fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fréttir

Leika lausum hala á Reykjavíkurflugvelli: Dæmdir barnaníðingar, kungfu-prestur, Panamaprins og sértrúarsöfnuður


Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hvað eiga tveir barnaníðingar, kung-fu prestur, flugvélar, þyrlur, Panamaprins, kapella og sértrúarsöfnuður sameiginlegt? Jú, allt þetta er að finna í flugskýli 1 á Reykjavíkurflugvelli. Barnaníðingarnir sitja í stjórn félags sem er skráð með yfir 200 milljónir í hlutafé, kung-fu presturinn, sem eitt sinn var lífvörður og sjóræningjabani, stýrir samkomum sértrúarsafnaðarins og Panamaprinsins á skýlið sjálft. Barnaníðingurinn heitir Sigurður Ingi Þórðarson, betur þekktur sem Siggi hakkari, og situr hann einn í stjórn ásamt Robert Tomasz Czarny sem misnotaði tvær stúlkur hér á landi um árabil. Allir hafa þeir aðgang að haftasvæðum. Og þegar meðlimir sértrúarsafnaðarins mæta á svæðið geta þeir hæglega farið inn á viðkvæm svæði eða farið um borð í flugvélar og jafnvel sest upp í þyrlu og tekið á loft væri sá áhugi fyrir hendi. Eftirlit er ekkert. Til að rekja þessa sögu þurfti nokkra blaðamenn og talsvert pláss enda um ævintýralega atburðarás að ræða sem aldrei hefði átt að eiga sér stað.

Skýli eitt sem hýsir dæmda níðinga og sértrúarsöfnuð

Sigurður Ingi hefur undanfarna mánuði starfað á Reykjavíkurflugvelli sem framkvæmdastjóri félags í eigu auðkýfingsins Hilmars Ágústs Hilmarssonar. Starfsfólki annarra fyrirtækja á vellinum er brugðið og finnst óþægilegt að vera í kringum hann enda hefur hann fengið dóma fyrir bæði kynferðisbrot gegn ungum piltum og fjársvik.

Í krafti starfa sinna hefur Sigurður haft aðgang að haftasvæðum og myndavélakerfi sem fyrirtæki hans setti upp. Sigurður starfar einnig fyrir annað félag Hilmars sem rekur Flugskýli númer 1 á Reykjavíkurvelli og þar var Dan Sommer, lífverði Sigurðar og prests, boðið að starfrækja kirkjustarf gegn því að taka að sér starf öryggisfulltrúa. Sommer leiðir sértrúarsöfnuð sem telur um þrjátíu manns en þar blandast saman kristni og austræn dulspeki.

Blaðamenn DV fóru í flugskýli 1 og ræddu við Sigurð, Hilmar og prestinn Dan Sommer hvern í sínu lagi. Við tóku tveir tímar af stórfurðulegum viðtölum þar sem þeir töluðu þvers og kruss. Allir þrír töluðu merkilega opinskátt um vafasama gjörninga, sem í það minnsta jöðruðu við lögbrot. Þegar blaðamenn DV fóru að spyrja Sigurð um starf hans sem stjórnarmaður félags sem er með mörg hundruð milljónir í hlutafé kom fljótt í ljós að Sigurður vissi lítið um skuldbindingar félagsins og fjárhagsstöðu þess. Ítrekað spurðu blaðamenn út í reksturinn og kom þá nánast alltaf sama svarið.

Þið verðið að tala við eigandann, ég get ekkert svarað því. Það eiginlega bara gerðist,“ segir Sigurður þegar hann var spurður hvernig það kom til að hann byrjaði að vinna hjá fyrirtækinu. Blaðamenn spurðu hvort Sigurður hefði haft vitneskju af því að móðurfélag Ace Holdings, Arwen Establishment, hafi verið í Panamaskjölunum og svarar:

Þið eruð að segja mér fréttir.“

Kapellan í flugskýli 1

Blaðamenn ræddu í um 20 mínútur fyrir utan flugskýli 1 en því samtali lauk þegar Hilmar Ágúst kom gangandi að og bað Sigurð að hjálpa sér. Blaðamenn biðu og bjuggust við að geta rætt við Sigurð lengur, en eingöngu Hilmar Ágúst kom aftur út. Ræddu blaðamenn ekkert frekar við Sigurð.

