Þann 5. nóvember 1993 söfnuðust um 500 manns saman við Snæfellsjökul og biðu þar í kulda og éljagangi eftir að geimverur létu sjá sig en þær höfðu boðað komu sína að jöklinum þetta kvöld. Boðin höfðu verið send til fólks sem taldi sig næmt og var að sögn í beinu eða huglægu sambandi við vitsmunaverur á öðrum plánetum utan sólkerfis okkar. Sem von var vakti þetta mikla spennu hjá sumum en aðrir voru síður ánægðir með þessa yfirvofandi heimsókn. Einn þeirra var Snorri Óskarsson, sem var þá safnaðarhirðir hjá Betelsöfnuðinum í Vestmannaeyjum, en hann sagði geimverurnar vera „útsendara djöfulsins“.
Nákvæm tímasetning hafði verið gefin upp fyrir komu geimveranna og átti geimfar þeirra að lenda klukkan 21.07. Mikil spenna sveif yfir vötnum og andrúmsloftið var rafmagnað. Margir fréttamenn voru á staðnum, þar á meðal frá CNN. Hótel Búðir hafði verið opnað sérstaklega þessa helgi vegna þessarar heimsóknar. Hótelið var fullbókað og boðið upp á geimvænan matseðil. Sigríður Gísladóttir hótelstýra sagðist í samtali við DV vera mjög spennt.
„Það liggur eitthvað í loftinu,“ sagði hún og varpaði fram þeirri hugmynd að hugsanlega væri Snæfellsjökull geimskip sem myndi brjóta af sér ísinn og taka á loft er kvölda tæki.
Á Hellnum beið fólk í uppgerðu fjósi og reyndi að halda á sér hita en kalt var í veðri. Eftir því sem leið á kvöldið og klukkan þokaðist nær því að verða 21.07 jókst spennan. Sumir héldust í hendur og umluðu í kór til að sýna geimverunum að þar væri vinveitt fólk á ferð. En allt kom fyrir ekki og geimverurnar létu ekki sjá sig en flestir viðstaddra létu það ekki skemma kvöldið alveg fyrir sér og skemmtu sér ágætlega og flugeldum var skotið á loft. Hugsanlega ekki aðeins til að skemmta fólki heldur til að gefa rammvilltum flugstjóra geimfarsins merki um hvar hann ætti að lenda. Aðrir voru síður ánægðir með þetta og kenndu fjölmiðlafári og miklum ljósagangi við jökulinn um að geimfarið kom ekki. Fjölmiðlar fjölluðu að vonum mikið um yfirvofandi heimsókn geimvera enda ekki á hverjum degi sem slíkir gestir heimsækja okkur Íslendinga eða jarðarbúa. Ef þær hefðu komið hefði það að sjálfsögðu verið stærsta frétt ársins og líklega stærsta frétt aldarinnar ef ekki mannkynssögunnar því við mennirnir höfum jú frá örófi alda velt fyrir okkur hvort líf sé að finna utan jarðarinnar eða hvort við séum alein í alheiminum.
Það var engin tilviljun að Snæfellsjökull átti að vera lendingarstaður gestanna því kunnugir segja að orkusvið jökulsins sé með eindæmum gott. Í frétt DV frá 6. nóvember 1993 er haft eftir Michael Dillon, aðalskipuleggjanda móttökuathafnar sem átti að vera fyrir geimverurnar, að hann hafi átt samskipti við geimverur og viti af tilvist þeirra.
„Hvernig sem allt fer verður þetta heimssögulegur atburður sem minnst mun verða lengi og víða. Það er ekki útilokað að Snæfellsjökull og nágrenni verði framvegis samskiptastaður fyrir geimverur og jarðarbúa,“ sagði Dillon. Lítið hefur þó orðið úr því svo vitað sé en auðvitað getur verið að einhvers konar samskiptamiðstöð milli jarðarinnar og vitsmunavera í öðrum sólkerfum sé rekin á leynilegum stað nærri Snæfellsjökli.
Dillon virðist hafa verið þess fullviss að geimverurnar kæmu því hann sagðist hafa séð fimm undarleg ljós á himni aðfaranótt föstudags og hafi þau vísað hvert í sína áttina. Hann taldi útilokað okkur stafaði hætta af geimverunum og sagðist fullviss um að þær hefðu fylgst með jarðarbúum undanfarið.
Eins og góðum gestgjöfum sæmir var búið að undirbúa lendingu geimskipsins og var Skúli Alexandersson þingmaður í forsvari fyrir undirbúningsnefndina. DV hafði eftir honum að mikil eftirvænting ríkti á norðanverðu Snæfellsnesi. Hann taldi líklegt að geimfarið myndi lenda skammt frá Hellissandi. Björgunarsveitir og lögreglan höfðu undirbúið sig. Ómari Lúðvíkssyni, oddvita Neshrepps utan Ennis, hafði verið falið það ábyrgðarverkefni að taka á móti geimverunum og bjóða þær velkomnar.
