fbpx
Laugardagur 02.nóvember 2024
Fréttir

Faðir frjálsrar blaðamennsku: Ferill Jónasar Kristjánssonar

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 8. júlí 2018 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 29. júní lést Jónas Kristjánsson á hjartadeild Landspítalans, 78 ára að aldri. Hann var ritstjóri í meira en þrjá áratugi, lengst af hjá DV en þar áður hjá bæði Vísi og Dagblaðinu. Jónas átti draum um frjálsa og óháða fjölmiðla og tókst að breyta landslaginu á markaðinum í þá átt. Vitaskuld voru skin og skúrir á svo löngum ferli en í lokin stóð hann uppi sem sigurvegari og einn áhrifamesti blaðamaður Íslands.

 

Gat ekki logið fyrir flokkinn

Jónas var fæddur árið 1940 í Reykjavík, sonur hjónanna Önnu Pétursdóttur bókara og Kristjáns Jónassonar læknis. Hann flutti ungur til Bandaríkjanna þar sem faðir hans var í námi en árið 1947 lést Kristján sviplega af slysförum. Jónas gekk í Gagnfræðaskóla Austurbæjar og Menntaskólann í Reykjavík og sást þá að þar var á ferð ungur maður með munninn fyrir neðan nefið. Hann hafði skoðanir á málefnum og varði þær með kjafti og klóm í málfundum.

Árið 1957 var hann orðinn ritstjóri skólablaðsins og hallaðist að Framsóknarflokknum. Eftir slæma reynslu í stjórnmálaskóla Félags ungra framsóknarmanna sá Jónas að hann væri ekki efni í þingmann. Námskeiðið snerist allt um að ljúga fyrir flokkinn og það gat hann ekki gert.

Jónas hélt út til Vestur-Berlínar í félagsfræðinám og þaðan datt honum í hug að senda umfjöllun um kvikmyndahátíð á Framsóknarblaðið Tímann. Blaðamannaferill Jónasar hófst síðan hjá Tímanum árið 1961 en þá var hann aðeins rúmlega tvítugur. Þar starfaði hann með verðandi eiginkonu sinni, Kristínu Halldórsdóttur, síðar þingmanni Kvennalistans.

Uppgangurinn var hraður eftir þetta, fljótlega var hann orðinn fréttastjóri Tímans og árið 1964 fréttastjóri hjá Vísi, síðdegisblaði Sjálfstæðismanna. Árið 1966, þegar hann var aðeins hálfþrítugur var hann orðinn ritstjóri Vísis.

Jónas og Kristín í blóma lífsins.

Eldfimir leiðarar

Árið 1968 var staða framkvæmdastjóra Vísis laus og Jónas kom því í kring að gamall félagi hans, Sveinn R. Eyjólfsson, fengi stöðuna. Þeir höfðu þekkst síðan árið 1959 þegar þeir unnu saman í Soginu við Þingvallavatn þegar stíflan þar brast. Samstarf þeirra átti eftir að vara um áratuga skeið.

Á þessum tíma var rannsóknarblaðamennska engin í landinu og eins og Jónas sagði sjálfur „tíðkaðist það ekki að grafa upp viðkvæmar upplýsingar um viðkvæm mál í efnahagslífi eða stjórnmálum“. Jónas var ekki sáttur við náin tengsl blaðanna við stjórnmálaflokkana og leið illa í því kerfi. Hann horfði til útlanda þar sem fyrir löngu var búið að slíta þessi tengsl. Sem ritstjóri Vísis hóf hann það starf að slíta tengslunum við Sjálfstæðisflokkinn, hætti að sitja þingflokksfundi og tók Heimdallarsíðuna úr blaðinu. Jónas þoldi illa þessa þingflokksfundi hjá Bjarna Benediktssyni og lýsir því í starfssögu sinni:

„Mér kom Bjarni fyrir sem harðstjóri. Þingmenn hoppuðu í kringum hann eins og hræddir þrælar kringum húsbónda. Hann stjórnaði með harðri hendi, lét vita, ef þeir brugðust væntingum. Suma lagði hann í einelti.“

Sjálfur skrifaði Jónas greinar í Vísi sem féllu ekki öllum Sjálfstæðismönnum í geð, sér í lagi í tengslum við erlendar fréttir. Jónas gagnrýndi stríðið í Víetnam og herforingjastjórnirnar í Chile og Grikklandi. Stjórnarmenn í Vísi fóru að verða æ ósáttari við leiðara Jónasar, sérstaklega eftir að hann fór að merkja þá sérstaklega en fram að því tíðkaðist það ekki.