„Starfsfólkið er að rekast á hann hérna og finnst þetta ástand óþægilegt,“ segir starfsmaður á Reykjavíkurflugvelli sem ekki vill láta nafns síns getið. „Hér vinnur fjölskyldufólk sem kemur oft með börnin sín í vinnuna, sérstaklega um helgar, en það er farið að veigra sér við því, því hann er hér á öllum tímum. Það virðist sem hann búi í skýli 1 og ungir drengir oft með honum í fylgd.“

Sigurður er ekki með neitt skráð lögheimili í Þjóðskrá. Eins og flestir muna þá er brotasaga Sigurðar löng og meðal annars var hann dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn níu ungum piltum árið 2015 og hlaut fyrir það þriggja ára fangelsisdóm. Auk þess sveik hann fjármuni út úr fjölda fyrirtækja, meðal annars Wikileaks sem hann starfaði áður hjá sem sjálfboðaliði. Fékk hann fyrir það þungan dóm í lok árs 2014.

Blaðamenn DV ræða nokkuð ítarlega um kynhneigð og eðli afbrota Sigurðar við Sommer, sem tekur það sérstaklega fram að Sigurður hafi gefið honum leyfi til ræða mál hans. Sommer segir að Sigurður hafi ávallt átt erfitt með að horfast í augu við eigin samkynhneigð. Hann leggur mikla áherslu á að það sé ekki tæknilega rétt að Sigurður sé barnaníðingur þar sem fórnarlömb hans hafi verið á unglingsaldri. Að sögn Sommer leitaði Sigurður í unglingspilta í vændi því hann hafði ekki treyst sér almennilega til að koma út úr skápnum. Sommer ítrekar að hann þó hafi ímugust á vændi.

Sommer segir að Sigurður eigi nú kærasta, 22 ára sjómann, en sá sé hins vegar ekki kominn út úr skápnum. Kærastinn starfar hjá félaginu. Allir þrír, Sigurður, Sommer og Hilmar, eru spurðir um hvernig það hafi gerst að verktaki sem átti að sjá um tölvukerfi hafi á svo stuttum tíma náð að hreiðra um sig í fyrirtækinu. Hvernig stæði á því að svo vafasamur maður hafi náð að redda einum nánasta vini sínum og kærasta vinnu hjá fyrirtækinu eftir svo stuttan starfsaldur? Engin skýr svör fást við því.

Að sögn Hilmars Ágústs lenti fyrirtækið í miklum tölvuvandræðum fyrr á árinu. Þá hafi einn starfsmaður og vinur Sigurðar mælt með honum í starfið.

„Ég man eftir að hafa séð hann í fréttunum og svona. Ég spurði hann bara beint út í dómana hans og hann var mjög opinn með þetta. Ég talaði við konuna mína og hún var alls ekki hress með þetta, við erum sjálf með ungan strák og henni leist ekkert á að hann væri að hanga þarna. Hún kom þarna og yfirheyrði hann og hún var ekkert smá grimm, ég vorkenndi manninum,“ segir Hilmar Ágúst og hlær. Líkt og fyrr segir er ekki fyllilega ljóst hvernig tölvuviðgerðir þróuðust í það að Sigurður raðaði sínum nánustu í stöður innan fyrirtækisins og, að því er virðist, hann búi í húsnæði þess.

Fyrirtæki Hilmars kom fyrir í Panamaskjölunum. Hann réð Sigurð vegna vorkunnar.

Stjórnarformaður í 260 milljón króna félagi

Skýli 1 er í eigu einkahlutafélagsins Bjargfasts og forráðamaður þess er Hilmar Ágúst Hilmarsson, athafnamaður í flugiðnaðinum, búsettur í Sviss. Lítið hefur farið fyrir Hilmari í þjóðfélagsumræðunni og er hann fæstum Íslendingum kunnur. Nafn hans kom hins vegar við sögu þegar Panamaskjölin voru gerð opinber. Þar var hann meðal þeirra Íslendinga sem skráðir voru fyrir aflandsfélögum á Cayman-eyjum í Karíbahafinu. Félög Hilmars sem þar komu fram voru Avijet Limited og Global Fuel Limited.

