Auglýsingar SS-pylsna,sem skarta Kjartani Guðjónssyni í hlutverki Árna pylsusala hafa verið teknar úr umferð eftir að fyrirtækinu var gert kunnugt um nauðgunardóm sem Kjartan hlaut seint á níunda áratugnum. Kjartan var dæmdur í 15 mánaða fangelsi árið 1989 fyrir hrottalega nauðgun. Kjartan hefur verið áberandi í íslensku leiklistarlífi undanfarna tvo áratugi og farið með fjölda hlutverka í leikhúsi, kvikmyndum og sjónvarpi. Hann hefur til að mynda birst í ýmsum vinsælum sjónvarpsþáttaröðum, svo sem Stelpunum, Pressu og Ástríði og einnig hefur hann komið fram í Áramótaskaupi Sjónvarpsins. Í seinni tíð hefur hann þó fyrst og fremst birst á skjám landsmanna í fyrrnefndum auglýsingum SS.
Umræddur dómur hefur ekki verið á allra vitorði en Steinþór Skúlason, forstjóri SS, segir í samtali við DV að hann hafi fyrst heyrt af dómnum um síðustu helgi og þá hafi verið tekin sú ákvörðun að stöðva birtingu auglýsinganna þar til endaleg ákvörðun yrði tekin um framhaldið.
Við vinnslu fréttirnar náði DV ekki tali af Kjartani, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Brotið sem Kjartan var dæmdur fyrir átti sér stað þann 16. apríl árið 1988, fyrir rúmum 30 árum. Var Kjartani gefið að sök að hafa veist að brotaþola og þvingað hana til holdlegs samræðis. Hann var sem fyrr segir sakfelldur og dæmdur í 15 mánaða fangelsi í sakadómi Reykjavíkur og staðfesti Hæstiréttur síðar meir þann úrskurð.
Steinþór Skúlason, forstjóri SS, segir að Kjartan hefði ekki verið ráðinn í hlutverk Árna pylsusala hefði fyrirtækið vitað af dómnum. „Það var verið að keyra á fjórðu auglýsingaseríuna með honum í hlutverkinu, þetta eru líklega búin að vera sjö ár. Hann var ráðinn samkvæmt tillögu auglýsingastofu. Þá lágu engar upplýsingar um þetta fyrir. Við höfum fengið skilaboð um þetta. Þetta er auðvitað þrjátíu ára gamalt mál og við erum að velta fyrir okkur hvað eigi að gera, því þetta er ekki alveg einfalt. Það eru ekki til neinar augljósar línur í þessu, það má segja að við hefðum ekki lagt af stað ef við hefðum vitað þetta,“ segir Steinþór.
Hann segir að málið sé nokkuð erfitt viðureignar en líkt og fyrr segir þá var ákveðið að stöðva birtingu auglýsingarinnar, í það minnsta tímabundið.
„Hann er búinn að leika í sjónvarpi og hingað og þangað. Eru þeir sem eru að vekja máls á þessu, ætlast þeir til að hann sé allstaðar klipptur út? Þetta er viðkvæmt og erfitt mál,“ segir Steinþór.
Athygli var vakin á máli Kjartans á Twitter um síðustu helgi og má leiða að því líkur að þannig hafi dómurinn ratað á borð SS. Leikaraneminn Vilhelm Neto skrifaði síðastliðinn laugardag að það „væri ógeðslegt að leikarar sem hafi verið kærðir fyrir nauðgun fái sífellt vinnu á ný.“
„Það er fokking ólíðandi að leikarar sem eru kærðir oft fyrir nauðgun eða eru viðbjóðslega óþægilegir við stelpur undir aldri haldi áfram að fá vinnu,“
skrifaði Vilhelm og vakti færslan talsverða athygli. Athygli er vakin á því að Vilhelm var meðal annars að tala um Kjartan en ekki hann eingöngu.
