fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Fréttir

Íslenska fyrirtækið sem malar gull en enginn veit af

Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson
Laugardaginn 9. júní 2018 12:00

Pratik Kumar, stofnandi og eigandi App Dynamic.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Pratik Kumar er eigandi og stofnandi App Dynamic. Fyrirtækis sem nýtur mikillar velgengni en fáir hafa eflaust heyrt af. Hins vegar hafa margir heyrt um fyrirtækin sem hann starfar með en þau eru meðal þeirra stærstu í heiminum, eins og Philips, Microsoft, Intel, Harman Kardon og Samsung, svo fáein séu nefnd. Ég hitti Pratik í höfuðstöðvum fyrirtækisins á nítjándu hæð turnsins í Kópavogi og ræddi við hann um hvernig honum hefði tekist að koma fyrirtæki sínu á lista Financial Times yfir þau fyrirtæki í Evrópu sem hafa náð mestum tekjuvexti á árunum frá 2013 til 2016. Tekjur fyrirtækisins jukust um 255% á þessu tímabili og er App Dynamic eina íslenska fyrirtækið á listanum.

Fékk risa snertiskjá að gjöf frá Microsoft

Ég kem inn á hornskrifstofu hans sem hefur hefur útsýni nánast yfir allt höfuðborgarsvæðið, en útsýnið var ekki það fyrsta sem ég tók eftir, heldur þessi risaskjár sem nánast tók allt plássið á einum veggi þar. „Já, þetta var gjöf frá Microsoft,“ segir hann og bendir á 84 tommu snertiskjá. „Við vinnum náið með Microsoft svo þeir ákváðu að gefa mér þetta tæki út af samstarfi okkar.“ Augu mín voru ansi lengi límd við þennan risaskjá og fór ég að sjá fyrir mér alla þá möguleika sem hann gat boðið upp á. Augun mín hins vegar beindust síðar að öðru á skrifstofunni, það var vinnutölva Pratiks. „Þetta er líklega hraðvirkasta tölvan á Íslandi í dag,“ segir Pratik og fer svo yfir nákvæmlega hvað er í henni. Eftir þessa sýningarkennslu settumst við niður í leðursófann á skrifstofunni og byrjaði ég að spyrja hann um barnæsku hans í Indlandi.

 

Skjárinn sem Pratik fékk að gjöf frá Microsoft.

Pratik fæddist og ólst upp í Nýju-Delí í Indlandi þar sem fjölskylda hans átti verksmiðju sem framleiddi hina ýmsu parta fyrir vélar. Þau áttu einnig nokkur smærri fyrirtæki ásamt því að reka sjálf skóla. Heimili hans var rétt í útjaðri borgarinnar og var verksmiðjan rétt við heimili hans. Fjölskylda hans var vel stæð á indverskan mælikvarða og störfuðu meðal annars sex manns á heimilinu við að þjóna fjölskyldunni á hverjum degi. „Ég ræði ekki við marga Íslendinga sem hafa upplifað sömu barnæsku og ég, það er að segja að hafa haft þjóna sem sinntu mér nánast allan sólarhringinn,“ segir Pratik og hlær. „Við vorum meira að segja með mann í vinnu sem eingöngu sá um að opna og loka hliðinu.“

Gekk í sama skóla og Gandhi-fjölskyldan

Pratik hóf nám aðeins fjögurra ára gamall í Modern School í Nýju-Delí, sem er einn virtasti einkaskóli landsins og geta eingöngu bestu nemendur landsins sótt þar um, en um 2.400 nemendur stunda þar nám hverju sinni. Einhverjir mestu áhrifavaldar Indlands á 20. og 21. öldinni gengu í sama skóla og Pratik. Má þar helst nefna fyrrverandi forsætisráðherra Indlands, Indiru Gandhi, sem var einnig fyrsti og eini kvenforsætisráðherra Indlands. Fjölskyldunafnið er eitt það þekktasta í indverskum stjórnmálum og hafa nánast allir fjölskyldumeðlimir sem bera nafnið gengið í skólann. „Þetta er stór skóli með bestu mögulegu aðstöðu fyrir nemendur, mögulega bestu aðstæður í öllu Indlandi.“