Félagið Bjargfastur leigir skýli 1 til ýmissa íslenskra flugfélaga og þyrluþjónustufélaga. En Hilmar fer fyrir og á fleiri fyrirtæki sem hafa skráð heimilisfang í skýlinu. Þar á meðal áðurnefnd Global Fuel, Heimflug, BIRK Invest, ACE FBO og ACE Handling. ACE Handling starfar meðal annars í afgreiðslu flugvéla og hjá því félagi er Sigurður Ingi skráður sem stjórnarformaður og framkvæmdastjóri síðan í maí síðastliðnum.

Hlutaféð í ACE Handling er í eigu Arwen Establishment í Liechtenstein sem Hilmar fer fyrir, og tengdist báðum áðurnefndum aflandsfélögum, og félaginu GX Holding. Sigurður Ingi er prókúruhafi félagsins en þann 4. september árið 2017, nokkrum mánuðum áður en hann var skráður fyrir félaginu, var hlutafé þess hækkað umtalsvert, úr tæplega 48 milljónum króna í tæpar 259 milljónir. Sigurður varð svo stjórnarformaður félagsins í maí 2018 og er starfandi  stjórnarformaður í dag og situr einn í stjórn samkvæmt gögnum félagsins. Einn varamaður er í stjórninni, Robert Tomasz Czarny.

Rétt eins og Sigurður þá er Czarny dæmdur kynferðisafbrotamaður. Í október árið 2014 var hann dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir hrottalega misnotkun á tveimur dætrum fyrrverandi sambýliskonu sinnar yfir margra ára tímabil. Yngri stúlkuna misnotaði Czarny þegar hún var á aldrinum átta til þrettán ára og þá eldri þegar hún var tólf til fjórtán ára.

Í dómnum segir um eitt af hans mörgu brotum:

„Þegar stúlkan var á aldrinum 8 til 13 ára, þar af undir lok tímabilsins að D í […], með því að hafa ítrekað káfað á líkama hennar og kynfærum með höndunum, margoft kysst hana tungukossum á munninn og reynt að láta hana snerta á sér kynfærin, að minnsta kosti í tvö aðgreind skipti látið kynfærin nema við rass og endaþarmsop hennar og að minnsta kosti í tuttugu og fimm skipti nuddað kynfærunum upp við og inn í kynfæri hennar.“

Þegar Hilmar Ágúst er spurður hvort hann viti að varamaður Sigurðar í stjórn félagsins sé dæmdur barnaníðingur, segist Hilmar ekki hafa vitað af því. „Nei, ég vissi það ekki, þetta er vinur hans Sigga,“ segir hann og hlær. Blaðamaður spyr þá Hilmar Ágúst hvort honum þætti það eðlilegt að skipa menn sem stjórnarformann og varamann sem hafa báðir verið dæmdir fyrir kynferðisafbrot gegn börnum. Áður en Hilmar Ágúst getur svarað grípur Dan Sommer snarlega inn í umræðuna og segir: „Sigurður hefur ekki verið dæmdur fyrir barnaníð gagnvart börnum. Sigurður hefur aldrei labbað framhjá leikskóla og fengið standpínu við það. Hann fór í fangelsi fyrir kaup á vændisþjónustu.“

