Unnið er að því að setja saman meirihluta í borginni. Margir hafa talað um að það ætti að fá fagráðinn borgarstjóra í stað stjórnmálamanns, gildir það bæði um meirihluta til vinstri og hægri. DV tók því saman fimm einstaklinga sem hægt er að ráða sem borgarstjóra Reykjavíkur.
Halla Tómasdóttir
Halla varð þjóðþekkt þegar hún bauð sig fram til forseta árið 2016. Hún er vinsæl, kann á rekstur og með það breiða skírskotun að hún gæti verið borgarstjóri bæði til hægri og vinstri.
Jón Gnarr
Kom, sá og sigraði í borginni árið 2010. Síðan þá hefur hann leikið borgarstjórann á Stöð 2 og er kominn í Samfylkinguna. Mun æra Sjálfstæðismenn óendanlega ef það er vilji Viðreisnar.
Hanna Birna Kristjánsdóttir
Þegar litið er í baksýnisspegilinn sést glögglega að það var ekki heillaspor hjá henni að yfirgefa borgina á sínum tíma. Gæti verið sterkur leikur hjá Viðreisn og Sjálfstæðisflokki.
Lalli Johns
Ef það er einhver sem þekkir hvern einasta krók og kima Reykjavíkurborgar þá er það Lalli Johns. Hann er búinn að vera edrú í fjögur ár og er örugglega til í tuskið.
Bjarni Bjarnason
Bjarni tók til í Orkuveitunni í byrjun áratugarins og er þar ennþá. Hann er jarð- og verkfræðingur. Mjög góður kostur ef leitað er að ópólitískum einstaklingi til að reka stórt batterí og hann mun ekki skyggja á stjórnmálamennina.