Magnús Norðquist Þóroddsson hefur verið dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir að hafa ráðist hrottalega á mann á Akureyri árið 2016. Samkvæmt dómi veittist Magnús að manninum með ofbeldi í bakgarði á Akureyri snemma að morgni laugardags í apríl þetta ár.
Hann dró manninn upp úr heitum potti en við það brotnaði glas og glerbrot dreifðust um sólpall. Hann sneri manninn svo niður og lá hann þá á glerbrotunum. Því næst sló hann manninn ítrekað, þar á meðal í andlitið.
Magnús var auk þessa dæmdur fyrir að svipta manninn frelsi sínu. Eftir árásina á sólpallinum setti Magnús manninn rænulausan á pallbíl og ók honum að Fálkafelli. Þar hélt hann áfram að lúskra á manninum en samkvæmt dómi þá sparkaði hann í höfuð hans. Hann skildi manninn svo eftir meðvitundarlausan og mikið slasaðan þar til vegfarandi gekk fram á hann klukkan rúmlega 11.
Samkvæmt þolanda árásarinnar mátti rekja upptök málsins til þess að hann skuldaði Magnúsi lítilræði vegna fíkniefnaviðskipta. Magnús hafi hringt í hann vegna þessa.
„Ákærði Magnús hafi svo birst á pallinum við pottinn og hafi lamið hann í andlitið með hafnaboltakylfu. Hann hafi þá staðið upp en ákærði lamið hann niður. Þá hafi hann einnig stungið brotaþola í hönd og fót. Brotaþoli kveðst muna að hann hafi þá klætt sig og farið af stað heim á leið. Næst muni hann eftir sér upp við Fálkafell þar sem lögreglan stumraði yfir honum. Við rannsókn málsins vaknaði grunur um að ákærðu Magnús og X hafi við þriðja mann, E sem nú er látinn, ekið með brotaþola áleiðis að Fálkafelli, gengið þar í skrokk á honum og skilið hann eftir meðvitundarlausan,“ segir í dómi.
Magnús neitaði sök fyrir dómi og sagðist hafa umrætt kvöld verið að selja og kaupa fíkniefni. „Hann hafi verið einn alla nóttina. Hann kvaðst hafa hitt meðákærða X um klukkan 10 um morguninn en ekki hitt E. Hann hafi verið á bláum BMW skutbíl. Aðspurður kvaðst hann hvorki hafa hitt D, F né brotaþola þessa nótt eða morgun. Hann kvaðst hafa þekkt brotaþola lítillega í gegnum vinkonu sína sem var í sambandi við brotaþola. Brotaþoli hafi kennt ákærða um sambandsslit þeirra og verið honum mjög reiður, hringt stöðugt í hann, skrifað til hans á facebook og reynt að komast inn á heimili hans. Hann hafi nokkrum sinnum óskað aðstoðar lögreglu vegna þess. Aðspurður kvaðst ákærði hvorki hafa selt brotaþola eiturlyf né keypt af honum. Aðspurður um skýringar þess að sími hans kom inn á sendi við Fálkafell kvaðst ákærði oft hafa keyrt þar nærri á heimleið,“ segir í dómi.
Dómari taldi framburð Magnúsar ekki trúverðugan þar sem bæði vitni og símagögn sýndu fram á annað. Hann var líkt og fyrr segir dæmdur í 18 mánaða fangelsi og þarf hann að greiða þolanda árásarinnar eina milljón króna í skaðabætur.