Skulda tugmilljónir í opinber gjöld

ACE Handling, sem Sigurður var skipaður stjórnarformaður fyrir fyrr á þessu ári, skuldar tugmilljónir í opinber gjöld til ríkissjóðs. Þetta staðfestir Hilmar Ágúst, eigandi félagsins, í samtali við blaðamenn. Þegar Sigurður er hins vegar spurður um skuldir félagsins við ríkissjóð segir hann að fyrirtækið skuldi aðeins örfáar milljónir. Vekur það furðu hjá blaðamönnum hvernig svör eiganda félagsins og stjórnarformanns félagsins um skuldastöðu fyrirtækisins séu svo hróplega í mótsögn við hvort annað. Virðist sem Sigurður í starfi sínu sem stjórnarformaður viti ekki hver heildarskuldarstaða fyrirtækisins sé. Einnig segir Hilmar Ágúst við blaðamenn að fyrirtækið væri í samningaviðræðum við „stóra aðila í Evrópu“ sem væru að koma með fjármagn inn í félagið. Hafi vinna staðið í nokkra mánuði við að ræða við það félag og ef samningar tækjust mundi ACE Handling hefja aftur starfsemi á fullu á Keflavíkurflugvelli, en ACE Handling hætti starfsemi þar eftir að flugfélög hættu að eiga viðskipti við félagið og var því ekki rekstrargrundvöllur til staðar lengur. Sigurður hafði hins vegar sagt við blaðamenn að vinna væri hafin við að leggja niður ACE Handling og hætta starfsemi félagsins. Virðist sem einhver samskiptavandamál séu á milli stjórnarformanns fyrirtækisins og eiganda félagsins, þar sem þeir virðast fara með félagið í tvær mismunandi áttir.

Dan Sommer kann ýmislegt fyrir sér í bardagaíþróttum

Öryggisstjóri ACE FBO vinnur í skiptivinnu

Dan Sommer er ekki bara prestur hjá Postulakirkjunni í flugskýli eitt, heldur er hann einnig öryggisstjóri ACE FBO. Það félag sérhæfir sig í flugþjónustu fyrir einkaflugvélar á Reykjavíkurflugvelli. Í samtali við DV viðurkennir hann að öryggismálum hjá fyrirtækinu væri ábótavant og mikið vantaði upp á að lagalegar kröfur sem settar eru á fyrirtækið stæðust.

Þegar Dan var spurður um hvort hann fengi greitt fyrir störf sín sem öryggisstjóri fyrirtækisins sagði hann að hann væri ekki á launaskrá. Í stað þess að fyrirtækið greiði honum laun styrki ACE FBO Postulakirkjuna og leyfði honum að hafa afnot að húsnæðinu til að hafa kapellu í flugskýli 1. Samkvæmt skattalögum er óleyfilegt að greiða ekki starfsmanni beint laun fyrir vinnu sína og er ekki leyfilegt að greiða trúfélagi fyrir vinnu starfsmanns.

Með aðgang að haftasvæði og myndavélum

Það að Sigurður Ingi hafi aðstöðu í flugskýli á Reykjavíkurflugvelli er ekki það alvarlegasta að mati þeirra starfsmanna sem DV ræddi við í tengslum við þetta mál. Heldur það að Sigurður komist inn á haftasvæðið á Keflavíkurflugvelli og geti athafnað sig þar fyrir ACE Handling. ACE Handling þjónustar aðeins eitt flugfélag, hið svissneska Edelweiss, yfirleitt síðdegis á föstudögum. Til að geta starfað á haftasvæði verður fólk að standast bakgrunnsskoðun hjá Ríkislögreglustjóra og þá skoðun stenst Sigurður vitaskuld ekki miðað við hans brotasögu.

Sigurður hefur hins vegar fengið að fara inn á svæðið á svokölluðum gestapassa sem flugverndarstjóri fyrirtækisins sér um að útvega. Þeir sem sjá um að útvega slíka passa eru ábyrgir fyrir gestinum og verða að fylgjast með honum í þann afmarkaða tíma sem passinn gildir. Ekkert fast haftasvæði er á Reykjavíkurflugvelli nema þann tíma sem millilandaflug er þar í gangi, en félög Hilmars sjá til dæmis um þjónustu við einkaflugvélar á vellinum.

Starfsmaður á Reykjavíkurflugvelli hefur töluverðar áhyggjur af umsvifum Sigurðar þar.