Blaðamenn DV ræddu við bandaríska konu, búsetta í Noregi, sem var komin til að taka á móti geimverunum. Hún sagði 51 prósents líkur á að geimverurnar kæmu í heimsókn. Annar útlendingur blandaði sér í umræðuna og sagði að fólk myndi ekki endilega sjá geimverurnar en það myndi finna fyrir návist þeirra. Kona úr Grundarfirði var þó ekki hrifin af væntanlegri heimsókn:
„Ég vil allavega ekki mæta svona verum ef þær koma. Maður getur átt á hættu að vera numinn á brott. Ég er hálfhrædd.“
En samkvæmt því sem Guðrún Bergmann, Magnús H. Skarphéðinsson og Sveinn Baldursson sögðu í samtali við DV þann 30. ágúst þurfti konan ekki að hafa miklar áhyggjur, því þau sögðu geimverurnar vera friðsamar. Þetta sögðu þau þegar þau tilkynntu um komu geimveranna þann 5. nóvember. Guðrún sagðist telja að Ísland hafi orðið fyrir valinu hjá geimverunum því hér væri enginn her og því ekki skriðdrekar og byssur sem tækju á móti þeim við lendingu. Þá myndu vísindamenn heldur ekki vera til staðar til að taka geimverurnar til að skera í þær og rannsaka.
„Auk þess er gluggi í andrúmsloftinu yfir Snæfellsjökli sem gerir þeim betur kleift að lenda þar heldur en annars staðar. Þarna verður líka friðsamlegt fólk með opinn huga, tilbúið að taka á móti þeim og skynja hvaða skilaboð koma frá þeim.“
Í tengslum við komu geimveranna var haldið heimsþing um fljúgandi furðuhluti og fór það fram í Háskólabíói. Þar voru reifaðar ýmsar hugmyndir um geimverur og tengsl þeirra við okkur jarðarbúa. Fólk skiptist á reynslusögum og rætt var hvort geimverur væru góðar eða slæmar. DV hafði eftir Magnúsi að samkvæmt bráðabirgðaúttekt væru geimverur oft ágætar. Þá komu orð hans, um að einhvers staðar á jörðinni ætti fólk samskipti við geimverur á fimmtán mínútna fresti, kannski einna mest á óvart. Hann sagði að til væru tvær gerðir geimvera. Efniskenndar verur sem allir sjá en væru mun sjaldgæfari en hin tegundin sem væru dulrænar verur sem aðeins skyggnt fólk gæti séð.
Á ráðstefnunni komu margir út úr skápnum, eins og einn ræðumaður orðaði það, um trú sína á tilvist geimvera. Mesta athygli vakti frásögn Hjartar Guðmundssonar en hann sagðist hafa séð geimfar lenda þegar hann var í berjamó á Snæfellsnesi. Auk hans urðu nokkrar kindur vitni að lendingunni. Hann sagðist hafa hugsað með sér að eitthvað hlyti að vera bilað hjá litlu grænu mönnunum sem stigu út úr geimfarinu. Í samtali við DV sagðist Hjörtur alltaf hafa verið talinn sérstakur því hann sæi hluti sem aðrir yrðu ekki varir við og sagðist hann einnig geta gert sig ósýnilegan.
Gunnar Hjálmarsson, betur þekktur sem Doktor Gunni, sótti ráðstefnuna og gerði henni skil í Pressunni.
„Eftir kaffihlé komu nokkrir menn upp á svið og lýstu kynnum sínum af geimverum. Einn sagðist hafa séð geimskip lenda á Snæfellsnesi um það leyti er lent var á tunglinu. Hann var ekki einn um að sjá geimskipið, því rollurnar allt í kring horfðu líka á tvo furðulega menn stíga út úr skipinu, líta í kringum sig og fljúga svo í burtu. Annar lýsti kynnum sínum af huglægum geimverum, sem í þetta skiptið líktust einna helst draugum, og sá þriðji sagði frá dularfullu ljósi sem hafði sést á himninum yfir Snæfellsjökli um það leyti er hann og félagar hans voru að koma úr transi, en þeir stunduðu það um helgar að hjálpa hver öðrum í trans. Náðust myndir af fyrirbærinu og var upptakan sýnd í matarhléinu. Líktist geimskipið einna helst vasaljósi sem skjálfhentur maður hélt á í nokkurra metra fjarlægð, …“
Snorri Óskarsson, safnaðarhirðir hjá Betelsöfnuðinum í Vestmannaeyjum, var ekki sáttur við komu hinna tignu gesta utan úr geimnum og hafði Tíminn eftir honum þann 9. september 1993 að geimverurnar væru útsendarar djöfulsins. Magnús Skarphéðinsson sagði að þessi afstaða Snorra kæmi sér ekki á óvart og væri dæmi um þröngsýni kristinnar trúar.
