fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Fréttir

Reið kristilegum sumarbúðum við Ölver: „Húðlitur minn er ekki búningur“

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 12. júní 2018 10:39

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Reiði hefur blossað upp vegna ljósmyndar sem birt var á Facebook síðu sumarbúðanna í Ölveri sem reknar eru af kristilegu samtökunum KFUM og KFUK. Myndin sýnir svartmálaða manneskju, með afró hárkollu blása í lúður. Í kjölfarið var myndin fjarlægð af síðunni.

Dóttirin fer ekki

Martina Keshia Williams, 27 ára kona frá Jamaíku sem búið hefur á Íslandi í sex ár, segist ætla að hætta við að leyfa sjö ára dóttur sinni að fara í sumarbúðirnar en hún átti að fara þangað í lok júlí. DV ræddi við hana um málið.

„Húðlitur minn er ekki búningur. Ég var mjög hneyksluð að sjá þessa mynd og einnig vegna þess að fólk virtist ekki taka þessu alvarlega. Ég skil það að Ísland er eyja í Atlantshafi og nágrannarnir eru fáir en hérna horfum við á erlendar sjónvarpsstöðvar á ensku og hlustum á tónlist á ensku og ég er fullviss um að flestir Íslendingar viti að sumt er talið kynþáttahatur. Sumt segir eða gerir maður einfaldlega ekki, jafn vel þó maður þekki ekki alla söguna bak við það. Fyrir mig er engin afsökun fyrir svona framkomu og það sem verra er þá átti þessi persóna að taka á móti og heilsa krökkunum, sem gefur þau skilaboð að þessi „búningur“ sé í lagi. En hann er það ekki.“

Martina á tvö börn af blönduðum kynþætti. Sjö ára dóttir hennar var send í Ölver í fyrra og henni líkaði svo vel að Martina ákvað að senda hana aftur í ár.

„Ég ætla að hringja, biðja um endurgreiðslu og láta vita að dóttir mín mun ekki koma í sumar. Þetta er mjög sárt vegna þess að henni líkaði mjög vel þarna. Hún er með auglýsinguna í herberginu sínu og er stanslaust að spyrja hvort hún fari og ég var þegar búin að segja henni að hún væri að fara í sumar. Ég kvíði mjög fyrir að segja henni þetta.“

Martina er leið yfir því að myndin hafi aðeins verið tekin niður eftir að hún og fleiri kvörtuðu yfir henni. Hún hefur enn þá ekki fengið neina afsökunarbeiðni frá forsvarsmönnum sumarbúðanna.

„Ég veit að það er til fólk sem telur að ég sé að bregðast of hart við og að allir hafi einhvern tímann fundið fyrir því að hlegið hafi verið af þeim, til dæmis fyrir að hafa útbrot, misheppnaða hárgreiðslu eða þykkan hreim. Það er hins vegar hægt að breyta þessu með víðsýni. Húðlitur er það sem hann er. Dökk húð mín er ekki eitthvað sem ég get breytt og ég skil ekki hvernig einhverjum getur fundist hún fyndin. Þetta er vanvirðing og skeytingarleysi.“

Yfirlýsing væntanleg

Fleiri hafa tjáð sig um myndina og lýst reiði sinni.

Einn þeldökkur maður hefur þegar gefið sumarbúðunum neikvæða umsögn á þeirra síðu og segir:

„Af hverju viljið þið nota negragervi til að auglýsa þessar sumarbúðir? Er ekki 2018? Hvað ef þar væri svört stúlka að koma til ykkar? Hvað mynduð þið gera? Hvernig mynduð þið útskýra það?“

Ein þeldökk kona segist hafa sent sumarbúðunum tölvupóst og boðið þeim ráðgjöf um fjölbreytileika og tilfinningalegan skaða.

Það er ekki aðeins þeldökkt fólk sem tekur myndina inn á sig. Margir hvítir, bæði Íslendingar og útlendingar hafa tjáð sig um myndina.

DV hafði samband við sumarbúðirnar og fékk þau svör að von væri á svörum frá þeim bráðlega. Þau verða birt á síðu sumarbúðanna.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt