fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fréttir

Popúlismi – Hið rísandi stjórnmálaafl hægri vængsins í Evrópu  

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 2. september 2018 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Popúlismi, sem sumir kalla lýðhyggju eða lýðskrum, er á uppleið og þá sérstaklega meðal evrópskra hægrimanna og í Bandaríkjunum þar sem Donald Trump komst til valda með kosningabaráttu sem rekin var á grunni popúlisma. Í Evrópu hafa ýmsir stjórnmálaflokkar á hægri vængnum verið stimplaðir sem popúlistaflokkar. Utan Evrópu hafa sumir stjórnmálamenn og flokkar einnig fengið popúlistastimpilinn og þá ekki endilega flokkar á hægri vængnum.

Popúlismi er frekar nýtt hugtak/orð í umræðunni en þessi grein stjórnmálanna kom fyrst fram á sjónarsviðið fyrir alvöru um aldamótin og hefur vaxið mikið síðan og sótt mjög í sig veðrið í Evrópu og víðar.

Hvað er popúlismi?

Hvað er popúlismi? Ekki eru allir á eitt sáttir um hvað popúlismi er en hér verður reynt að setja fram skilgreiningu á því hvað felst helst í þessu hugtaki en eflaust eru ekki allir sammála þeirri skilgreiningu.

Í stjórnmálafræði er talað um popúlisma sem hugmyndafræði sem skiptir samfélaginu í tvennt, tvo hópa sem standa andspænis hvor öðrum. Þetta er „góða fólkið“ og „hin spillta elíta“ eins og Cas Mudde, höfundur Populism: A Very Short Introduction segir. En svo má spyrja hvort þriðji hópurinn sé ekki til staðar, hópur sem er einhvers staðar á milli þessara tveggja, fólk sem tilheyrir ekki „hinni spilltu elítu“ og á ekki hugmyndafræðilega samleið með „góða fólkinu“ sem er oft hlynnt móttöku flóttamanna og umburðarlynt hvað varðar trúarskoðanir fólks. Hugtakið popúlismi hefur oft verið notað í niðrandi merkingu, sem pólitísk móðgun. En kannski er að verða breyting þar á því sumir frammámenn í popúlistaflokkum eru sjálfir farnir að nota orðið yfir sig, flokk sinn og stefnu og eru þar með farnir að gera hugtakið sjálft jákvætt.

Benjamin Moffitt, höfundur The Global Rise of Populism, segir að orðið popúlismi sé almennt notað á rangan hátt, sérstaklega í evrópsku samhengi. Hinn sanni leiðtogi segist vera fulltrúi „vilja fólksins“ og standi andspænis óvini, sem er oft tengdur núverandi kerfi, og hyggist taka til og/eða berjast við hina „frjálslyndu elítu“. Þá gera popúlistar mikið út á þjóðernishyggju og finna oft einhvern „óvin“ sem þarf að taka á. Elítan er auðvitað ofarlega á óvinalistanum en einnig er vinsælt að kenna útlendingum um, innflytjendum og auðvitað Evrópusambandinu. Dæmi um þetta má sjá í Bandaríkjunum þar sem Donald Trump hefur nánast úthrópað Mexíkóa sem glæpamenn upp til hópa, í Svíþjóð þar sem Svíþjóðardemókratarnir kenna innflytjendastefnunni um allt það sem aflaga fer í samfélaginu og í Bretlandi þar sem Evrópusambandinu er kennt um margt sem aflaga hefur þótt fara þar í landi.

Í evrópsku samhengi er popúlismi oft tengdur við hægri væng stjórnmálanna en það er ekki ófrávíkjanlegt að hann sé tengdur hægri vængnum. Vinstri flokkar geta alveg eins verið popúlistaflokkar. Einnig eru dæmi um að popúlistaflokkar blandi stefnu frá hægri og vinstri vængjunum saman og má þar nefna Danska þjóðarflokkinn. Stefna hans er mestu hægra megin við miðju, til dæmis í málefnum innflytjenda en flokkurinn er byggður upp í kringum það mál. Það sama á við stefnuna í utanríkismálum. En þegar kemur að velferðarmálum er flokkurinn vinstra megin við miðju. Flokkurinn hefur því getað unnið með hægri flokkum að málum er varða innflytjendastefnu en með vinstri flokkum að velferðarmálum. Kjarnahópur stuðningsmanna Danska þjóðarflokksins er fólk sem er með lág laun, lágt menntunarstig, illa sett félagslega og eldri borgarar. Flokkurinn hefur oft lagt áherslu á þau miklu útgjöld sem danska ríkið hefur árlega af innflytjendum frá ríkjum utan Vesturlanda og bent á að það fé mætti nýta í velferðarkerfið til að styðja við Dani. Þetta hefur náð eyrum margra og flokkurinn fengið góðan stuðning.

