fbpx
Miðvikudagur 04.desember 2024
Fréttir

„Þorgeir er ekki hér og verður ekki hér“

Ari Brynjólfsson, Kristjón Kormákur Guðjónsson
Laugardaginn 8. september 2018 16:00

Velunnarar Krýsuvíkursamtakanna fyrir utan heilbrigðisráðuneytið á miðvikudag. Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðstandendur meðferðarheimilisins í Krýsuvík róa nú að því öllum árum að reyna koma í veg fyrir að starfsemin verði stöðvuð. Sú ákvörðun var tekin í heilbrigðisráðuneytinu að hætta að styrkja samtökin eftir að DV fletti ofan af hverju hneykslinu á fætur öðru. Heilbrigðisráðherra var afhentur undirskriftalisti á miðvikudaginn. Þá hafa fjölmargir einstaklingar sem koma að Krýsuvíkursamtökunum ritað greinar í fjölmiðla í vikunni og kallað eftir því að meðferðarheimilinu verði haldið opnu. Greinarnar eru allar af svipuðum meiði, skrifaðar af því fáa starfsfólki sem eftir er og skjólstæðingum. Samkvæmt þeim greinahöfundum er Krýsuvík besta meðferðarstöð í landinu og ekkert minnst á kynferðisofbeldi, óttastjórnun eða sóun á fé, en styrkir frá ríkinu hafa verið nýttir til að kaupa glæsikerrur. Í greinunum er talað um athugasemdir en sannleikurinn er að meðferðarstarfið þar hefur verið í molum. Það er ástæðan fyrir því að heilbrigðisráðuneytið hefur ákveðið að hætta að styrkja meðferðarstöð þar sem bruðlað er með almannafé.

Safnað á AA-fundum

Safnað var tæplega 1.800 undirskriftum sem afhentar voru ráðuneytinu á miðvikudag. Samkvæmt heimildum DV var undirskriftunum meðal annars safnað fyrir utan AA-fundi og að dæmi séu um að undirskriftum hafi verið safnað í gegnum athugasemdir á samskiptamiðlum.

Kristbjörg Steinunn Gísladóttir, forstöðukona Krýsuvíkurheimilisins, er á meðal þeirra sem hafa skrifað grein í fjölmiðla í vikunni. Sagði hún í grein í Morgunblaðinu á miðvikudaginn að „sumt hefði mátt fara betur í starfsemi meðferðarheimilisins“. Hún segir í samtali við DV að það séu ekki samtökin sjálf sem standi að baki undirskriftasöfnuninni heldur velunnarar samtakanna. Tekið skal fram að hún sendi út fréttatilkynningu fyrir velunnara samtakanna á miðvikudag þar sem hún óskaði eftir nærveru fjölmiðla. DV var eini stóri fjölmiðillinn sem fékk ekki boð á afhendingu undirskriftanna. Kristbjörg brást hvöss við spurningum blaðamanns hvort búið væri að gera úrbætur á starfseminni í samræmi við athugasemdir Landlæknis.

„Við höfum brugðist við öllum tilmælum Landlæknis. Ég veit það bara að Þorgeir er ekki hér og verður ekki hér,“ sagði Kristbjörg.

Soffía Smith, fulltrúi fyrrverandi skjólstæðinga í bata, sagði í samtali við blaðamann DV fyrir utan ráðuneytið á miðvikudag að ef það kæmi ekki fjármagn frá hinu opinbera þá yrði Krýsuvík lokað 1. nóvember næstkomandi. Það væri hjartans mál að meðferðarheimilinu yrði haldið opnu. „Við viljum alls ekki láta loka þessu. Það er nauðsynlegt að það séu margvísleg meðferðarúrræði í boði og þeim má alls ekki fækka. Þetta er dauðans alvara,“ segir Soffía.