Eftir að hann útskrifaðist frá Modern School lá leið hans til Bangalore í háskóla í verkfræðinám. „Ég var nýútskrifaður úr verkfræðinni þegar ég sá að það var í boði að fara í frekara skiptinám til Íslands. Ég kom rétt fyrir áramótin árið 1999 og fékk að upplifa einhver stórkostlegustu áramót á ævi minni, mér var smá brugðið en ég fann það á mér að þetta væri land sem mér myndi líka vel við.“ Hann hóf störf hjá tæknifyrirtækinu OZ rétt eftir komu sína til landsins, en það entist ekki lengi þar sem árið 2001 hætti sænska fyrirtækið Ericsson að leggja til fjármagn í OZ. Það olli því að ekki var lengur grundvöllur fyrir rekstri fyrirtækisins á landinu þar sem það hafði enga tilbúna vöru til að selja og var því starfsemi fyrirtækisins lögð niður á Íslandi. Þaðan lá leið Pratiks til Nýherja til ársins 2007 en þá  hóf hann störf hjá Kaupþingi sem seinna varð að Arion banka.

Gullæði í app-heiminum

Árið 2009 fór Pratik að taka eftir gífulegri eftirspurn eftir smáforritum fyrir farsíma. Það var svokallað gullæði í gangi, þar sem það var gífurleg eftirspurn eftir forritum en framboðið lítið. Hann fór að hugsa hvernig forritum notendur voru að kalla eftir og datt þá á sína fyrstu hugmynd sem er í dag grunnurinn að rekstri App Dynamic. „Ég spurði bara sjálfan mig, hvað vantar mig?“ Svarið við þeirri spurningu var forrit sem lenti í 8. sæti yfir tekjuhæsta forritið á iTunes, sem er netverslun stórfyrirtækisins Apple. „Allt í einu voru tekjurnar af forritinu orðnar fjórum sinnum meiri en mánaðarlaunin mín og þá vissi ég að ég gæti ekki verið að vinna fulla vinnu á sama tíma og ég var að þróa og sinna forritinu. Vinnudagurinn minn var orðinn ansi langur, ég mætti klukkan níu í vinnuna hjá Arion banka og fór þaðan beint upp á skrifstofuna mína sem ég leigði uppi í Hlíðasmára, þar var ég oftast til klukkan eitt eða tvö um nóttina. Ég vissi að ég gæti ekki mikið lengur haldið þessu áfram, svo ég sagði upp vinnunni og stofnaði App Dynamic.“

Tækniheimurinn var snöggur að taka eftir forritinu sem Pratik hannaði og var það lofað um allan heim af notendum þess.

Fyrirtækið er ekkert án tæknifólksins

Margir myndu halda að tæknifyrirtæki sem er í samstarfi við stórfyrirtæki eins og Samsung og Microsoft, væru með ansi marga starfsmenn, en hjá App Dynamic starfa eingöngu níu manns. Pratik segist eingöngu velja besta starfsfólk sem möguleiki er á og leggur því mikið upp úr því að starfsfólki sínu líði vel í vinnunni og það er augljóst að hann hefur mjög sterkar skoðanir þegar kemur þeim málum. „Við viljum skapa heimilislega stemningu hérna inni hjá okkur, það er ekkert verra en að vinna á stað sem lætur mann halda að maður sé að vinna á einhverri stofnun úti í bæ.“

Við förum að ræða um starfsmannastefnuna hjá fyrirtækinu. „Vandamálið með allt of mörg tæknifyrirtæki á Íslandi er að þau átta sig ekki á því að án tæknifólksins er fyrirtækið ekki neitt, þetta eru tæknifyrirtæki. Það er of oft sú vinnustaðamenning að yfirmennirnir eða þeir sem stjórna peningunum innan fyrirtækisins haldi að þeir séu verðmætustu starfsmennirnir innan fyrirtækisins en líta á tæknifólkið sem auðveldlega útskiptanlegan hlut, þetta hugarfar gefur þér eingöngu sæmilega góða framistöðu. Þú getur alveg rekið banka á þann máta en ef þú vilt byggja upp gott tæknifyrirtæki þá getur það tekið mörg ár fyrir starfsmann að koma sér almennilega inn í starfið og fara framleiða alvöru verðmæti innan fyrirtækisins. Starfsfólk er ekki einhver eign sem þú ert að borga mánaðarlegar afborganir af, heldur er starfsfólkið það sem heldur fyrirtækinu gangandi, því án þess er framleiðsluvaran þín ekkert nema hugmynd. Án þessa frábæra starfsfólks sem ég hef, hefði þetta tæki sem við vorum að setja í framleiðslu aldrei orðið að raunveruleika.“