„Hann hefur aðgang að myndavélakerfi sem hann hefur verið að setja upp hérna á vellinum og fólk setur spurningarmerki við allt sem er hér í gangi í kringum hann, vegna brotasögu hans. Hérna í skýlunum eru tæki metin á mörg hundruð milljónir króna og fólki finnst þetta ekki viðeigandi. Hann kemur og fer eins og hann lystir, oft seint á kvöldin.“

Dan Sommer er líka prestur og fermir og skírir börn í flugskýli 1

Börn skírð í skýli 1

Dan Sommer og Sigurður Ingi eiga sér langa sögu að baki eins og greint verður betur frá hér síðar. En Sommer er prestur sem hefur starfað sem lífvörður Sigurðar. Þrjú ný félög, sem öll tengjast Sommer hafa bæst við í fyrirtækjaflóruna í skýli 1 og eitt þeirra er áður nefnd Postulakirkja – Beth-Shekhinah. Skýlið er ekki aðeins skrifstofa eða póstkassi fyrir kirkjuna því þar eru haldnar trúarsamkomur, innan um tól og tæki til flugs.

Annar starfsmaður á flugvellinum sem einnig hefur áhyggjur af ástandinu segir:

„Það er fólk að mæta í skýlið, prúðbúið, til að láta skíra börnin sín.“

Postulakirkjan fer heldur ekki leynt með sínar samkomur. Mánudaginn 13. ágúst var „kyrrðarbæn og íhugunarsamkoma í skýli 1“ auglýst á Facebook-síðu hennar.

Einnig er þangað komið ferðaþjónustufyrirtækið Northern Tours og hjálparsamtökin 4Crisis Relief. Samkvæmt heimasíðu sérhæfa þau sig í aðstoð við fórnarlömb mannrána sem kljást við áfallastreituröskun.

Blaðamenn DV fengu að sjá „kapelluna“ sem er í fremur litlu en ílöngu herbergi við hlið skrifstofu Sommer. Það fyrsta sem vakti athygli blaðamanna var beddi í miðju herberginu, sem Sommer gekk frá og setti í skáp. Líkt og fyrr segir þá virðist söfnuðurinn byggður á samkrulli kristni og austrænar dulspeki. Það sást glögglega á því að á hillu einni var stytta af Búdda við hlið kross. Af veggspjöldum að dæma þá stundar söfnuðurinn nálarstungur og árunudd, svokallað reiki. Það kann að skýra beddann.

Þó mátti sjá merki um kristinn sið; innst í herberginu var altari þar sem opin bók lá. Það var þó ekki Biblían og könnuðust blaðamenn ekki við uppruna hennar. Við hliðina á bókinni var skál með oblátum.

Blaðamaður sá bunka af blöðum í kapellunni og tók eitt eintak. Blaðið reyndist lýsing á „hraðheilun fyrir streitu og kvíða“ í sjö skrefum. Þau hljóða svo:

„1. GV-24 Third eye/Spiritual Point.

  1. GB-20Gates of Consciousness.
  2. LU-1Centralpalace/YinYangHouse.
  3. K-27 Elegant Mansion/DeepBreath.
  4. CV-17CenteringPoint/Sea of Tranquility.
  5. LI-4HeGu/JoingValley.
  6. PC-6InnerGate.“

Blaðamenn töldu í það minnsta tólf gráður á veggjum skrifstofunnar, en þær flestar virtust eiga uppruna sinn úr bréfaskólum. En hvernig kom það til að 51 árs prestur varð svo náinn unga afbrotamanninum? Sommer segir að þeir hafi fyrst kynnst á lífsleikninámskeiði þar sem Sommer kenndi meðan Sigurður tók ljósmyndir. Raunverulegur vinskapur hafi þó ekki byrjað fyrr en síðar þegar þeir hittust á pítsastað fyrir tilviljun. Það var á svipuðum tíma og Sigurður lak gögnum frá Milestone til DV og svo virðist sem Sommer hafi þótt það áhugavert.

Stórfelld kynferðisbrot og fjársvik

Sigurður á að baki skuggalega fortíð og hefur hlotið dóma fyrir fjársvik og misnotkun á drengjum, sem fyrr segir. Það er í raun merkilegt hvað sagan er mikil miðað við að hann er aðeins 25 ára gamall. Árið 2006 var hann að ganga til altaris í Hjallakirkju í Kópavogi til að fermast með skólasystkinum sínum.

Sigurður starfaði sem sjálfboðaliði fyrir samtökin Wikileaks og kom við sögu í mörgum lekum sem tengdust félögum á borð við Glitni, Vafningi, Milestone og fleirum á árunum eftir hrun. Haustið 2011 var hann yfirheyrður af bandarísku alríkislögreglunni (FBI) í bandaríska sendiráðinu eftir að upp komst að hann hefði upplýsingar sem tengdust glæparannsókn þar í landi.

Íslensk stjórnvöld kröfðust þess að alríkislögregluþjónarnir yfirgæfu landið en þá tóku þeir Sigurð með til Danmerkur og yfirheyrðu hann þar. Sigurður hitti lögreglumennina í nokkur skipti til viðbótar í Danmörku og Bandaríkjunum.

Mætti með lífverði

Sigurður starfaði fyrir Wikileaks

Allsherjarnefnd Alþingis kvaddi Sigurð til fundar árið 2013 og mætti hann fyrir nefndina í fylgd tveggja lífvarða og sagðist hafa starfað með alríkislögreglunni til að njósna um Wikileaks. Fundurinn var lokaður og ekki greint frá honum í smáatriðum. Þetta sama ár var Sigurður kærður fyrir fjársvik gegn ýmsum fyrirtækjum og beið fyrsta dómsins fyrir kynferðisbrot.

Sigurður rataði inn í undarleg mál á þessum tíma og eitt það undarlegasta tengdist kúgunartilraun hjá sælgætisverksmiðjunni Nóa Siríus. Í september árið 2013 greindi Fréttablaðið frá því að tveir menn á þrítugsaldri hefðu stungið umslagi inn um lúguna hjá Finni Geirssyni, forstjóra Nóa Siríus, með bremsuvökvamenguðu Pipp-súkkulaði og kúgunarbréfi. Í bréfinu stóð að ef fyrirtækið léti ekki af hendi tíu milljónir króna yrði eitrað myntu- og karamellu-Pipp sett í umferð í tugatali og að skammturinn af bremsuvökva yrði banvænn. Fylgdu þeir þessu eftir með símtölum til Finns sem í samstarfi við lögreglu lagði tálbeitu fyrir mennina. Pakki var skilinn eftir í Hamrahlíð og þegar mennirnir tveir sóttu hann voru þeir handteknir. Annar þeirra sagði Sigurð Inga hafa átt hugmyndina og var Sigurður kærður fyrir vikið. En saksóknari taldi kæruna ekki líklega til sakfellingar og lét hana því niður falla.

Misnotaði unga drengi

Árið 2014 kom Sigurður mikið við sögu í tengslum við glæpamál. Í febrúar var hann dæmdur fyrir að blekkja og kaupa kynlíf af sautján ára gömlum pilti og hlaut hann átta mánaða fangelsisdóm fyrir. Í mars var hann sektaður fyrir þjófnað og í desember hlaut hann loks dóm fyrir fjársvikamálið. Sigurður játaði að hafa stolið eða svikið út um þrjátíu milljónir króna yfir tveggja ára tímabil. Í málflutningi saksóknara, byggðu á geðmati, kom fram að Sigurður væri siðblindur, hömlulaus og hefði litla sem enga sektarkennd. Fékk hann tveggja ára fangelsisdóm og var gert að greiða rúmar fimmtán milljónir til þolenda, þar af sjö til Wikileaks.

Þolandi framdi sjálfsmorð

Sigurður var aftur dæmdur fyrir kynferðisbrot í september árið 2015, þá gegn níu piltum sem hann hafði tælt á netinu. Flestir þeirra voru á aldrinum fimmtán til sextán ára þegar brotin áttu sér stað en Sigurður bauð þeim meðal annars peninga, tölvur, bíla og fasteignir fyrir munngælur og endaþarmsmök. Hlaut hann þriggja ára fangelsisdóm fyrir.

Skömmu síðar féll einn piltur fyrir eigin hendi og foreldrarnir sögðu DV frá því. Pilturinn hafði orðið fyrir alvarlegu kynferðisbroti en ekki var greint frá því hver gerandinn var. Á samfélagsmiðlum tengdu sumir Sigurð við það mál og svaraði hann spurningum DV um málið í september árið 2016. Sigurður sagði:

„Þetta er mjög leiðinlegt mál, ég neita því ekki. Ég veit hvaða strákur þetta er. Þetta tók á mig. Ég frétti af þessu tveimur dögum eftir að það gerðist.“

Prestur og fyrrverandi hermaður

Samkomur auglýstar á flugvellinum. Gestir geta valsað um viðkvæm svæði að vild.