Ástarsambönd og pallbíll

Meðferðarheimilið Krýsuvík. Mynd/DV: Sigtryggur Ari

Velunnarar Krýsuvíkursamtakanna hafa fengið ýmsa með sér í lið sem nú dásama meðferðarstarfið. Á vefmiðlinum Miðjunni var vitnað í Þór Saari, fyrrverandi þingmann, sem sagði að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ætlaði „… líka að láta loka í Krýsuvík, einhverju merkilegasta og mikilvægasta meðferðar úrræði sem í boði er.“

Á þessari merkilegustu og mikilvægustu meðferðarstöð hefur þetta átt sér stað síðustu árin.

Staðfest var að Þorgeir Ólason, forstöðumaður heimilisins fram á þetta ár, átti í óeðlilegum samskiptum við kvenkyns skjólstæðinga heimilisins, jafnvel ástarsamböndum. Hann var sendur í tveggja mánaða leyfi í janúar.

Samningi Sjúkratrygginga Íslands við samtökin var rift í maí síðastliðnum. Krýsuvík hafði fram að því fengið árlega um 120 milljónir af almannafé.

Í maí í fyrra keyptu samtökin stóran pallbíl sem með öllu kostaði vel á tíundu milljón króna. Kostnaðurinn nam því tæplega 10 prósentum af því fjárframlagi sem samtökin nutu frá ríkinu á ári. Bíllinn var keyptur fyrir Þorgeir Ólason, þáverandi forstöðumann. Það var ekki einu sinni hægt að kaupa nagladekk fyrir þann bíl sem notaður var til að ferja ráðgjafa og aðra starfsmenn upp í Krýsuvík. Á sama tíma voru keypt dekk fyrir þrjú hundruð þúsund undir glæsikerruna.

Þorgeir Ólason, fyrrverandi forstöðumaður í Krýsuvík.

Þá fjárfesti Lovísa Christiansen, þáverandi framkvæmdastjóri Krýsuvíkursamtakanna og móðir Þorgeirs, í glænýrri Skoda Octavia-bifreið fyrir sjálfa sig í nóvember 2012. Kaupverðið var 4,7 milljónir króna. Það verður að teljast einkennileg ráðstöfun fjár á meðferðarheimili, sem að sögn forsvarsmanna nær varla endum saman. Sérstaklega í ljósi þess að skrifstofa Krýsuvíkursamtakanna, þar sem Lovísa starfar dagsdaglega, er 300 metrum frá heimili hennar í Hafnarfirði.

DV upplýsti um að minnsta kosti þrjá aðra starfsmenn sem hafa átt kynferðislegt samneyti með skjólstæðingum. Einn þeirra hefur verið kærður til lögreglu.

Landlæknir gerði úttekt á starfsemi heimilisins árið 2016 og gerði nokkrar alvarlegar athugasemdir. Hálfu ári síðar kom í ljós að stjórnendur höfðu virt athugasemdir Landlæknis að vettugi. Helsta gagnrýni Landlæknis sneri að því að engir starfsmenn væru á heimilinu eftir klukkan fjögur á daginn og enginn um helgar.

Afstaða stjórnenda heimilisins var og er enn sú að því fyrirkomulagi verði ekki breytt. Sjúklingarnir eru því einir í Krýsuvík í um 15 til 17 klukkutíma á sólarhring. Sú yfirlýsing að fjárskorti sé um að kenna vekur vitaskuld athygli þegar hægt er að eyða vel á annan tug milljóna af fé frá ríkinu í glæsikerrur fyrir mæðginin sem stjórna meðferðarstöðinni.

Það er mat Þórs Saari og velunnara Krýsuvíkursamtakanna að þetta sé besta meðferðarstöð á Íslandi. Hvort það sé rétt verða lesendur að meta sjálfir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Halla Gunnarsdóttir nýr formaður VR

Halla Gunnarsdóttir nýr formaður VR
Fréttir
Í gær

Listamenn sárir yfir „óþarflega móðgandi“ synjunarbréfum- „Þetta þarfnast skýringa og afsökunarbeiðni til listamanna, sem er réttilega misboðið“

Listamenn sárir yfir „óþarflega móðgandi“ synjunarbréfum- „Þetta þarfnast skýringa og afsökunarbeiðni til listamanna, sem er réttilega misboðið“