Lifandi snákur fannst í álverinu í Straumsvík þann 26.ágúst síðastliðinn. DV bárust meðfylgjandi myndskeið og ljósmyndir af dýrinu.
Bjarni Már Gylfason upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi staðfestir þetta í samtali við DV. Aðspurður telur hann líklegt að um sé að ræða algenga snákategund sem lifir bæði í Evrópu og Ameríku og að öllum líkindum sé um að ræða svokallaðan grassnák. Hann segist ekki vita um fleiri tilfeli af þessu tagi í álverinu.
„Hann finnst úti á plani, nálægt höfninni hjá okkur. Það var strax tekið á málinu og hringt á meindýraeyði sem kom og fjarlægði snákinn og fargaði honum. Þannig að það voru í sjálfu sér engir eftirmálar af þessu og engin vandamál.“
Almennt bann hefur ríkt við innflutningi skriðdýra á borð við slöngur, skjaldbökur og eðlur frá því snemma á 9. áratug síðust aldar.
Líkt og fram kemur á heimasíðu MAST koma skriðdýr alltaf öðru hvoru til kasta bæði heilbrigðis- og lögregluyfirvalda. Slíkum dýrum ber að farga og eyða af öryggisástæðum og er þá í langflestum tilfellum framkvæmd rannsókn á mögulegu salmonellasmiti á Keldum.