fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fréttir

Svandís Svavarsdóttir um geðheilbrigðis- og læknadópsvandann: „Tilteknir læknar sem ávísa mjög mikið“

Kristinn H. Guðnason, Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson
Sunnudaginn 26. ágúst 2018 13:00

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Geðheilbrigðismálin hafa verið deiglunni undanfarin ár og í sumar hefur DV flutt fréttir af sorglegum fráföllum fólks sem glímt hefur við andleg veikindi og fíkn. Svandís Svavarsdóttir er þriðji heilbrigðisráðherrann sem ætlar að hrinda af stað stórsókn í málaflokknum en enn sem komið er hefur lítið breyst, sumarlokanir á geðdeildum og mikil undirmönnun. Svandís ræddi við DV um stöðu geðheilbrigðismála á Íslandi í dag og hvernig stjórnvöld eru að bregðast við þessum mikla vanda sem upp er kominn.

 

Vantar hjúkrunarfræðinga á sumrin

Sumrin eru erfiður tími fyrir þunglynt fólk, einn sá erfiðasti fyrir utan skammdegistímann í kringum jólahátíðina. Á sumrin finnst þunglyndum þeir eiga að finna fyrir gleði en gera það hins vegar ekki og fyllast þá örvæntingu. Engu að síður hafa bæði forsvarsmenn geðdeilda og meðferðarstofnana tekið upp á því að loka tímabundið yfir sumrin og það hefur haft banvænar afleiðingar, líkt og dæmin sýna. Svandís segir um sumarlokanir á geðdeildum:

„Þessar ákvarðanir koma ekki beint inn á mitt borð. Í raun er það forstjóri og yfirstjórn Landspítalans sem tekur ákvörðun um hvernig þessu er háttað yfir sumarið. Ég hef óskað eftir upplýsingum um þetta frá forstjóra af því að ef þetta snýst um fjárskort lýtur það að mér. En mér hefur verið tjáð að svo sé ekki, það vantar ekki peninga til að halda deildum opnum heldur snýst þetta um mönnun, sérstaklega hjúkrunarfræðinga. Það er hins vegar Landspítalans að ákveða hvernig málum er hnikað á milli deilda og honum ber að tryggja að grundvallarþjónustan sé tryggð eins og hægt er samkvæmt faglegu mati.“

Um eitt þúsund menntaðir hjúkrunarfræðingar eru ekki starfandi sem slíkir á meðan forsvarsmenn Landspítalans hafa sagt að það vanti um fimm hundruð til að uppfylla kröfur um þjónustu og öryggi sjúklinga. Hjúkrunarfræðingar sjálfir segja launin helstu fyrirstöðuna og er þá ekki lausnin að hækka við þá launin?

„Ég sem ekki við hjúkrunarfræðinga og set ekki inn nýja peninga inn í samninga við þá til að leysa einhver tiltekin mál. Hins vegar er undirmönnun ein helsta áskorunin í heilbrigðiskerfinu, í raun alþjóðlegt viðfangsefni, og það er mannekla í mjög mörgum greinum. Ég tel að vandinn varðandi hjúkrunarfræðinga sé þríþættur. Í fyrsta lagi þurfum við að mennta fleiri og við höfum verið að bæta við nemastöðum. Í öðru lagi sækja hjúkrunarfræðingar í önnur störf, til dæmis í ferðaþjónustunni, á þenslutímum. Í þriðja lagi veldur manneklan miklu álagi á þeim sem starfa við hjúkrun og því meiri líkur á kulnun í starfi.“

 

Ekki aðeins verkefni heilbrigðisráðherrans

Svandís nefnir að hún, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi skrifað undir sérstaka viljayfirlýsingu um mönnun heilbrigðisþjónustu þegar síðustu kjarasamningar við BHM voru gerðir. Hún segir:

„Það er mitt mat að þetta sé ekki aðeins verkefni heilbrigðisráðherrans heldur samfélagsins alls og við getum ekki horft á þetta gerast án þess að bregðast við. Það er margt óunnið, til dæmis er á dagskránni að framkvæma mannaflaspá en slík spá hefur ekki verið framkvæmd á Íslandi síðan árið 2006. Við vitum því ekki nákvæmlega hvað við erum með margt fólk til að vinna verkin og hvernig núverandi þróun mannfjöldans á Íslandi, aldurssamsetning og svo framvegis, gerir ráð fyrir breyttri samsetningu á heilbrigðisstéttunum. Ég tók við embættinu fyrir innan við ári síðan og það þarf að taka til hendinni í næstum hverjum einasta málaflokki.“

Varðandi launin sérstaklega segir Svandís:

„Ég er sjálf þeirrar skoðunar að kvennastéttir séu almennt á of lágum launum. Það er vegna þessa kynskipta vinnumarkaðar sem við horfumst í augu við og sáum til dæmis í ljósmæðradeilunni fyrir skemmstu. En launatalan sjálf er aðeins einn hluti af myndinni. Aðrir hlutir eins og mannsæmandi starfsaðstæður, að fólk sjái fram á starfsþróun og að vinnustaðurinn sé spennandi skipta einnig máli.“

„Hef spurt forstjóra að því af hverju hægt sé að ganga inn hvenær sem er sólarhrings með alls kyns aðrar pestir og slys en ekki á geðdeild“

Úrræði illa auglýst

Sjúklingar geta leitað á bráðamóttöku Landspítalans hvenær sem er sólarhringsins vegna slysa og veikinda. Sérstök bráðamóttaka er á geðsviði við Hringbraut sem er þó einungis opin sjö tíma á sólarhring, frá 12 til 19. Hafa margir sem þangað þurfa að leita kvartað yfir þessu litla aðgengi að bráðamóttökunni.

Í hverju liggur þessi munur á þjónustu?

„Ég veit ekki nákvæmlega hverju sætir en hef spurt forstjóra að því af hverju hægt sé að ganga inn hvenær sem er sólarhrings með alls kyns aðrar pestir og slys en ekki á geðdeild. Upplýsingarnar sem ég hef fengið eru þær að sjúklingar komi inn á almenna bráðamóttöku þegar bráðamóttakan á geðdeildinni er ekki opin. Þar fá þeir síðan vísun á aðrar deildir.“

Er þetta nógu vel auglýst?

„Það er ég ekki viss um og það á í raun við um allt heilbrigðiskerfið okkar, hvaða þjónustu fólk fær á hverjum stað. Stöðugt eru að koma fréttir af stöðunni á bráðamóttöku Landspítalans en þegar betur er að gáð getur margt af því fólki sem leitar þangað fengið betri úrlausn sinna mála á heilsugæslu. Það þarf að skýra þetta betur fyrir fólki.“

 

Efast um að fjörutíu sálfræðingar dugi

Svandís segir að þegar hún tók við embætti heilbrigðisráðherra í desember síðastliðnum hafi hún samstundis sett geðheilbrigðismálin í algeran forgang. Hún er þó ekki ein um það því tveir forverar hennar, Kristján Þór Júlíusson og Óttarr Proppé, sögðust báðir ætla að gera stórátak í málaflokknum.

„Þetta er mjög flókinn málaflokkur og lýtur að samfélaginu öllu. Það er því ekki hægt að takast á við hann inni á spítölunum einvörðungu. Málefni barna skipta þarna sköpum, eins og umræðan um snjallsímavæðinguna, neysluvæðinguna, útlitsdýrkun og kröfur. Þess vegna þurfum við að efla geðheilsuúrræði í heilsugæslunni, grunnskólunum, framhaldsskólunum og víðar. Svarið er ekki að setja endalausa peninga í Landspítalann.“

Eru skólasálfræðingar í öllum skólum?

„Nei, forgangsröðunin hefur ekki verið sú en við erum að vinna að því. Börn verða að geta leitað til fagfólks á þessu sviði í bæði grunn- og framhaldsskólum. Yfirmenn sumra framhaldsskóla hafa frekar viljað hafa hjúkrunarfræðinga með sérsvið í geðheilbrigði heldur en sálfræðinga. Við erum einnig að vinna að því að koma upp geðheilbrigðisteymum um allt land og sálfræðingum í öllum heilsugæslustöðvum.“

Samkvæmt aðgerðaráætluninni er stefnan sett á að sálfræðingar verði einn fyrir hverja níu þúsund íbúa, samanlagt tæplega fjörutíu fyrir allt landið.

Er það ekki allt allt of lítið?

„Ég veit ekki af hverju einn á hverja níu þúsund frekar en fjögur eða fimm þúsund. En það er faglegt mat sem liggur þarna að baki.“

Munu þeir geta sinnt öllum andlegum vandamálum sem upp koma?

„Þeir munu breyta mjög miklu en spurningin er hvort þetta sé fullnægjandi. Alþingi samþykkti þetta árið 2016 en ég sjálf set spurningarmerki við það þetta dugi. Mitt markmið er hins vegar, eins og liggur fyrir í stjórnarsáttmálanum, að fullfjármagna áætlunina sem er það leiðarljós sem við höfum frá þinginu. Þegar því verður lokið, árið 2019, þá þurfum við að endurmeta hvort að þetta sé fullnægjandi. En þetta er aðeins ein aðgerð af fjöldamörgum í áætluninni.“

 

Eftirlit með ávísanavenjum lækna verður hert

Á Íslandi falla um fimmtíu manns fyrir eigin hendi á hverju ári, einn í hverri viku að meðaltali. Heildartölurnar eru ekki langt frá því sem þekkist í nágrannalöndum okkar en þegar kemur að sjálfsvígum ungmenna er Íslandi í öðru sæti OECD-ríkja og aðeins Nýja-Sjáland með hærri tíðni. Í þessum tölum eru ekki talin öll sjálfsvíg sem framin eru með inntöku fíkniefna, ólöglegra eða hins svokallaða læknadóps, sem DV hefur fjallað um á þessu ári.

Er ásættanlegt að fólk, oft á besta aldri, svipti sig lífi vegna þess að grunnþjónustan er ekki í lagi?

„Nei, það er aldrei í lagi.“

Hafið þið reynt að greina vandann með læknadópið?

„Já, ég setti saman starfshóp upp úr áramótum undir stjórn Birgis Jakobssonar, þáverandi landlæknis, og þar voru þeir sem best þekkja til í þessum geira. Hópurinn skilaði af sér í lok maí og niðurstöðurnar voru í aðalatriðum þær að takmarka aðgang að ávanabindandi lyfjum, auka fræðslu hjá bæði fagstéttum og almenningi, og herða eftirlit með ávísanavenjum lækna. Við erum að sjá að það eru tilteknir læknar sem ávísa mjög mikið. Það þarf að bæta greiningarnar á ADHD og bæta aðgang að öðrum úrræðum við einkennum ADHD en lyfjameðferð. Sumt af þessari vinnu er komið af stað en annað ekki. En við vitum að hefting á aðgengi leysir ekki öll vandamál því að þá leita sumir í önnur efni. Við verðum því að hugsa þetta út frá skaðaminnkun einnig.“

„Fólk verður að ráða því hvort það taki mark á mér“

„Ég meina það sem ég segi“

Lítur þú á þetta ástand, það er að ungt fólk sé kvíðið og þunglynt, noti því fíkniefni og deyi allt of snemma, sem faraldur?

„Til þess að við getum talað um faraldur er nauðsynlegt að skoða tölurnar vel og bera þær saman við tölurnar á fyrri árum. En ég sjálf hef miklar áhyggjur af því hvað ungu fólki líður illa á Íslandi. Þetta var ekki svona áður fyrr. Við vorum hamingjusamasta þjóð heims og börðum okkur á brjóst fyrir það. Hver ástæðan er get ég ekki svarað, þetta eru ábyggilega margir og samhangandi þættir sem valda vonleysi hjá mörgum. Það getur svo leitt til framtaksleysis og kvíða og að lokum þunglyndis.“

Forverar þínir hafa sagst ætla að taka þessi mál föstum tökum en alltaf halda vandamálin áfram og í sumar voru geðdeildir lokaðar líkt og áður. Á eitthvað eftir að breytast og af hverju ætti fólk að taka mark á þér frekar en forverum þínum?

„Fólk verður að ráða því hvort það taki mark á mér en ég meina það sem ég segi um að ég leggi áherslu á þennan málaflokk og mun fjármagna geðheilbrigðisáætlunina. Ég lít á mig sem liðsmann þeirra sem vilja efla heilbrigðisþjónustuna á Íslandi.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!