Í stuttu máli má segja að popúlistar reyni að höfða til venjulegs fólks sem finnst sem áhyggjum þess og vanda hafi ekki verið sinnt af hinum hefðbundnu stjórnmálamönnum og flokkum. Þá eru leiðtogar popúlista oft miklir og áberandi persónuleikar sem eiga auðvelt með að heilla fólk. Þeir hafna hinum hefðbundnu stjórnmálaflokkum og hinni svokölluðu elítu.

Trumphjónin.

Hver er stefna popúlistaflokka?

Í Evrópu eru popúlistaflokkarnir og stjórnmálamenn, sem teljast til popúlista, yfirleitt tengdir við hægri væng stjórnmálanna eins og fyrr sagði en í Suður-Ameríku hafa popúlistar oft verið á vinstri vængnum og má þar nefna Hugo Chavez, fyrrverandi forseta Venesúela. Í Grikklandi telst Syriza-flokkurinn vera popúlistaflokkur en hann er til vinstri og það sama á við um Podemos-flokkinn á Spáni. En það eru popúlistar á hægri vængnum sem hafa náð mestum árangri í Evrópu og þá sérstaklega þeir sem eru langt til hægri, öfgaflokkar. Þar má nefna National Front með Marine Le Pen í fararbroddi í Frakklandi, Geert Wilders og Frelsisflokkinn í Hollandi, Viktor Orbán í Ungverjalandi, Frelsisflokkinn í Austurríki og Fimmstjörnuhreyfinguna og Forza á Ítalíu og auðvitað Donald Trump í Bandaríkjunum. Þá hafa Svíþjóðardemókratarnir aukið fylgi sitt jafnt og þétt undanfarin ár og eru nú í góðri stöðu fyrir þingkosningarnar 9. september. Danski þjóðarflokkurinn hefur einnig góða stöðu og er nú næststærsti flokkur Danmerkur. Alternative für Deutschland stendur einnig sterkur að vígi í Þýskalandi.

Þessir flokkar og einstaklingar eiga það sameiginlegt að gera út á andstöðu fólks við innflytjendur og kenna þeim um flest það sem aflaga hefur farið. Ljóst er að evrópskt samfélag hefur breyst mikið á undanförnum áratugum, fjölmenningunni hefur vaxið fiskur um hrygg og alþjóðavæðingin hefur sett mark sitt á samfélögin. Inn á þetta hafa stjórnmálamennirnir spilað. Áhrifa popúlista fór að gæta að einhverju ráði um aldamótin en í kjölfar fjármálakreppunnar 2008 jukust áhrif þeirra og meira fór að bera á þeim. Í kjölfar fjármálakreppunnar var hægt að benda á elítu sem var talin eiga sök á kreppunni, bankamenn, og beina spjótunum að þessum hópi. Síðan hefur þetta færst meira í að vera andstaða við ríkjandi valdhafa og þá sem eru taldir tilheyra elítunni og eru þar af leiðandi áhrifamiklir í samfélaginu.

Benjamin Moffit færir rök fyrir því í bók sinni, The Global Rise of Populism, að hinn dæmigerði popúlistaleiðtogi tileinki sér ákveðna framkomu. Einn hluti hennar er slæmir mannasiðir (hver kannast ekki við það hjá Trump), annar hluti er að hegða sér ekki eins og hefðbundinn stjórnmálamaður (aftur kemur Trump upp í hugann). Þá er það hluti af þessari framkomu að vera alltaf í sókn í öllum málaflokkum. Ef popúlistaleiðtogi kemst til valda neyðist hann eiginlega til að reka stanslausa „kosningabaráttu“ til að sannfæra stuðningsmenn sína um að hann sé ekki hluti af elítunni og kerfinu og verði það aldrei.

