Árið 2015 var barnaníðingsmál innan Þjóðkirkjunnar gert upp á sáttafundi á Biskupsstofu þar sem þolandi og gerandi mættust. Gerandinn, séra Þórir Stephensen fyrrverandi Dómkirkjuprestur, gekkst við brotum sínum á fundinum en hefur síðan fengið að koma fram í kirkjulegum athöfnum, predikað og tekið í hendur á mektarmönnum, íslenskum og erlendum. Þrír biskupar hafa vitað um málið og kirkjan er í mikilli vörn vegna þeirra mistaka sem gerð hafa verið. DV fjallar nú um syndir kirkjunnar. Þetta mál og önnur sýna vel hvernig kirkjan hefur síendurtekið brugðist skyldu sinni gagnvart skjólstæðingum, sópað undir teppið, falið og neitað að horfast í augu vandamál sem upp koma. Þess í stað er gerendum hampað eins og mál Þóris Stephensen, sýnir glöggt. Alvarleg kynferðisbrot Þóris eru ekki aðalatriðið í umfjöllun DV þótt ekki verði hjá því komist að fjalla um þau brot sem hann viðurkenndi á umdeildum sáttafundi.
Þetta er brot úr ítarlegri umfjöllun um syndir kirkjunnar í helgarblaði DV.
Séra Þórir var ekki fús til að ræða efnislega um málið þegar blaðamaður hafði samband við hann og sagðist hann vera á leið í sjúkraheimsókn.
„Ég hef akkúrat ekkert um þetta að segja,“ sagði hann.
DV spurði séra Þóri út í umfjöllun Stundarinnar um málið en í henni var séra Þórir ekki nafngreindur.
„Það sér það hver og einn, sérstaklega ef þú ert menntaður blaðamaður, að þetta er ekki blaðamennska.“
Hvernig fannst þér þeir hafa tekið á málinu?
„Veistu að ég vil ekki tala um þetta mál. Þetta er svo vitlaust. Þegar um svona mál er að ræða þá á þolandinn alltaf málið. En þarna hreyfir hann sig ekki.“
Um hvort umfjöllunin hafi verið einhliða segir hann:
„Að sjálfsögðu. Stundin er nú enginn … jæja, ég ætla ekki að segja neitt. Þetta mál er löngu afgreitt. Ef þið farið að fjalla um þetta þá heldur bullið áfram. Ég vil helst ekki þurfa að skella á þig en ég vil ekki ræða þetta mál. Vertu blessaður.“
Eftir þetta skellti séra Þórir á blaðamann.
Fékk kristilegt uppeldi
Þórir Stephensen er fæddur árið 1931 í Reykjavík, sonur hjónanna Ólafs Stephensen og Þóru Daníelsdóttur Stephensen. Hann ólst upp á kristilegu heimili og foreldrar hans kenndu honum og bróður hans að biðja bænir og ræddu við þá um trúmál. Í grein Morgunblaðsins í tilefni af fimmtugsafmæli Þóris árið 1981 skrifar samstarfsmaður hans, séra Hjalti Guðmundsson:
„Þau lögðu ríka áherslu á að glæða ábyrgðartilfinningu með sonum sínum, svo að þeir yrðu ábyrgir og traustir þegnar þessarar þjóðar. Þeim var bent á að þessi orð sálmsins: Ver dyggur, ver sannur, því Drottinn þig sér, haf daglega Jesúm í verki með þér“ og enn fremur þessi þekktu orð: „Gjör rétt, þol eigi órétt“.“
Hið kristilega uppeldi og sú staðreynd að Þórir var kominn af prestaættum hefur vafalaust haft sitt að segja um að hann ákvað að leggja starfið fyrir sig og þá ákvörðun tók hann sem barn. Hann gekk í Miðbæjarskólann og Menntaskólann í Reykjavík þar sem hann útskrifaðist árið 1951 og þá var hann búinn að ákveða að fara í guðfræðideild Háskólans. Skömmu eftir útskrift, þegar hann var nemi í Háskólanum, braut hann kynferðislega á tíu ára stúlkunni eins og hann hefur sjálfur viðurkennt.