Fjöldi fólks vildi vita um hvern væri að ræða en þó að Vilhelm hefði ekki svarað því þá sáu aðrir, svo sem Hildur Lilliendahl, um það og greindu frá dómi Kjartans. Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir Bachmann, sem kom að því að skipuleggja Druslugönguna, birti skjáskot af dómi Kjartans. Hún segir enn fremur:
„Mikið væri gott ef vinnuveitendur væru skyldaðir til að lesa nauðgunardóma þeirra sem þeir vilja ráða í vinnu. Væri líka gott ef við gætum haft nauðgara-free áramótaskaup og jafnvel sleppt því að láta þá verða andlit á vinsælum íslenskum vörum.“
DV hefur undir höndum afrit af dómi Sakadóms Reykjavíkur frá 7. september 1988. Fram kemur að 27. apríl það ár hafi verið lögð fram kæra á hendur Kjartani Guðjónssyni fyrir nauðgun. Fram kemur í ákæru að Kjartan hafi þann 16. apríl 1988 veist að brotaþolanum með ofbeldi og þröngvað henni til holdlegs samræðis. Fram kemur að þetta hafi átt sér stað í íbúðarherbergi sem Kjartan hafði á leigu við Túngötu 8 í Reykjavík.
Málavöxtum er lýst á þá leið að umrædda nótt hafi lögreglumenn sem óku niður Túngötu séð til manns og konu á götunni. Þegar þeir nálguðust fólkið, hljóp maðurinn inn í húsgarðinn nr. 8 við Túngötu en konan gaf sig fram við lögregluna og sagði að maðurinn hefði nauðgað sér í kjallaraherbergi hússins nr. 8. Fram kemur að konan hafi verið „miður sín og grátandi og föt hennar aflöguð.“ Kjartan var í kjölfarið handtekinn á Öldugötu og færður á lögreglustöð.
Fram kemur að við fyrstu skýrslutöku hjá rannsóknarlögreglu hafi konan verið í „mjög slæmu andlegu ástandi og er þá haft til viðmiðunar ástand kærenda í samskonar málum.“
Konan sagði við skýrslutöku að hún hefði kynnst Kjartani á veitingastaðnum Lækjartungli og í kjölfarið hafi þau farið heim til Kjartans að sækja áfengi, en síðan hafi þau ætlað að fara í samkvæmi í Grafarvogi. Greindi hún frá því að eftir að þau komu heim til Kjartans hafi þau spjallað saman og kysst en hún hefði ekki viljað ganga lengra. Kvaðst hún hafa tjáð Kjartani, eftir að hann gerðist ágengari að hún hefði gengist undir aðgerð á móðurlífi sex vikum áður og vildi ekki hafa við hann mök.
Sagði hún Kjartan þá hafa „tryllst“, ráðist á hana og kallað hana öllum illum nöfnum. Hann hefði slegið hana í andlit og haldið henni fastri og kallað hana „hóru“ og dræsu.“ Sagði hún hann hafa afklætt hana en hún hefði barist um og veitt mótspyrnu og einnig hljóðað og kallað á hjálp. Sagði hún Kjartan hafa haft við hana samfarir og hún hefði fundið til í móðurlífinu á meðan.
„Kvað vitnið hann hafa virst vera eins og trylltur, meðan á þessu gekk.“
Á öðrum stað sagði konan að eftir að Kjartan hefði lokið sér hefði hún tjáð honum að hún ætlaði að kæra hann. Hann hefði þá tekið fyrir kverkar hennar, kallað hana druslu og sagt að hún „kæmist aldrei upp með það“ því að hann myndi drepa hana og enginn kæmist að þessu. Hefði hann margsinnið löðrungað hana og slegið hana með einhverju, sem líktist svipu. Sagði hún loks hafa sefast og hún hefði þá getað klætt sig. Sagði hún Kjartan hafa hleypt henni út með því skilyrði að hún myndi engum segja frá. Eftir að þau voru komin út hefði hún sagt eitthvað við hann en hann hefði þá reiðst og hrint henni utan í steinsteyputröppur sem voru á húsinu. Var það þá sem hún hefði séð lögreglubifreið og tilkynnt nauðgunina.
Við yfirheyrslur hjá lögreglu sagði Kjartan að hann hefði verið „talsvert ölvaður“ þegar hann og konan héldu frá Lækjartungli og heim til hans á Túngötu. Sagði hann konuna hafa virst „eitthvað treg í fyrstu“ en hún hefði þó leyft honum að afklæða sig. Þá sagði hann stúlkuna hvergi hafa minnst á ofangreinda aðgerð og ekki sýnt neinn mótþróa við samfarir. Þá sagðist hann hafa haldið samförunum áfram í nokkrar sekúndur eftir að konan sagði „Ekki Kjartan“ en hún hefði síðan ýtt honum ofan af sér. Sagði hann að sér hefði þá verið misboðið, kallað konuna öllum illum nöfnum og sagt henni að koma sér út. Sagði hann konuna þá hafa ráðist á hann og klórað hann á bakinu.