Það er kannski hægt að segja að popúlistaleiðtogar séu eins og negatífur, þeir eru andstaðan við allt það sem þeir segja að sé að í samfélaginu, þeir reka pólitík sem er þvert á pólitík hinna hefðbundnu flokka, þeir gagnrýna menntafólk og vísindi og þeir eru á móti elítunni. Það er auðvelt að laga þetta að aðstæðum hverju sinni og því er sveigjanleikinn mikill. Þá eru popúlistaleiðtogar ekki alltaf ánægðir með flókið lýðræði og hallast frekar að beinu lýðræði þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur verða meira notaðar. Sumir telja að þetta kyndi undir vantrausti fólks á lýðræðið og styrki þá böndin við einræði sem sumir leiðtoganna vilja gjarnan koma á. Á endanum verði staðan sú að leiðtoginn taki ákvarðanir á þann hátt sem ekki er hægt í hefðbundnum lýðræðissamfélögum. Evrópskt dæmi um það má sjá í Ungverjalandi þar sem Viktor Urban forsætisráðherra hefur rekið harða popúlíska þjóðernisstefnu og sópað til sín sífellt meiri völdum. Hann hefur sagt að markmið hans sé að skapa „þröngsýnt ríki“ og hefur fært rök fyrir að einræðisstjórnkerfi eins og er í Kína, Rússlandi og Tyrklandi sé miklu hentugra stjórnkerfi fyrir Ungverjaland en hið vestræna lýðræðismódel. Þá má ekki gleyma frægum orðum Hugo Chávez sem sagði eitt sinn: „Ég er ekki einstaklingur – Ég er fólkið.“

Að leiðtogi segi þetta setur fólk í töluverðan vanda því ef það lýsir yfir andstöðu sinni við ákvarðanir valdhafans, sem segist vera fólkið, þá er það um leið að lýsa sig andsnúið fólkinu, þjóðinni. Þannig er hætt við að andstaða verði minni en ella vegna ótta fólks við að lenda upp á kant við „fólkið“.

 

Af hverju hafa popúlistar náð svo góðum árangri víða?

Eins og áður kom fram þá nota popúlistar „elítuna“ oft til að varpa ljósi á stefnu sína og finna andstæðing í hinu hefðbundna stjórnmálakerfi. Þeir bera því oft við að þeir séu að fara að „vilja fólksins“. Dæmi um það má nefna nýlega stefnubreytingu danskra jafnaðarmanna, sem eru stærsti flokkur landsins, í útlendingamálum þar sem þeir eiga nú góða samleið með Danska þjóðarflokknum. Þegar þessi nýja og harða stefna var kynnt sagði formaður flokksins, Mette Frederiksen, að flokkurinn væri að laga sig að vilja kjósenda.

Hugmyndafræði popúlistaflokka er ekki alltaf mjög djúp eða vel útfærð, tækifærismennska einkennir hana oft. Popúlistar eru fljótari að bregðast við en hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar og geta fljótt og vel lagað stefnu sína að straumunum í samfélaginu hverju sinni í öðrum málum en innflytjendamálum, þar eru þeir fastir fyrir. Í kosningabaráttunni 2014 stilltu Svíþjóðardemókratarnir málum þannig upp að kjósendur þyrftu að velja á milli áframhaldandi innflytjendastraums til landsins eða velferðarkerfisins. Með þessu er reynt að stilla kjósendum upp við vegg og innflytjendur gerðir að óvininum sem framtíð velferðarkerfisins veltur á.

Popúlistaflokkar hafa verið duglegir við að nýta sér samfélagsmiðla og það hefur skilað þeim góðum árangri í að ná til fólks. Gott slagorð eða æsandi boðskapur á samfélagsmiðlum er mun líklegri til að ná til fólks en hefðbundin fréttatilkynning, ræður eða litlaus tíst frá stjórnmálamönnum. Þetta notfæra popúlistar sér yfirleitt vel. Sem dæmi má nefna að National Front í Frakklandi, flokkur Marine Le Pen, er með heila skrifstofu sem sér eingöngu um samfélagsmiðla flokksins og að birta reglulega færslur þar sem vekja athygli.

Hefðbundnir stjórnmálamenn hafa ekki verið eins duglegir við að nýta sér samfélagsmiðla og nota hefðbundnari leiðir til að ná til kjósenda; sjónvarp og dagblöð.

Popúlistaflokkarnir hafa nýtt sér tómarúm til að ná árangri. Kjósendur hafa víða hafnað hinum hefðbundnu stjórnmálaflokkum og við það skapaðist tómarúm sem popúlistar hafa nýtt sér. Kjósendum finnst sem gömlu flokkarnir hafi brugðist þeim og hafa því hafnað þeim. Með því að stilla upp tengingu á milli innflytjenda og velferðarmála hafa margir popúlistaflokkar náð góðum árangri. Þeir hafa tengt niðurskurð í velferðarkerfum við aukinn kostnað vegna innflytjenda. Þetta fær fólk, sem þarf að reiða sig á velferðarkerfið, til að snúa sér að popúlistum eftir að kjör þess hafa versnað. Fólk fær þá tilfinningu að það hafi verið svikið af stjórnmálamönnum til þess að þeir gætu gert vel við innflytjendur.

Mattias Karlsson

Standa saman á alþjóðavettvangi

Þegar Mattias Karlsson var kjörinn á sænska þingið fyrir átta árum fyrir Svíþjóðardemókratana var hann maðurinn sem aðrir þingmenn vildu ekki eiga samskipti við. Hann var útilokaður í biðröðinni í mötuneytinu og þingmenn úr öðrum flokkum yrtu ekki á hann. Sama var uppi á teningnum bæði í norrænu og evrópsku samstarfi, Svíþjóðardemókratarnir voru ekki velkomnir. En nú er staðan breytt og Svíþjóðardemókratarnir eru komnir inn í hlýjuna á bæði norrænum og evrópskum vettvangi. Á síðasta ári stofnuðu Svíþjóðardemókratarnir, Sannir Finnar og Danski þjóðarflokkurinn sinn eigin hóp hjá Norðurlandaráði. Aðeins tveimur árum áður höfðu síðarnefndu flokkarnir tveir verið mjög gagnrýnir í tali um Svíþjóðardemókratana. Á Evrópuþinginu eru báðir þingmenn Svíþjóðardemókratanna nú komnir í hóp með norrænu systurflokkunum sem mynda hóp með íhaldsflokkum undir forystu Breta. Áður höfðu Svíþjóðardemókratarnir verið í hópi með ítölsku Fimmstjörnuhreyfingunni og UKIP á Bretlandi.

Eftir margra ára deildur og klofning eru evrópskir flokkar, sem eru efins um stefnuna í innflytjendamálum og ESB, að ná saman og ef þeim tekst að halda samstöðunni eiga þeir raunhæfa möguleika á að verða stærsti hópurinn á Evrópuþinginu að kosningum loknum á næsta ári. Ef svo fer verða þeir áhrifamikill hópur á Evrópuþinginu, hópur sem ekki verður hægt að sniðganga. Líklegt má teljast að hægri vængurinn á Evrópuþinginu, allt frá þjóðernissinnuðum íhaldsmönnum til popúlista verði öflugur á Evrópuþinginu eftir næstu kosningar. Popúlistar eru orðnir reynslumeiri en áður og vita nú að þeir geta náð betri árangri ef þeir vinna með öðrum popúlistum.

Þá er spurning hvaða áhrif það mun hafa á gengi evrópskra popúlista í kosningunum í maí á næsta ári að Steve Bannon, fyrrverandi kosningastjóri og hugmyndafræðingur Donalds Trump, ætlar að beita sér í baráttunni fyrir flokka sem eru andsnúnir ESB.

„Þetta eru fyrstu raunverulegu átök popúlisma og flokksins frá Davos,“ sagði Bannon þegar hann nefndi hina frjálslyndu, veraldlega sinnuðu elítu eftir svissneska bænum Davos þar sem World Economic Forum fundar árlega en þangað er áhrifafólki og frægu fólki boðið til umræðna.

Nokkrum dögum fyrir kosningarnar á Ítalíu í mars skýrði dagblaðið La Stampa frá því að Bannon væri í landinu til að fylgjast með kosningunum og þá sérstaklega Lega-flokknum og leiðtoga hans, Matteo Salvini. Salvini er nú innanríkisráðherra á Ítalíu en kosningabarátta hans var undir miklum áhrifum frá Donald Trump. „Ítalir fyrst“ sagði hann og fetaði þar í fótspor Trump sem rak kosningabaráttu sína undir slagorðinu „America First“. Einnig hefur Salvini verið iðinn við að birta myndir af sér með Trump. Hann lætur fá tækifæri líða hjá til að gagnrýna ESB og stóru ESB-ríkin Þýskaland og Frakkland.

