„Við getum sagt að það sé alveg merkilegt að slysin hafi ekki verið fleiri þarna, og auðvitað á mörgum af þessum ferðamannastöðum. Það þarf alltaf að láta ljósmynda sig á mörkum lífs og dauða.“ Þetta segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, um hegðun sumra ferðamanna sem heimsækja Gullfoss.
Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Blaðið birtir myndir af ferðamönnum sem hafa viðvaranir og merkingar að engu og fara að bjargbrúninni við Gullfoss. Þar er grasið blautt og hált og auðvelt að skrika fótur. Ekki þarf að spyrja að leikslokum ef fólk dettur í Gullfoss.
Blaðið hefur eftir Ástu Stefánsdóttur, sveitarstjóra í Bláskógabyggð, að fólk sé í lífsháska þarna og vanmeti aðstæður og ofmeti eigin getu. Hún sagði að reynt hafi verið að merkja hættulegustu staðina, staði þar sem slys hafa orðið í gegnum tíðina en spurningin sé hversu langt eigi að ganga.