggja út í mikinn kostnað þegar það tók við búinu. Það var auðvitað eitt sem gerðist fyrir hrun að auðmenn voru að kaupa upp jarðir og þetta hækkaði upp úr öllu valdi og alls ekki í neinu samræmi við það sem svona jarðir gefa af sér,“ segir Sverrir.

Hann lýsir því hvernig dagar hans líða. „Ég er með afdrep í Vogunum þar sem ég halla mér þegar ég er í bænum, ég vakna klukkan fimm og fæ mér hafragraut og lýsi og labba síðan niður á bensínstöðina, þar er smölun og við keyrum saman niður að Klettagörðum þar sem strætóflotinn bíður okkar. Það eru lítil samskipti við hina bílstjórana og vinnuveitendur af því að við erum ein að keyra á mismunandi vöktum og hittumst lítið en þetta er allt dásamlegt fólk sem ég vinn með. Á morgnanna byrja ég um hálf sjö að keyra og lýk vinnudeginum um fjögur leytið. Dagana sem ég er á kvöldvakt byrja ég í kringum fjögur og er þá komin heim til mín undir tvö og fæ mér þá gjarnan harðfisk með sméri. Ég er alin upp á saltfisk og borðaði hann jafnvel þurran eins og sælgæti, og þakka því minni góðu heilsu þótt að saltmagnið hafi stundum fengið hjartað til að slá örar. Konan mín er fyrir austan en við keyptum gamlan skólastjórabústað þar sem við höldum heimili til þess að unga fólkið fái að vera út af fyrir sig. Ég fer heim að hjálpa til á jörðinni ef ég á frí, sem er ekki frí af því ég fer heim til að vinna. En mér líður líka alltaf best á hreyfingu, ég þarf að puða og láta blóðið renna enda er ég svo ágætur til heilsu, aldrei misdægurt þrátt fyrir að hafa puðað alla mína tíð,“ segir Sverrir.

Hann hyggst ferðast meira á næstunni: „Við konan áttum 40 ára brúðkaupsafmæli á síðasta ári og sama ár varð ég 75 ára, við héldum upp á þessi tímamót og fórum í Thaílandsferð í mars með vinahjónum okkar. Sú ferð var plönuð af vinum okkar sem eru betur að sér í ferðalögum en við, en það var dásamleg ferð og ég sé ekki eftir því. Næst erum við að velta fyrir okkur að fara til Bali og við keyptum okkur reyndar húsbíl og keyrðum um Norðurland í sumar, við ætlum að reyna að gera meira af því að taka okkur frí og ferðast í framtíðinni. Ég hef alltaf verið í vinnu og þetta hefur alltaf snúist um það. Langir vinnudagar, búskapur og langar vökur á sjónum. Ég er mjög sáttur við þannig líf, mig hlakkar alltaf til næsta dags. En konan er stundum að spyrja mig hvort að þetta sé ekki að verða gott.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?
Fréttir
Í gær

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt
Fréttir
Í gær

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti