Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, ullaði fram í Mörtu Guðjónsdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, á fundi borgarráðs í dag. Málið rataði alla leið í fundargerð borgarráðs en þar kvörtuðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins undan hegðun Lífar.
Í fundargerð eru gerðar athugasemdir við framkomu Lífar. „Gera verður þá kröfu til kjörinna fulltrúa að þeir setji fram mál sitt með málefnalegum hætti og sýni hverjir öðrum almenna kurteisi,“ segir í fundargerð.
Í frétt Stundarinnar um málið í kvöld kemur fram að Líf hafi beðið Mörtu afsökunar skömmu eftir atvikið. Marta gerði lítið fyrir þá afsökun. „Hún bað mig afsökunar í fundarhléi, þegar hún varð þess áskynja að ég ætlaði að bóka um málið. Ég lít svo á að með því hafi hún verið að reyna að koma í veg fyrir að ég legði fram bókunina,“ segir Marta í samtali við Stundina.
Líf tjáði sig um málið á Facebook í kvöld. Þar segist hún einfaldlega hafa verið að grínast. „Hvað gerir maður þegar einhver starir á mann í lengri tíma af miklu yfirlæti og vanþóknun í þrúgandi og kúgandi aðstæðum eftir að maður hefur verið málefnalegur og sanngjarn í sínum málflutningi en fær ómálefnaleg viðbrögð á móti? Jú – maður reynir að slá þessu öllu upp í grín og létta andrúmsloftið og losa sig úr störukeppninni með því að ulla bara á viðkomandi, lyfta brúnum og brosa. Það er nú fokið í flest skjól ef það má ekki sýna nein svipbrigði og vera geðríkur, segja lélega eða góða brandara eða gera tilraunir til að létta á súrum samskiptum fólks með léttleika. Ó jæja,“ skrifar Líf.
Hún reiknar ekki með frekari eftirmálum. „Þetta mál er löngu búið af minni hálfu og því lauk strax í morgun þegar ég bað Mörtu afsökunar kunni ég að hafa sært hana með þessu glensi. Nóg um það,“ skrifar Líf.