Hægriflokkarnir hafa áður reynt að ná samstöðu á Evrópuþinginu en það hefur ekki tekist vel hjá þeim. Fyrir kosningarnar 2014 sögðu Marine Le Pen og Geert Wilders að þau ætluðu að mynda „ofurhóp“ á þinginu en það tókst ekki. Tvennt hefur verið nefnt til sögunnar sem ástæða þess að þetta hefur ekki tekist. Annað er að hugmyndafræði flokkanna er ólík en sumir þeirra telja hina vera of róttæka. Hin ástæðan er að formenn flokkanna eru sterkir persónuleikar sem vilja ekki gefa þumlung eftir af áhrifum sínum og völdum. Nú eru þeir flokkar á Evrópuþinginu sem eru andsnúnir ESB og gagnrýnir á innflytjendastefnuna í þremur hópum á þinginu sem dregur óneitanlega úr slagkrafti þeirra og áhrifum.

Vigdís Hauksdóttir

Íslenskir popúlistar

Popúlistaflokkar hafa reynt fyrir sér á stjórnmálasviðinu hérlendis í gegnum tíðina. Sá flokkur sem hefur náð bestum árangri var Frjálslyndi flokkurinn. Ein helstu stefnumál flokksins voru að vera á móti kvótakerfinu og að hefta straum innflytjenda til landsins. Flokkurinn átti ágætu gengi að fagna um hríð og var með þingmenn frá 1999 til 2009 en þá beið flokkurinn afhroð í kosningum og hefur ekki verið mjög sýnilegur eftir það. Það féll vel í kramið hjá mörgum kjósendum að flokkurinn var á móti kvótakerfinu en það hefur lengi verið þyrnir í augum margra og tengt við elítuna, hina ráðandi stétt efnafólks í landinu. Einnig féllu innflytjendamálin vel í kramið hjá mörgum.

Íslenska þjóðfylkingin hefur verið að rembast við framboð frá 2016 en uppskeran hefur verið heldur rýr. Flokkurinn vill endurskoða aðildina að EES og hætta þátttöku í Schengen-samstarfinu. Flokkurinn leggur áherslu á vernd íslenskrar þjóðmenningar og fullveldi landsins. Flokkurinn hafnar fjölmenningu, er andsnúinn innflytjendum og leggst alfarið gegn því að moskur verði reistar hér á landi. Flokkurinn reyndi að bjóða fram í öllum kjördæmum í alþingiskosningunum 2016 en deilur ollu því að ekkert varð úr framboði í Reykjavíkurkjördæmunum. Ekki náðist að setja saman lista í Norðausturkjördæmi og ekki var boðið fram í Suðvesturkjördæmi þar sem ekki náðist að fá nægilega marga meðmælendur með framboðinu. Flokkurinn fékk 0,2 prósent atkvæða í kosningunum. Flokkurinn ætlaði að bjóða fram í síðustu þingkosningum en það gekk heldur illa og neyddist hann til að draga framboð sitt til baka vegna meintrar fölsunar á undirskriftum á meðmælendalistum.

Hugsanlega má segja að Framsóknarflokkurinn hafi daðrað við popúlisma þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var formaður. Þegar Icesave-samningarnir voru í hámæli og hávær umræða um þá á meðal þjóðarinnar stillti Sigmundur sér upp sem harðasti andstæðingur samninganna og málsvari almennings og nýtti sér andstöðu almennings við samningana. Afstaðan var að vissu leyti popúlísk því hún beindist gegn elítum og menntafólki. Framsóknarflokkurinn flaut á þessari bylgju í gegnum þingkosningarnar 2013 og vann góðan sigur. Sigmundur var þjóðernissinnaður í tali og ræddi meðal annars um gæði íslensks kjötmetis og hættuna af erlendu kjöti og sagði að fólk gæti orðið fyrir persónuleikabreytingum við að borða erlent kjöt vegna sníkjudýra sem væru hugsanlega í því.