Annar þeirra lífvarða sem fylgdu Sigurði á fundinn með allsherjarnefnd var Dan Sommer. Sigurður kynntist Sommer árið 2009 og tveimur árum síðar var Sommer ráðinn til þess að tryggja öryggi Sigurðar á ferðum hans um heiminn fyrir Wikileaks.

Postulakirkjan er eitt af fámennustu trúfélögum landsins og telur aðeins 28 meðlimi samkvæmt Hagstofu Íslands. Samkvæmt persónulegri heimasíðu Sommer starfaði hann í 25 ár í herþjónustu danska hersins, öryggismálum og baráttu gegn hryðjuverkum og þjálfaði lögreglumenn og hermenn í alls 17 löndum. Hann hefur starfað í Afganistan, Nígeríu og Mexíkó og fengist við sómalíska sjóræningja í Adenflóa. Kann Sommer hinar ýmsu bardagaíþróttir.

Árið 2011 ákvað hann að breyta algerlega um stefnu og lærði til prests. Sem slíkur hefur hann aðstoðað nauðgunarfórnarlömb og fólk með áfallastreituröskun og stofnaði Postulakirkjuna, sem byggir á frumkristni, árið 2013. Á heimasíðunni er tilvitnun í Sommer um hlutverk hans:

„Ég er Dan Sommer, prestur, hvatningamaður og góðgerðamaður með það verkefni að hafa góð áhrif á veröldina, með því að hvetja og styrkja fólk víðs vegar um heim.“

Sommer hefur sinnt sálgæslu, heilun og markþjálfun bæði fyrir safnaðarmeðlimi og aðra.

Það vakti mikla athygli þegar Sigurður fór beint á ökklaband og var í umsjá vinar síns.

Samfélagsþjónusta hjá lífverði sínum

Sigurður afplánaði á Litla-Hrauni, í Hegningarhúsinu og á Sogni uns hann var settur í samfélagsþjónustu og rafrænt eftirlit í júní árið 2016. Þeirri þjónustu sinnti hann hjá Postulakirkjunni og sínum gamla félaga Dan Sommer. DV greindi frá þessu í september árið 2016. Þá sagði Sommer:

„Hann (Sigurður) hjálpaði mér með kirkjustarf og kirkjuvefinn og hjálpaði mér í athvarfsmiðstöð sem ég rek nokkrum sinnum á ári þar sem fólk kemur í vikudvöl. Hann þekkir netið út og inn. Hann er klár, strákurinn. Svo er hann búinn að vera að hjálpa mér við að mála og vinna við ýmsar viðgerðir.“

Sigurður ræddi einnig við DV á þessum tíma. Hann sagði:

„Þegar ég var inni var það að mínu frumkvæði að hitta Dan. Ég þarf ekki að hitta hann og engin skilyrði um slíkt.“

Sigurður lék líka á fangelsismálastofnun með því að fá yfirvöld til að samþykkja að hann færi í samfélagsþjónustu hjá manni sem hafði áður verið á launaskrá hjá honum sjálfum. Dan Sommer fylgdist hins vegar lítið með Sigurði sem lék þá lausum hala.

Þegar lífvörður, sálfræðingur, síðan yfirmaður og nú aftur starfsmaður Sigurðar var beðinn um að lýsa honum í viðtali við DV fyrir tveimur árum, sagði Dan Sommer:

„Sigurður er siðblindur, eða var það. Það getur tekið langan tíma að laga það með sálfræðiaðstoð. Það tók mig tvö ár að fá hann til að sjá og skilja að það sem hann gerði var rangt. Það er enginn efi um það í dag að hann sér að það sem hann gerði var rangt.“ Þá sagði Dan á öðrum stað í sama viðtali: „Hann er oft í kringum börnin mín og er góður vinur þeirra. Ég hef alls ekki áhyggjur af honum í kringum börnin mín.“

Umdeildar sundferðir

Á meðan Sigurður var í samfélagsþjónustu hjá Postulakirkjunni kom það fram í fjölmiðlum að hann stundaði sund í sundlaugum Kópavogs nánast daglega í frítíma sínum. Foreldrar barna í Salaskóla voru ósáttir og skólastjórar bæjarins funduðu um málið og vildu að Sigurði yrði bannað að koma í laugarnar. Í kjölfarið var því skilyrði bætt við reynslulausn hans að hann færi ekki í sundlaugarnar og skrifaði hann upp á það. Einnig var hann færður í samfélagsþjónustu til Rauða krossins eftir fréttaflutning DV af málinu.