Frami og skilningsrík fjölskylda
Árið 1953 fór hann til starfa að Völlum í Svarfaðardal og þar kynntist hann verðandi eiginkonu sinni, Dagbjörtu Gunnlaugsdóttur, og þetta haust voru þau trúlofuð. Um áramótin lauk hann námi og vígðist sem prestur á Saurbæ í Dölum sumarið eftir, þá aðeins 22 ára gamall. Í ellefu ár, frá 1960 til 1971, starfaði hann sem prestur á Sauðárkróki og svo lá leiðin í Dómkirkjuna sem aðstoðarprestur séra Jóns Auðuns. Árið 1973 var hann skipaður prestur við þá kirkju og gegndi hann þeirri stöðu til ársins 1989 og varð vel þekktur maður í þjóðfélaginu.
Árið 1981 tók útvarpsmaðurinn Jónas Jónasson viðtal við séra Þóri í tilefni af fimmtugsafmæli hans. Aðspurður um fjölskyldulífið og daglegt amstur sagðist hann hafa lítinn tíma fyrir áhugamál og að vinnan væri mikil:
„Starfsdagurinn endist aldrei. Í önnunum gleymist Þórir sjálfur. Ég bý við gott fjölskyldulíf og á konu minni það að þakka. Ég er oft lítið heima en konan og börnin eru skilningsrík vegna starfsins. Sonur minn sagði eitt sinn um þetta: Hann er þó alltaf að hjálpa öðrum.“
„Ófyrirgefanlegt skemmdarverk“ í Viðey
Eftir að séra Þórir lét af störfum í Dómkirkjunni varð hann staðarhaldari í Viðey en skömmu eftir að hann tók við þeirri stöðu komst hann í deiglu fjölmiðlanna. Kennarinn Hallur Magnússon skrifaði grein í Tímann þess efnis að sléttun kirkjugarðsins í eynni væri bæði óþjóðleg og að ekki hefði verið haft samráð við ættingja þeirra sem þar liggja. Viðurkenndi Hallur að hann skrifaði greinina í „heilagri reiði“ en ástæðan væri sú að hann teldi verknaðinn vera „ófyrirgefanlegt skemmdarverk.“
Í kjölfarið af birtingu greinarinnar höfðaði séra Þórir mál gegn Halli og Tímanum fyrir birtinguna og taldi þar vera ærumeiðandi ummæli, meðal annars um að Þórir hefði ráðið sjálfan sig í stöðu staðarhaldara, að athæfi hans væri ekki kristilegt hvað varðar meðferð kirkjugarðsins og að pólitískar skoðanir og ráðríki kæmi ætíð á undan kristilegum náungakærleik. Mál séra Þóris og Halls fór hátt í fjölmiðlum og var Hallur loks dæmdur sekur af Hæstarétti árið 1992 og gert að greiða 150 þúsund krónur til séra Þóris.
Árið 2001 settist Þórir í helgan stein en hefur síðan umbeðinn tekið þátt í athöfnum kirkjunnar, meðal annars á uppstigningardag á þessu ári þegar hann predikaði í Breiðholtskirkju og var þeirri predikun útvarpað svo þolandi eða ættingjar gátu allt eins heyrt.
Skammaði þingmenn af stól
Þórir var snemma pólitískur og aðeins sextán ára gamall, árið 1947, var hann orðinn flokksbundinn Sjálfstæðismaður. Hann talaði máli flokksins og var oft fenginn sem álitsgjafi í fjölmiðlum. Fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 1990 var séra Þórir í framboði en var neðarlega á lista og náði ekki kjöri. Í störfum sínum sem dómkirkjuprestur hafði hann það hlutverk að taka á móti þingmönnum fyrir þingsetningu og messa yfir þeim. Hann kunni því ekki illa að vera í þeirri stöðu og geta óbeint haft áhrif á þjóðmálin. Í viðtalinu frá 1981 sagði hann:
„Ég er nú ekki alltaf ánægður með þá og skamma þá stundum af stól við þingsetningarmessu.“
Eftir 62 ár sagði séra Þórir sig úr Sjálfstæðisflokknum árið 2009 út af Evrópumálum en hann hefur síðan tekið virkan þátt í þjóðmálaumræðunni með pistlum í Fréttablaðinu.