Það hitnaði sífellt undir Jónasi, jafnvel þó að hann og Sveinn hefðu náð að snúa bágum fjárhagi blaðsins við og væru í stöðugri sókn. Farið var að ræða um stofnun nýs blaðs fyrir stjórnarfundinn 22. júlí 1975 þar sem ákvörðunin um að reka Jónas var tekin.

 

Fjölmiðill þjóðarinnar

Eftir fundinn klofnaði Vísir í tvennt. Sveinn og Björn Þórhallsson úr gömlu stjórninni fóru með Jónasi, sem og fjöldi blaðamanna og annarra starfsmanna af Vísi. Skrifstofa var sett upp á heimili Jónasar á Seltjarnarnesi og sex vikum síðar, þann 8. september 1975 kom fyrsta tölublað Dagblaðsins út sem markaði stór þáttaskil í íslenskri fjölmiðlasögu. En eftir sat Vísir í vandræðum með nýjan ritstjóra, Þorstein Pálsson, sem þurfti að biðla til Sjálfstæðisflokksins um að fá lánaða blaðamenn af Morgunblaðinu til að halda sjó. Styrmir Gunnarsson ritstjóri Morgunblaðsins sendi þá Geir H. Haarde til að vinna fyrir hádegi á Vísi.

Stofnun Dagblaðsins hristi upp í þjóðfélaginu og Sjálfstæðisflokknum. Geir Hallgrímsson, formaður og forsætisráðherra, boðaði Svein Eyjólfsson á sinn fund og skipaði honum að hætta við en Sveinn lét ekki segjast.

Dagblaðið fór af stað með hvelli og slegist var um fyrstu eintökin. En þrátt fyrir það var fjárhagurinn erfiður til að byrja með og einnig voru erfiðleikar í tengslum við prentunina. Dagblaðið var nýtt, ferskt, persónulegt og höfðaði að miklu leyti til ungs fólks. Lesendabréf spiluðu stóra rullu og blaðamennirnir voru persónulega skrifaðir fyrir greinum sínum. Ljóst var að stríð yrði háð milli Dagblaðsins og Vísis á síðdegismarkaðinum og Dagblaðið varð ofan á. Árið 1981 var Dagblaðið með 48 prósent lestur en Vísir 39 prósent. Jónas lýsir þessu svo:

„Þjóðin tók þessu nýja blaði fagnandi. Lesendabréf, kjallaragreinar og smáauglýsingar voru hornsteinninn. Þjóðin taldi sig með þeim efnisþáttum hafa fengið aðgang að eigin fjölmiðli.“

Ellert B. Schram, Jónas og Elías Snæland.

DV verður til

Dagblaðið gekk vel en skilaði ekki nema litlum hagnaði á hverju ári sem það var gefið út. Stríðið við Vísi kostaði sitt og blöðin gáfu til dæmis bíla í áskriftarverðlaun. Eftir sex ár var farið að tala um sameiningu Dagblaðsins og Vísis, sem voru þá nágrannar í Síðumúla 12 og 14. Í prentaraverkfalli í nóvember árið 1981 hittust framkvæmdastjórar blaðanna tveggja og hófu að undirbúa sameininguna sem varð síðan að veruleika nokkrum dögum síðar með Jónas og Ellert B. Schram sem ritstjóra, en Ellert hafði þá stýrt Vísi. Við sameininguna flutti blaðið í hið fræga DV-hús í Þverholti sem Jónas og félagar höfðu keypt árið 1976.

Jónas var ekki að fullu sáttur við sameininguna og viðraði þær skoðanir sínar við Svein. Hann taldi að Dagblaðið væri einstakt og að óvíst væri hvert almenningsálitið yrði á sameinuðu blaði. En þó taldi hann að samstarfið væri vel hægt út frá faglegu sjónarmiði sem reyndist raunin.