Varan sem mun líklega drepa framleiðslu á stórum snertiskjáum

Fyrirtækið er nýbúið að senda frá sér fyrstu einingarnar af tæki sínu, Air Server, en eingöngu nokkur hundruð einingar hafa verið sendar frá þeim þar sem þeir vilja sjá til þess að ef einhverjir gallar komi upp séu þeir lagaðir áður en þeir setja framleiðslu á tækinu á fullt. Tækið er framleitt af Intel og án þess að fara í of tæknilegt mál þá er þetta tæki sem er sérhannað fyrir fundarherbergi. Þeir sem hafa þurft að halda kynningar kannast alltaf við það vandamál að þurfa að tengja tækið sitt við sjónvarpið eða skjávarpann til að getað haldið kynningu eða deila efni með fólki í herberginu. Með þessu tæki tengist þú einfaldlega þráðlaust og kastar tækið myndinni beint af farsímanum þínum, fartölvunni þinni eða spjaldtölvunni þinni. Þessi tækni hefur haft með sér í för að stærstu sjónvarpsframleiðendur heims, eins og Philips, Samsung og Harman Kardon, eru núna að vinna með App Dynamic á Íslandi til að koma fyrir tækninni inn í sjónvörpin sjálf. Þetta hefur gert að verkum að þessir sjónvarpsframleiðendur leggja ekki jafn mikla áherslu á rannsóknir þegar kemur að sjónvörpum með snertiskjáum þar sem snertiskjáir eru mjög dýrir í framleiðslu og er þetta því mun ódýrari kostur fyrir þá. Apple, Google og Microsoft hafa öll framleitt einmitt svipað tæki sem fólk hefur getað nýtt sér hingað til, en munurinn á þeim tækjum og tæki App Dynamic er sá að eingöngu eitt tæki í einu getur tengst tækjum framangreindra fyrirtækja á meðan allt að átta tæki geta tengst við tækið sem App Dynamic framleiðir ásamt því að bjóða upp á mun hraðari tengingu á milli tækjanna en nokkurn tíma hefur áður þekkst. Ég spyr Pratik af hverju þessi stórfyrirtæki geri einfaldlega ekki bara það sama og hann er að gera, þá svarar hann öruggur: „Þeir einfaldlega hafa ekki tæknina til að gera þetta og eru þess vegna að vinna í nánu samstarfi við okkur þar sem þau geta ekki auðveldlega keppt við okkur.“

Tækið sem App Dynamic hefur hafið framleiðslu á.

Mun líklega breyta kennsluháttum um allan heim

Tækið er einnig sérstaklega hannað fyrir skólakerfið, þar sem kennarar og nemendur geta auðveldlega deilt með öllum bekknum hlutum á skjáinn inni í skólastofunni án þess að þurfa að vera með sérstök tæki, sérstakar snúrur eða sérstök forrit til að tengjast. Þetta gerir að verkum að skólar þurfa mögulega ekki lengur að fjárfesta í dýrum sérstæðum tækjum fyrir hvern einasta nemenda, heldur munu nemendur einfaldlega geta komið með tæki að heiman.

Bill Gates hefur notað íslenskt hugvit

Nú þegar hafa stórfyrirtæki á við Microsoft og Walt Disney fengið fyrstu tækin afhent, ásamt því sem háskólarnir í Cambridge og Oxford hafa tryggt sér tæki úr fyrstu sendingu. „Mér hefur verið sagt af yfirmönnum Microsoft að Bill Gates hafi notað tæknina frá okkur og hafi líkað mjög vel við hana.“ Það er augljóst að því meira sem ég talaði við Pratik kom í ljós hversu sérstaka og háþróaða tækni fyrirtæki hans hefur þróað og hversu mikla sérstöðu og forskot það hefur á helstu tæknifyrirtæki heimsins. „Við búumst við að selja tvær til þrjár milljónir eintaka af tækinu fyrstu mánuðina.“