„Ákærði kvaðst ekki muna hvort hann hefði löðrungað stúlkuna þá eða hvenær hann gerði það en telur að hann hafi e.t.v löðrungað stúlkuna fjórum sinnum.“
Þá sagði hann hafa komið til „einhverra handlögmála“ á milli hans og stúlkunnar. Sagði hann konuna hafa slegið til hans og hann hefði þá snúið hana niður og sagt henni að „vera góð og koma sér út.“ Þá sagði hann að „einhverjar stimpingar“ hefðu orðið eftir að þau komu út.
Þá neitaði hann að hafa slegið stúlkuna með svipu, en kannaðist við að hafa tekið belti af slá og slegið því í rúmið.
„Ákærði kannaðist ekki við að hafa hótað stúlkunni neinu nema þá í mesta lagi í því skyni að reka hana út.“
Á öðrum stað kvaðst hann almennt vera hræddur við lögregluna og því hefði hann flúið á braut þegar lögreglubílinn bar að.
Fyrir dómi var lagt fram vottorð kvensjúkdómalæknis sem skoðaði stúlkuna 16. apríl. Í vottorðinu kemur meðal annars fram að „stúlkan sé í hálfföstu sambandi við pilt sem sé á ferðalagi erlendis og hafi fyrir sex vikum gengist undir leghálsaðgerð vegna forstigsbreytinga. Hún hafi því „margar ástæður fyrir því að á engan hátt hafa ætlað eða langað til samfara, fyrir utan það að hún hafði engan hug til slíks.“
Þá kemur fram að stúlkan hafi verið „skelfingu lostin“ þegar læknir ræddi við hana, brostið hvað eftir annað í grát og átt mjög erfitt uppdráttar. Stúlkan sagðist vera „aum og illt“ víða í skrokknum og fram kemur að hún hafi verið alsett smámarblettum og skrámum. Nærbuxur hennar voru rifnar og blóðugar og sokkabuxur rifnar og tættar. Þá kemur fram í vottorði læknisins að við kvensjúkdómaskoðun sjáist áverkar sem „ekki samrýmast neinu nema kynferðislegri misbeitingu.“
Þá kemur fram að stúlkan hafi sagst vilja kæra Kjartan til þess að „hjálpa honum og forða öðrum frá því að lenda í honum.“
Í niðurstöðu dómsins segir að Kjartan hafi „umturnast“ eftir að stúlkan vildi ekki þýðast honum, kallað hana öllum illum nöfnum og valdbeitt hana andlega og líkamlega. Hann hafi löðrungan hana trekk í trekk, hrint henni og pústrað og slegið hana með svipu.Brotaþolinn hafi verið „vitstola af skelfingu.“
„X ber öll ytri merki þess að hún segi satt.“
Þegar leit var gerð í íbúðarherbergi Kjartans 2.júní 1988 fundust tvær mittisólar með sylgjum hanga við herbergisdyrnar. Þá segir jafnframt í niðurstöðu að „ákærði viðurkennt að hafa haft samfarir við stúlkuna en algerlega neitað að hafa þröngvað henni til þess.“
„Frásögn hans er um margt ótrúverðug og rekst á frásögn X um veigamikil atriði. Frásögn X hefur aftur á móti í öllum aðalatriðum verið sjálfri sér samkvæm og hefur stuðning af vitnisburði annarra, áverkum á henni sjálfri, og á ákærða og á ummerkjum á fatnaði.“
Kjartan var dæmdur í 15 mánaða fangelsi og gert að greiða stúlkunni 300 þúsund í miskabætur. Dómnum var áfrýjað til Hæstaréttar bæði að ósk Kjartans og sömuleiðis að beiðni ákæruvaldsins, sem krafðist þyngri refsingar. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms 18.apríl 1990.
Líkt og fyrr segir þá gerði DV ítrekaðar tilraunir til að ná tali af Kjartani, en án árangurs. Blaðmenn höfðu samband við hann á Facebook án árangurs og gerðu tilraun til ná tali af honum á heimili hans samkvæmt Þjóðskrá. Nágranni tjáði blaðamönnum að hann hefði flutt fyrir hálfu ári. Símanúmer hans samkvæmt bæði símaskrá og Félagi íslenskra leikara er ekki tengt.