Hófst nú það skeið sem margir hafa kallað stórveldistíma DV, sem sást best á lestrarmælingum. Árið 1983 var lesturinn mældur í 64 prósentum, svipað og Morgunblaðið hafði. Áferð blaðsins hafði vissulega breyst, það var ekki byltingarkennt eins og Dagblaðið hafði verið heldur var það nú orðið settlegt. Jónas sagði:

„Í rauninni varð DV betra blað en Dagblaðið hafði verið, en það naut aldrei sömu hylli almennings. Í augum fólks var DV ekki blað „litla mannsins“, heldur fjölmiðlarisi, sem laut lögmálum viðskiptalífsins. Við hefðum betur puðað í fátæktinni, á endanum hefðum við sigrað. En þægindi einokunarinnar voru freistandi og trufluðu dómgreind okkar allra.“

 

Tækni og fagmennska

Fagmennska var það sem einkenndi störf Jónasar og fagmennskan gerði DV að vel smurðri vél á níunda áratugnum. Blaðamannapróf voru tekin upp og ungir blaðamenn voru aldir upp með aga án þess að draga úr þeim tennurnar. Sérstaklega mikið var gert úr málfari og íslenskufræðingar fengnir til þess að halda fyrirlestra fyrir ritstjórnina. Tölvutæknin hóf innreið sína og vel var fylgst með því sem gerðist í nágrannalöndunum og það besta þaðan nýtt.

Elías Snæland Jónsson, var aðstoðarritstjóri DV á árunum 1984 til 1997, á hápunkti velgengninnar. Hann segir:

„Þegar ég varð aðstoðarritstjóri DV hafði ég verið í blaðamennsku í meira en tuttugu ár, þannig að ég var nokkuð fullnuma í faginu. En Jónas vakti athygli mína og áhuga á margvíslegum möguleikum þeirrar tölvutækni sem þá var að ryðja sér til rúms. Hann var fyrstur íslenskra ritstjóra til að nýta sér þessa nýju tölvutækni til að bæta stjórn og skipulag á ritstjórninni, og það var til mikils hagræðis fyrir okkur sem þar störfuðum.“

Áttuð þið alltaf skap saman?

„Við Jónas virtum hvorn annan enda báðir verið blaðamenn frá því við vorum á táningsaldri, og báðir tileinkað okkur fagleg og vönduð vinnubrögð. Ég man ekki til þess að Jónas hafi nokkru sinni skipt skapi við mig, og ég ekki við hann. Það var okkar sameiginlega markmið að tryggja að DV sinnti skyldum sínum við lesendur og segði fljótt, satt og rétt frá því sem var að gerast í þjóðfélaginu og skipti almenning máli.“

Jónas fylgdist vel með því sem gerðist erlendis þar sem mörg dagblöð voru í hugleiðingum um að koma ljósvakamiðlum á fót. Útvarpsstöð DV var skammlíf eftir innrás lögreglunnar í Þverholtið og ekkert varð af sjónvarpsfélaginu Ísfilm sem DV og Morgunblaðið ætluðu að reka saman. Þetta voru ævintýri sem ekki var ætlað að ganga en í blaðaútgáfunni skaraði DV fram úr og aðrir fylgdu fordæminu, bæði gömlu flokksblöðin sem og ný blöð á borð við Helgarpóstinn og Pressuna.

Elías segir:

„Ég tel að Jónas Kristjánsson hafi haft meiri áhrif á íslenska blaðamennsku á sinni tíð en flestir aðrir þótt blöðin sem hann ritstýrði séu ekki lengur til nema á vefnum sem gleymir fáu. Stundum virtist óneitanlega sem sífelld barátta hans gegn kerfi sem verndaði hagsmuni hinna fáu bæri lítinn árangur, en ég held þó að þar hafi droparnir holað steininn og skrif hans haft áhrif í átt til frjálsræðis. Hann gerði miklar kröfur um fagmennsku og setti leiðbeiningar sínar á vefinn bæði í máli og myndum þannig að þeir ungu blaðamenn sem vilja tileinka sér fagleg vinnubrögð eiga auðvelt með að læra af honum. Hann er því enn kennari í faginu ef ungir blaðamenn vilja notfæra sér þekkingu hans og reynslu.“

Jónas Kristjánsson.

Hætti að drekka og steig á bak

Flestir þekktu ritstjórann af hans beittu og kjarnyrtu leiðurum sem snerust fyrst og fremst um samfélagsmál, innlend og erlend. En Jónas hafði vítt áhugasvið og skrifaði mikið um þau, bæði greinar og bækur. Jónas og Kristín, sem lést 2016, eignuðust fjögur börn, sú yngsta er Halldóra Jónasdóttir flugmaður. Hún segir um pabba sinn:

