Neminn fyrrverandi þarf því að greiða rúmlega 800.000 krónur fyrir að hafa sótt tvær kennslustundir í skólanum. Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Friðjóni Sæmundssyni, skólastjóra Ferðamálaskólans, að ekki sé hægt að prufa námið og fólk geri sér grein fyrir hvað felst í að sækja um skólavist.
„Í þessu máli er þetta svolítið eins og ef þú ferð á veitingastað, borðar forrétt, hluta af aðalréttinum og segist svo ekki ætla að borga.“
Er haft eftir Friðjóni.
Þetta er þriðja málið þessarar tegundar sem endar fyrir dómstólum en skólinn hefur haft betur í þeim öllum. Í dómsniðurstöðu segir að það að þrjú svona mál hafi komið til kasta dómstóla ættu að vera skólanum hvatning til að íhuga hvort ekki megi bæta form umsókna.
Neminn fyrrverandi taldi að munnlegur samningur hefði verið gerður um að hann fengi að sitja prufutíma og ekkert í umsóknarskjali um skólavist hafi borið með sér að hann hefði skuldbundið sig til að greiða skólagjöldin.