Isavia vissi ekki að öryggishurð væri ekki til staðar

Þegar komið er að flugskýli 1 þar sem skrifstofur ACE Handling, ACE FBO og Global Fuel, allt fyrirtæki í eigu Hilmars Ágústs, kemur maður að hurð sem eingöngu þarf starfsmannapassa en ekki flugvallarpassa. Eins og kemur fram hér að framan er Postulakirkjan með aðstöðu í flugskýli 1 og heldur athafnir. Dan Sommer staðfesti við DV að athafnir ættu sér stað reglulega þar og kæmu sóknarbörn hans þá þar inn.

Á meðan blaðamenn DV voru á staðnum var sem dæmi settur stóll fyrir hurðina til að halda henni opinni. Þegar komið er inn um þessar dyr hefur fólk aðgang að flugskýlinu öllu og öllum flugvélum sem þar eru inni, því engin hurð er á milli anddyris og flugskýlisins. Séu flugskýlisdyrnar sjálfar opnar, sem þær voru í þá tæpu tvo tíma sem blaðamenn DV voru á staðnum, er ekkert sem hindrar fólk í að fara út á miðja flugbraut eða komast að þyrlum og bílum sem geyma eldsneyti.

„Það var öryggishurð þarna þegar ég var þarna í síðustu viku,“ sagði Ingólfur Gissurarson, flugvallarstjóri Reykjavíkurflugvallar, þegar DV hafði samband við hann vegna þessa máls. Blaðamaður spurði þá hvaða dag í síðustu viku væri um að ræða og sagðist hann ekki muna það.

„Skýli 1 er einkaskýli. En þar hafa þeir séð eingöngu um aðgangsstýringu þar inn,“ bætti Ingólfur við. Þegar blaðamaður DV sagði Ingólfi að ekkert vandamál hafi verið fyrir hann að ganga beint inn í flugskýlið og hann hefði getað gengið alla leið út á flugbraut sagði hann: „Þú ert að segja mér fréttir.“

Ingólfur var einnig spurður hvort honum þætti það ekki ábótavant að heil öryggishurð hafi horfið án þess að þeir hafi tekið eftir því og svaraði hann: „Nei, reyndar ekki.“

Í samtali við blaðamenn sagði Dan Sommer, öryggisstjóri ACE FBO, að hann hefði rætt við flugvallarstjóra um að það hafi vantað þarna hurð í langan tíma. „Ég ræddi þetta við hann,“ sagði hann og bætti við: „Þeir eru ekki nógu góðir í þessu, þetta er bara of auðvelt. Fólk getur valsað hérna um eins og það vill.“ Þegar hann var spurður hversu lengi hurðina hefði vantað, svaraði hann:

„Þetta hefur alltaf verið svona, síðan ég byrjaði að vinna hérna.“

Rúmum hálftíma eftir að DV ræddi við Ingólf hringdi upplýsingafulltrúi Isavia í DV og tilkynnti að búið væri að setja upp hurðina. Þegar DV kannaði málið reyndist ekki vera fótur fyrir því. Barnaníðingarnir, kung-fu presturinn, Panamaprinsinn og sértrúarsöfnuðurinn geta því enn valsað um að vild og boðið til sín gestum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Egill Þór er látinn

Egill Þór er látinn
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“
Fréttir
Í gær

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“
Fréttir
Í gær

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslenskur skurðlæknir vinnur við að bjarga slösuðum eftir árásina í Magdeburg

Íslenskur skurðlæknir vinnur við að bjarga slösuðum eftir árásina í Magdeburg