„Áhugamál hans lágu víða og mörg þeirra tók hann alla leið, ég dröslaði honum með mér á hestbak þegar ég var nýorðin táningur og úr varð mikið áhugamál, mamma dróst inn í það með honum og þau eignuðust fullt af hestum sem þeim þótti ákaflega vænt um og ferðuðust á þeim víða um landið ásamt því að faðir minn skrifaði fjölda bóka um hross og ferðaleiðir.“ Og enn fremur „Við pabbi virtumst lengi vel mjög ólík og höfðum satt að segja lítið að tala um, mér fannst hann heldur hvass, honum fannst ég heldur mjúk og áhugamálin sköruðust lítið en ég virti hann mikið og hann var ávallt til staðar ef ég þurfti.“

Skíðamennska var annað áhugamál sem og matur. Jónas var mikill áhugamaður um ferðalög og mat og skrifaði gagnrýni á veitingahús. Jónas naut þess að borða á góðum stöðum og drekka fín vín en um tíma varð það að vandamáli. Hann sagði:

„Síðla árs 1986 áttaði ég mig á, að ég stýrði ekki áfengisneyzlunni. Hvorki hvort ég drykki né hversu mikið. Ég sá fram á vandræði af þessum sökum og hætti notkun áfengis 1. apríl 1987. Tíu mánuðum síðar hætti ég að reykja. Hvort tveggja hafði góð áhrif á heilsuna, en þurrkurinn dró úr félagslyndi mínu. Ég hætti að skrifa vínrýni, sem áður var þáttur í starfi mínu við veitingarýni. Um leið fékk ég aukinn tíma, sem ég notaði til að steypa mér út í hestamennsku.“

 

Hrun og brottrekstur

Árið 1994 var settur virðisaukaskattur á sölu dagblaða og sölulaun blaðasölubarna skattlögð einnig. Þetta var í fyrsta sinn frá upphafsárum Dagblaðsins sem erfiðleikar komu upp í rekstrinum. Næstu ár voru erfið margra hluta vegna. Breytingar urðu í eigenda- og framkvæmdastjórn félagsins árin 1995 og 1996 og áherslurnar breyttust. Jónas taldi að áhrif auglýsenda á ritstjórn væru of mikil og að inn væru ráðnir almannatenglar, markaðsfræðingar og fleiri „spunakarlar“ á háum launum í stað fólks sem framleiddi efni. Auk þess voru mannaskipti tíð. Allt þetta var að gerast á sama tíma og sú þróun var hafin að yngri kynslóðir keyptu síður dagblöð.

Ellert B. Schram hætti sem ritstjóri við hlið Jónasar og inn komu Össur Skarphéðinsson og síðar Óli Björn Kárason. Skuldir fyrirtækisins hækkuðu sífellt og fór svo að Sveinn seldi sinn hlut. Þann 1. janúar árið 2002 var Jónasi loks sagt upp störfum. Hann var þá orðinn 61 árs gamall en langt frá því að hverfa burt úr blaðamennsku.

Þetta ár var hann ritstjóri Fréttablaðsins og síðar varð hann útgáfustjóri hestablaðsins Eiðfaxa og skrifaði auk þess greinar í DV á nýjan leik.

Lærifaðir en ungur í anda

Mikael Torfason og Illugi Jökulsson voru ritstjórar DV árið 2005 en þá ákvað Illugi að taka við stöðu útvarpsstjóra Talstöðvarinnar. Jónas, sem var þá leiðarahöfundur blaðsins, kom aftur inn sem ritstjóri við hlið Mikaels. Næstu tvö árin urðu mikill ólgutími í sögu blaðsins sem endaði með því að þeir sögðu báðir upp störfum.

„Verkaskiptingin var svolítið loðin en ég var meira á gólfinu en Jónas hugmyndafræðingur. Hann samdi til dæmis siðareglurnar fyrir okkur.“

Hvernig var Jónas í samstarfi?

„Jónas var frábær í samstarfi. Ég veit að mörgum fannst hann vera harður húsbóndi, allt frá því að hann var að reka Dagblaðið og DV í gamla dag. En ég kynntist honum sem ljúfmenni í samstarfi og hann reyndist mér ákaflega vel. Jónas var rúmlega þrjátíu árum eldri en ég og hafði gríðarlega reynslu. Hann var bæði þessi aldni lærifaðir en þó hann væri elstur á blaðinu þá var hann einn sá yngsti í anda.“

Jónas var óhræddur við nýjungar og leiðandi í mörgum þeirra. Er þar bæði hægt að nefna tölvuvæðinguna á níunda áratugnum sem og netvæðinguna eftir aldamótin. Mikael segir að Jónas hafi ekki verið sömu skoðunar og margir af hans kynslóð um að texti væri merkilegri ef hann væri prentaður á pappír. Hvort sem um var að ræða dagblöð eða bækur. Hann tók einnig ungu fólki í stéttinni fagnandi. Mikael segir:

„Hann rak eins konar blaðamannaskóla fyrir DV. Ef við réðum einhvern ungan inn þá tók hann það að sér að þjálfa viðkomandi upp. Síðan var hann með fyrirlestra og kennslustundir í blaðamennsku inni á ritstjórn, bæði fyrir unga og eldri. Ráðamenn vilja ekki góða blaðamenn því að þeir geta komist að einhverju sem fellir ríkisstjórnir eða lækkar verð á fyrirtækjum. Þeir vilja fá að stjórna óáreittir og sleppa við erfiðar spurningar frá blaðamönnum. Jónas vissi það að blöð hafa tilhneigingu til að láta eftir þessu því að eina eftirspurnin er frá sannleiksþyrstum almenningi. Hann kenndi ungum blaðamönnum að starfa við það að mæta þessari andstöðu og fyrir nokkrar kynslóðir blaðamanna var hann rosalega góð fyrirmynd.“

Ísafjarðarmálið erfitt

Í janúarbyrjun árið 2006 fjallaði DV um mál Gísla Hjartarsonar, fyrrverandi grunnskólakennara á Ísafirði, sem kærður var fyrir að misnota tvo drengi. Blaðið nafngreindi og myndbirti Gísla sem tók eigið líf daginn sem það birtist en enn hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að fréttaflutningurinn hafi verið rangur. Engu að síður varð reiðin mikil í garð DV og 32 þúsund manns settu nafn sitt á undirskriftalista gegn ritstjórnarstefnu blaðsins. Í kjölfarið sögðu bæði Mikael og Jónas störfum sínum lausum.

„Þessu fólki fannst við fara offari í umfjölluninni en þetta væri hlægilegt í dag eftir átök á borð við Höfum hátt og MeToo. En tíminn var ekki með okkur. Það er ekkert mjög langt síðan að níðingurinn og nauðgarinn vann alltaf.“

Mikael segir að Jónas hafi reynst sér sérstaklega vel á þessum örlagaríka tíma.

„Eftir að við vorum búnir að segja upp fór ég að venja komum mínar heim til hans og Kristínar á Seltjarnarnesi. Við vorum þá tveir mjög umdeildir og atvinnulausir menn. Við vorum úthrópaðir og þetta var erfiður tími fyrir okkur að ganga í gegnum. Þá lærði ég mikið af honum, annað en blaðamennsku.“

Hvaða arfleið skilur Jónas eftir sig?

„Allt frá því að hann og Sveinn Eyjólfsson klufu sig frá Vísi og stofnuðu Dagblaðið, voru þeir miklir sigurvegarar. Þeir bjuggu til blað fyrir hinn nútíma Íslending sem var frjálst og óháð. Það sem meira var; þeir nutu velgengni. Jónas var ekki bara einhver maður sem var í stríði við samfélagið heldur ótrúlega snjall fjölmiðlamaður og kynnti Íslendinga fyrir nýrri tegund af fjölmiðlum, sem margir tóku fagnandi. Hann var ekki utangarðsmaður, nema þá í einhvern smá tíma með mér.“

Eftir að Jónas hætti hjá DV í seinna skiptið sneri hann sér að rólegri verkefnum. Hann kenndi blaðamennsku hjá Háskólanum í Reykjavík, ferðaðist, sinnti fjölskyldunni og áhugamálunum. Einnig skrifaði hann bækur og kom á laggirnar reiðslóðabanka. Ekki var hann hættur á ritvellinum en í stað hefðbundinnar dagblaðaútgáfu kom hann hugðarefnum sínum á framfæri á vefsvæði sínu jonas.is. Þar má finna um 17 þúsund greinar.

Geirfinnsmálið

Eitt stærsta fréttamál síðustu aldar var Guðmundar- og Geirfinnsmálið, sem flestir þekkja. Málið hófst með hvarfi Geirfinns Einarssonar, 32 ára, þriðjudaginn 19. nóvember árið 1974 í Keflavík. Laugardaginn 23. nóvember greindu Vísir og Tíminn frá þessu dularfulla hvarfi.

Í grein Vísis stóð að Geirfinnur hefði haldið af heimili sínu eftir símtal frá ókunnum manni klukkan 22:30 og á miðvikudagsmorguninn hefði bifreið Geirfinns fundist. Lögreglan í Keflavík leitaði mannsins og björgunarsveitir myndu hefja leit daginn eftir.