Sigmundur hefur gagnrýnt fjölmiðla harðlega og er hann þar á sama báti og Donald Trump. Ef þeim líkar ekki eitthvað sem fjölmiðlar segja þá eru þeir sagðir snúa út úr orðum þeirra, flytja falsfréttir eða vinna fyrir elítuna sem vill koma höggi á þá. Sigmundur neitaði að ræða við fjölmiðla ef þeir höfðu fjallað á gagnrýninn hátt um hann. Sigmundur hrökklaðist úr embætti sem formaður Framsóknarflokksins í kjölfar hins fræga viðtals fréttamanna Sænska ríkisútvarpsins við hann þar sem hann neyddist til að svara fyrir Wintris-málið. Um ári síðar stofnaði hann Miðflokkinn ásamt stuðningsfólki sínu úr Framsóknarflokknum. Flokkurinn náði góðum árangri í þingkosningunum 2017 og fékk fleiri atkvæði en Framsóknarflokkurinn. Kosningabaráttan snerist að miklu leyti um persónu Sigmundar. Stefnuskrá flokksins var ekki birt fyrr en nokkrum dögum fyrir kosningar en samt sem áður hlaut flokkurinn góða kosningu.

Í borgarstjórnarkosningunum á þessu ári fékk Miðflokkurinn borgarfulltrúa kjörinn en Framsóknarflokkurinn ekki. Vigdís Hauksdóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, var kjörin í borgarstjórn. Hún vakti töluverða athygli í kosningabaráttunni og má auðveldlega greina popúlísk áhrif í kosningabaráttu hennar. Hún var nær alltaf mótfallin því sem meirihlutinn hafði að segja, hún lofaði að finna 10–15 milljarða í borgarkerfinu með því að „taka til“ og fækka stjórnunarstöðum í borgarkerfinu. Með þessu taldi hún að hægt yrði að lækka útsvarið. Miðflokkurinn dró upp þá mynd að hann væri flokkur þeirra sem búa í úthverfunum.

Fleiri hafa daðrað við popúlisma í íslenskri pólitík, má þar nefna Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, sem hefur rætt um kostnaðinn sem hlýst af móttöku hælisleitenda. Hann hefur einnig varpað þeirri spurningu fram hvort bakgrunnur þeirra múslima sem búa á Íslandi hafi verið kannaður til að kanna hvort þeir hafi hlotið þjálfun hjá hryðjuverkamönnum eða barist í löndum þar sem átök eru.

Framtíðin

Hvort sem fólki líkar betur eða verr eru popúlistar komnir til að vera í stjórnmálum, hér á landi sem erlendis. Kjósendur þjást af langvarandi stjórnmálaleiða og leiða á stjórnmálamönnum sem þeim finnst hafa svikið sig ítrekað. Á meðan þessi tilfinning er til staðar hjá kjósendum er frjór jarðvegur fyrir popúlista sem spila á óánægju fólks og stilla sér upp sem þeim sem hafa lausnina á því sem á bjátar að mati kjósenda.

Hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar hafa ekki náð að laga sig að nýjum tímum hvað varðar samskiptin við kjósendur en margir popúlistaflokkar hafa fyrir löngu áttað sig á mætti samfélagsmiðla og nota þá duglega í baráttu sinni. Popúlistaflokkarnir eru einnig miklu sveigjanlegri og ófeimnir við að breyta um stefnu og laga hana að þeim viðhorfum sem eru ríkjandi hverju sinni.

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Bjóða aftur í Trent
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum
Rútuslys á Hellisheiði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sælukot kærir Heilbrigðiseftirlitið fyrir „hóflausa beitingu valds“ – Létu loka leikskólanum vegna músagangs

Sælukot kærir Heilbrigðiseftirlitið fyrir „hóflausa beitingu valds“ – Létu loka leikskólanum vegna músagangs
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Svona miklum peningum eyddi Reykjavíkurborg í ferðir á einu og hálfu ári

Svona miklum peningum eyddi Reykjavíkurborg í ferðir á einu og hálfu ári
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Perri í Grasagarðinum – „Dóttir mín var mjög hrædd“

Perri í Grasagarðinum – „Dóttir mín var mjög hrædd“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Pirringur“ í garð Pútíns meðal herforingja og elítunnar

„Pirringur“ í garð Pútíns meðal herforingja og elítunnar