Þekkir fleiri sendiherra en íslenska stjórnmálamenn

Pratik fær nánast vikulega boð frá sendiherrum hinna ýmsu landa sem vilja bjóða honum til sín á fund til að ræða um að flytja fyrirtæki hans frá Íslandi. „Ég þekki mun fleiri sendiherra en íslenska stjórnmálamenn, þar sem ég þekki engan stjórnmálamann og furða ég mig oft á áhugaleysi íslenskra yfirvalda á tækniiðnaðinum á Íslandi, iðnaði sem skilar gífurlegum tekjum fyrir landið.“ Hann fer svo að ræða um hvernig það var að byrja með tæknifyrirtæki á Íslandi og hversu erfitt það er að fara í gegnum nýsköpunarstyrktarkerfið. „Þegar ég var að byrja með fyrirtækið þá tók það nánast sama tíma að sækja um styrki eins og að búa til tilbúna vöru, svo ég einfaldlega ákvað frekar að nota tíma minn í að búa til sjálfa vöruna, þar sem ég hafði menntunina og reynsluna til að gera það, heldur en að eyða tímanum að fylla út hinar og þessar umsóknir sem eru úti um allt í þessu nýsköpunarkerfi.“

Elskar og dáir Ísland

Maður fór að spyrja sjálfan sig fljótlega eftir að maður var byrjaður að tala við Pratik af hverju hann væri með höfuðstöðvar þessa alþjóðlega fyrirtækis enn þá á Íslandi en ekki til dæmis í Bandaríkjunum eða Bretlandi, þar sem helstu tæknifyrirtæki heimsins eru með höfuðstöðvar sínar, einnig þar sem skattar á Íslandi eru ekkert sérstaklega lágir.

„Þú kemur ekki til Íslands til að spara peninga vegna lágra skatta, þú kemur hingað vegna þess að þú vilt fá góð lífsgæði. Það sem er mikilvægt fyrir mig er að þetta land getur orðið nákvæmlega það sem það vill verða og þú getur einnig orðið nákvæmlega það sem þú vilt verða. Ef þú vilt skemmta þér allar helgar niðri í miðbæ, eða hitta vini þína, þá getur þetta verið frábært land fyrir þig. Ef þú elskar náttúruna og vilt eyða frítímanum að skoða hana þá er þetta einnig frábært land fyrir þig. Ef þú ert eins og ég, þá er þetta frábært land þar sem maður fær algjöran frið, vinnufrið til að vinna að frábærum hugmyndum og auðveldlega koma þeim í framkvæmd þar sem allt kerfið hérna vinnur mjög hratt og örugglega, mun hraðar en til dæmis á Indlandi. Í stórborgum á við New York og London er svo mikill truflun, þú hefur nákvæmlega sömu gæði hérna á Íslandi og í þeim stórborgum, en munurinn er sá að það eru alltaf truflanir sem tengjast því að búa í stórborgum, truflanir sem eru ekki til staðar hérna á Íslandi og það gefur þér þann vinnufrið sem þú þarft til að skapa stórkostlega hluti.“

Pratik býr í dag í Garðabænum ásamt eiginkonu sinni Kristínu Óskarsdóttur og fimm börnum. Hann segist hafa fundið einn besta stað í heiminum til að búa og vinna á.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Landflótta norðurkóreskir hermenn segja norðurkóresku hermennina í Úkraínu vera úr úrvalssveitum

Landflótta norðurkóreskir hermenn segja norðurkóresku hermennina í Úkraínu vera úr úrvalssveitum
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Eigandi rússnesks skips segir að því hafi verið sökkt vísvitandi – „Hryðjuverk“

Eigandi rússnesks skips segir að því hafi verið sökkt vísvitandi – „Hryðjuverk“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Voru gerð mistök við val á íþróttamanni ársins? – „Mér brá óneitanlega mikið í kvöld“

Voru gerð mistök við val á íþróttamanni ársins? – „Mér brá óneitanlega mikið í kvöld“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Líkfundurinn var aðeins byrjunin á ótrúlegri fléttu – „Ruglað fólk gerir ruglaða hluti“

Líkfundurinn var aðeins byrjunin á ótrúlegri fléttu – „Ruglað fólk gerir ruglaða hluti“