Mannshvörfin voru síðar talin vera manndráp og voru nokkur ungmenni sakfelld fyrir þau. Rannsókn málsins og þær játningar sem fengnar voru hafa hins vegar allar götur síðan verið gagnrýndar og málið endurupptekið í tvígang.

Fréttaútvarpinu lokað

Haustið 1984 setti Frjáls fjölmiðlun, útgáfufélag DV, á laggirnar útvarpsstöðina Fréttaútvarpið þegar starfsmenn Ríkisútvarpsins fóru í verkfall. Olli þetta miklu fjaðrafoki enda ólöglegt í ljósi þess að ríkið hafði einokun á ljósvakamiðlun.

  1. október greindi DV frá lokun stöðvarinnar og lýsir Sveinn Eyjólfsson þessu í bók sinni Allt kann sá er bíða kann:

„Auðvitað varð uppi fótur og fit og lauk svo að lögreglunni var sigað á okkur og Fréttaútvarpinu lokað með lögregluvaldi undir öflugum andmælum almennings sem reyndi að hindra lögreglumenn í að ganga út með sendingartækin í pokum. Við Hörður (Einarsson framkvæmdastjóri) vorum kærðir og báðir ritstjórar DV og síðan dæmdir fyrir brot á útvarpslögum. Þau lög höfðu reyndar verið felld úr gildi þegar dómarnir féllu.“

Erfitt Hafskipsmál

Þann 6. júní árið 1985 var fjallað um stöðu Hafskipa í Helgarpóstinum og upphófst þá eitt stærsta fjölmiðlamál og síðar dómsmál níunda áratugarins. Málinu lyktaði með því að Hafskip og bakhjarl fyrirtækisins, Útvegsbankinn, fóru í þrot og æðstu stjórnendur dæmdir. Þá sagði Albert Guðmundsson iðnaðarráðherra af sér vegna málsins.

Málið var óþægilegt fyrir DV í ljósi þess að framkvæmdastjórarnir Sveinn Eyjólfsson og Hörður Einarsson sátu báðir í stjórn Hafskipa. Vændu aðrir miðlar DV um hræsni og linkind í umfjöllun um Hafskipsmálið, til dæmis Ólafur Ragnar Grímsson sem sagði að blaðið hefði haft vildarkjör hjá Hafskipum og húsnæðið við Þverholt væri keypt fyrir þá peninga. Deilan var harðvítug og Jónas svaraði með hörku og sagði Ólaf ljúga.

Fjárdráttur Árna Johnsen

Þann 13. júlí árið 2001 sagði DV frá því að starfsmaður BYKO hefði rökstuddan grun um að Árni Johnsen, alþingismaður og formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins, hefði tekið út vörur til eigin nota en skrifað þær á reikning Þjóðleikhússins.

Var þetta byggingarefni sem Árni sagði að ætti að fara í leikmunageymslu en endaði við hús hans sjálfs í Vestmannaeyjum. Síðar flutti RÚV fréttir af því að Árni hefði tekið út óðalskantsteina hjá BM-Vallá og sett á sama reikning. Aðrir fjölmiðlar fjölluðu síðar um málið og Árni sagði af sér þingmennsku 19. júlí.

Árni var í kjölfarið ákærður fyrir fjárdrátt, umboðssvik og fleiri brot og hlaut hann tveggja ára fangelsisdóm. Dóm sem hann afplánaði í fangelsinu á Kvíabryggju.

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Maðurinn sem er grunaður um að hafa banað móður sinni í Breiðholti úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald

Maðurinn sem er grunaður um að hafa banað móður sinni í Breiðholti úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald
Fréttir
Í gær

Efni sem valda krabbameini og ófrjósemi fundust í snyrtivörum – Eilífðarefni í vörum Sephora og Kiko

Efni sem valda krabbameini og ófrjósemi fundust í snyrtivörum – Eilífðarefni í vörum Sephora og Kiko
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hjúkrunarfræðingar kæra launamun: „Það er 2024 og við erum stödd þarna“

Hjúkrunarfræðingar kæra launamun: „Það er 2024 og við erum stödd þarna“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmar furðar sig á viðbrögðunum: „Elín Margrét lét þá ekki slá sig út af laginu“

Sigmar furðar sig á viðbrögðunum: „Elín Margrét lét þá ekki slá sig út af laginu“