Vinskapurinn við Ólaf Skúlason
Í kirkjuritinu frá því í apríl árið 1953 er greint frá því að bræðralagsmenn hafi farið í skóla á landsbyggðinni, á Akranesi, Borgarnesi, undir Eyjafjöllum og víðar, til að flytja erindi og predikanir. Fyrir þessum ferðum stóðu Sigurgeir Sigurðsson biskup og séra Guðmundur Sveinsson á Hvanneyri. Með þeim í för voru fjórir guðfræðinemar. Einn af þeim var Ólafur Skúlason, seinna biskup, sem sakaður var um barnaníð og kynferðislega áreitni gegn fjölda kvenna um áratuga skeið. Annar var Þórir Stephensen, sem hafði brotið á stúlkunni um þetta leyti. Um skólaheimsóknirnar segir í ritinu:
„Viðtökur voru hvarvetna hinar beztu og óskað eftir slíkum heimsóknum sem oftast.“
Samband Ólafs og Þóris var gott og slitnaði vinátta þeirra ekki eftir að Ólafur, þá orðinn biskup, var sakaður um kynferðislega áreitni árið 1996. Í frétt morgunblaðsins segir:
„Séra Þórir Stephensen segir herra Ólaf njóta trausts og hafa staðið sig vel, allt frá því að hann kom heim frá Bandaríkjunum með ferskar hugmyndir um æskulýðsstarf. Hann hafi mótað starf æskulýðsfulltrúa og tendrað áhuga margra til æskulýðsstarfs í söfnuðunum.“
Spaugstofan kærð fyrir guðlast
Árið 1997, hið síðasta í tíð Ólafs Skúlasonar biskups, kom upp hið svokallaða Spaugstofumál og gegndi séra Þórir þá miklu hlutverki. Um páskana það ár var gert góðlátlegt gys að síðustu kvöldmáltíðinni í þætti Spaugstofumanna, Enn ein stöðin. Prestar urðu móðgaðir og héldu stólræður um hvílíkt guðlast Spaugstofumenn hefðu framið. Við Morgunblaðið sagði séra Ólafur:
„Þetta var hvorki fyndið né viðeigandi, og allra síst á þessum tíma, laugardag fyrir páska, að gera gys að kvöldmáltíðinni, þegar vitað er að fermingarbörn eru að horfa.“
Skrifaði hann kvörtunarbréf til Ríkisútvarpsins vegna þessa og ekki nóg með það heldur var bréfið einnig sent inn til Ríkissaksóknara sem kærði Spaugstofumenn fyrir guðlast í kjölfarið. Hallvarður Einvarðsson ríkissaksóknari og séra Þórir voru góðir vinir þar til Hallvarður lést árið 2016 og stúkubræður í frímúrarareglunni Mími í Reykjavík. Tengsl þessi urðu að miklu umtalsefni þegar Ríkissaksóknari birti ákæru á hendur Tímanum eftir umfjöllun um kirkjugarðinn í Viðey eins og áður hefur verið nefnt.
Ólafur ræddi við Þóri um Spaugstofuþáttinn eftir messu á páskadagsmorgun og í kjölfarið ræddi Þórir um þáttinn við Hallvarð í heitum potti á annan í páskum. Málið fór frá Ríkissaksóknara til rannsóknarlögreglunnar og voru Spaugstofumenn yfirheyrðir vegna þess. Þann 14. ágúst árið 1997, eftir að rannsókn málsins var lokið, var ákveðið að láta kæruna niður falla.
Tók upp hanskann fyrir séra Gunnar
Árið 2008 kom upp mál séra Gunnars Björnssonar, sóknarprests í Selfosskirkju, þar sem ungar stúlkur sökuðu hann um kynferðislega áreitni. Sögðu þær hann hafa snert sig á óþægilegan hátt, faðmað og strokið um mjóbak, sagst vera skotinn í annarri þeirra og fleira í þeim dúr. Gunnar fór í tímabundið leyfi meðan á rannsókn málsins stóð en hélt áfram að sinna kirkjulegum athöfnum.
Málið endaði fyrir dómi en séra Gunnar var loks sýknaður af Hæstarétti í mars árið 2009 þrátt fyrir að það hafi verið talið sannað að hann hefði kysst þær, strokið og leitað sér huggunar hjá þeim þegar þær voru barnungar.
Þrátt fyrir sýknuna vildi sóknarnefnd Selfosssóknar ekki taka við honum aftur og var biskupi falið að leysa málið en séra Gunnar vildi fá brauð sitt aftur. Var þá rætt um að „leysa“ málið með því að færa hann til í starfi en þá stigu tíu prestar fram og mótmæltu þeim áformum.
Séra Þórir Stephensen var einn þeirra tíu presta sem stigu fram og sendu biskupi bréf þess efnis að hættulegt fordæmi gæti skapast ef séra Gunnar yrði færður til í starfi. Einnig að þeir sem hafi úrskurðað um siðferðisbrot hans hafi engar heimildir til þess.