„Ég kalla þetta tæknivæddan draugagang. Það er svo lítið hægt að byggja á þessu. Menn þurfa helst að vera miðlar til þess að ná sambandi og það er akkúrat það sem heitir á daglegu máli spíritismi og biblían stendur gegn. Þetta eru andar blekkingarinnar. Höfðingi þessara geimvera heitir nú bara djöfullinn og satan,“ sagði Snorri. Þegar hann var spurður hvort þetta væri ekki bara allt saman blekking svaraði hann:
„Nei, þetta er ekki endilega alveg blekking. Maðurinn er þríeinn, hann samanstendur af þremur þáttum; líkama, anda og sál. Andlegi þáttur mannsins er mjög opinn og næmur fyrir öðrum öndum og getur haft samskipti við þá. Þannig getum við t.d. haft samskipti við Guð og engla. Biblían talar um veröldina sem sýnilega líkamlega veröld og andlega. Jesús Kristur rak út illa anda. Nú erum við á þeim tíma að við eigum von á því að endurkoma Jesú Krists eigi sér stað, vegna þess að það er loforð fagnaðarerindisins. Við endurkomuna verða myrkraöflin bundin. Það er talað um það í biblíunni að djöfullinn verði bundinn í þúsund ár og þá verður friður á jörðinni og það verður æðislegt að vera til þá. Þar sem djöfullinn veit að hann hefur þennan óralitla tíma, þá er hann að blekkja manninn og það gerir hann bara til þess að eyðileggja hann.“
Snorri sagðist ekki hafa rætt þetta við nýaldarsinna eins og Magnús. Þeir væru leitandi sálir og vildu eflaust vel en mein þeirra væri að þeir hefðu ekki tekið mark á ritningunni.
En hvað sem skoðunum fólks leið þá lenti ekkert geimfar á eða við Snæfellsjökull umræddan dag og ekki eftir þetta, svo vitað sé. Að minnsta kosti ekki geimför eða geimverur í efnislegu formi.
„Ég hafði ekki trú á því að nokkurt geimskip myndi lenda, en ég varð að fara ef eitthvað myndi hugsanlega lenda,“ segir Magnús Skarphéðinsson sem hefur gegnt starfi formanns Sálarrannsóknarfélags Reykjavíkur og formans Félags áhugafólks um fljúgandi furðuhluti. Mikið hefur gengið á í lífið Magnúsar en hann var á síðasta ári dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn tveimur sautján ára piltum í Laugardalslaug árið 2014.
Magnús trúir blaðamanni fyrir því sem hann hefur aldrei opnað sig um áður, að þetta örlagaríka kvöld hafi hann séð geimskip svífa yfir jöklinum. Þegar Magnús er beðinn um að lýsa aðstæðum segir hann:
„Það var sterkur vindur, kalt og ömurlegt veður þetta kvöld. Geimverurnar áttu að koma í ljósaskiptunum. Við hliðina á mér voru tvær svissneskar stúlkur. Við héldumst öll í hendur í stórum hring og mér var hugsað heim. Ég horfði til suðurs í áttina að Reykjavík og hugsaði: „Andskotans vitleysa er þetta“.
„Mér fannst þetta allt frekar ómögulegt og kuldinn var ekki að hjálpa, nema það að þegar horft var í áttina að Reykjavík sá ég mjög sterka og þykka skýjabakka. Þeir fóru hratt yfir í norðanáttinni. Þá sá ég rauðan hring. Hann hoppaði til og frá, upp og niður, gríðarlega ört. Fyrst gerði ég ráð fyrir því að þetta væru ofsjónir, en þá horfði ég betur og sá þetta mjög skýrt. Ég sagði við stelpurnar sem voru þarna að ég sæi fljúgandi furðuhlut. Þá hvarf þetta þegar þær litu upp. Svo liðu nokkrar mínútur og þá kom þessi furðuhlutur aftur. Þá benti ég aftur á þetta og þær sáu það sem ég sá. Þetta var mjög greinilegt.“
Magnús vill meina að þarna hafi verið geimskip sem áhugafólk um fljúgandi furðuhluti hafði beðið eftir með mikilli eftirvæntingu.
„Daginn eftir var ráðstefna í Háskólabíói, þar sem flestir heimsmeistarar UFO-fræðinnar voru komnir til landsins. Þeir nefnilega tóku þetta alvarlega, að þetta gæti hugsanlega gerst, enda höfðu þrjár skyggnar manneskjur fengið skilaboð frá verum um að þær ætluðu að fljúga yfir Snæfellsnesið. Tveir sjáendurnir fengu skilaboð um að verurnar ætluðu að lenda. En á fyrirlestrinum var maður sem hét Robert Ochler. Hann var fyrrverandi verkfræðingur á eftirlaunum frá NASA og hafði líklega tekist að stela myndböndum frá NASA, sem hann sýndi í stóra salnum í Háskólabíói.“
Magnús heldur áfram og er mikið niðri fyrir: „Vegna þess að það var svo svakalegt fjölmiðlafár í kringum þetta, og atburðurinn talinn mikið flopp, mættu fáir á fyrirlesturinn. Við vorum í kringum þrjátíu manns í þessum stóra sal og við fengum að sjá tuttugu og eina mynd. Mynd númer sextán sýndi rauðan hring sem hoppaði ört fram og til baka, nema þarna var hann í mjög skýrri mynd. Það var enginn skýjabakki á milli myndavélarinnar og farartækisins. Þarna sá ég að þetta var bollalaga farartæki. Ég stóð upp í salnum og galaði eins og hálfviti: „Ég sá svona í gær!““
Magnús kveðst hafa með þessu gert sig að athlægi. „Þá sagði sá sem stjórnaði fyrirlestrinum þessa ódauðlegu setningu við mig: „Og hvað?“ Auðvitað var þetta mjög eðlilegt fyrir honum en mér ógleymanleg upplifun.“
Magnús bætir við að í geimnum séu svo hann best viti fimm eða sex tegundir af geimverum sem fólk hefur séð. Aðspurður hvort það sé nú ekki dálítið einkennilegt og dragi úr trúverðugleika þess að geimverur séu til, að þá lendi hin meintu geimskip aldrei á jörðinni eða eigi í nokkrum samskiptum við jarðarbúa, segir hann einfalda skýringu á því. „Það er óskrifuð regla að það er bannað að hafa samband við vitsmunaverur sem eru komnar jafn stutt á veg og mannkynið. Örfáir eru að stelast og þeir sem eru að stelast eiga að hafa hægt um sig og mega ekki láta sjá sig,“ segir Magnús og heldur áfram: „Viðkvæmt vitkyn eins og maðurinn er svo viðkvæmt að það myndi setja allt á annan endann ef þetta yrði opinber vitneskja um verur sem eru lengra komnar. Við eigum heldur ekki neitt í þær. Reynslan hefur sýnt að það gefi mjög slæma raun þegar þær láta sjá sig.“
Þegar Snorri er beðinn um að rifja upp þennan tíma kveðst hann ekki trúa á geimverur og að mannkynið sé í raun hinar einu þekktu geimverur.
„Ég hef oft talað um andaverur vonskunnar í himingeimnum. Það er allt annað mál. Þær verur eru miklu nær okkur en við höldum,“ segir Snorri og heldur áfram: „Fyrir þá sem fóru á jökulinn þá var þetta ákveðin hneisa. Fólk vildi ekki viðurkenna að það lét gabba sig. Það hringdi enginn í mig eftir á til þess að láta mig vita að ég hefði haft á réttu að standa. Fólk bara þagði, alveg eins og þegar það kýs vitlausan pólitískan flokk – það bara þegir.“
Snorri segir að um skólabókardæmi í múgsefjun í íslensku samfélagi hafi verið að ræða.
„Þetta fólk náði athygli fjölmiðla og gat komið með einhvers konar rökhyggju. Þjóðin er svo lítil í „spíritismanum“ og að tengja geimverur við spíritismann fannst henni alveg sjálfsagt. Ég held líka að kvikmyndir eins og E.T. hafi ýtt undir trúna.“
Telur þú að með tilkomu samfélagsmiðla, internetsins, myndavéla að þá hafi dregið úr þessari trú?
„Ég held það, en fólk þarf að átta sig á því að Stjörnuskoðunarfélagið hefur þetta sem meginmarkmið, að leita að lífi í geimnum. Við tölum ekkert endilega um þetta félag sem samfélag heimskingja eða vitleysinga, en þetta er ákveðin trú. Síðan örlar ekki á lífi á þeim hnöttum sem menn hafa skoðað, enda lífið í rauninni stærsta undur veraldar, því við eigum okkar jörð, svona fallega en skoðum samt í kringum okkur og þykjumst eiga réttinn til þess að eyða lífi. Ef okkur líkar ekki að kalla þetta eyðingu, þá köllum við þetta hreinsun. Við skoðum ekki það líf sem blasir þegar við.“