Stundin greindi frá málinu í gær. Í samtali við Stundina segir Sigrún Dóra að henni sé algjörlega misboðið vegna vinnubragðanna. „Það varð svo sem enginn skaði af þessu í gærkvöldi, sonur minn er aðeins sjö ára og áttaði sig ekki á hvað var um að ræða. Ef eldri sonur minn, þrettán ára sem líka var heima, hefði farið til dyra og tekið á móti þessu er ég hins vegar hrædd um að hann hefði tekið þetta nærri sér.“
Í framhaldi hafði hún samband við Lögregluna á Suðurnesjum í og tilkynnti um málið enda segist hún telja að um lögbrot sé að ræða. Þá sendi hún einnig erindi á Sýslumanninn á Suðurnesjum, Umboðsmann barna, Sviðsstjóra Velferðarsviðs Reykjanesbæjar, dómsmálaráðherra og velferðarnefnd Alþingis þar sem hún vekur athygli á málinu. Umboðsmaður barna hyggst senda áréttingu til allra sýslumannsembætta vegna málsins.
Í 2. mgr. 82. gr. laga um meðferð einkamála segir: „Stefna verður ekki birt fyrir manni sem er yngri en 15 ára að aldri.“
Í samtali við DV segir Sigrún Dóra að með því að hafa hátt vonist hún til að þetta gerist ekki aftur. „Ég hef í gegnum allt sem ég er búin að ganga í gegnum margoft rekið mig á að við sem samfélag erum ekki nægilega upplýst um einmitt þetta. Börnin eiga réttindi og okkur ber að virða þau, en á þeim er margbrotið.
Ég tel að bæði fullorðnir sem og börn séu engan veginn nægilega vel upplýst um þetta og kalla á átak í þeim efnum.
Mitt „fokk“ er aldrei ábyrgð barnanna minna og allir eiga að leggjast á eitt við að halda þeim utan við það. Það eru skyldur, ekki bara mínar skyldur heldur allra Íslendinga.“