fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
Fréttir

Stórleikari með hjarta úr gulli – Ryan Reynolds gladdi Loga á afmælisdaginn í hlutverki Deadpool

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Laugardaginn 26. maí 2018 14:00

Logi Björnsson er eitt heppnasta barn á Íslandi, að mati greinahöfundar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Deadpool með mynd sem hann teiknaði af Loga og Ronald. Myndbandið má sjá á vef DV.

„Ég á sama afmælisdag og Stalín, Spielberg og Brad Pitt,“ segir Logi Björnsson þar sem við sitjum í stofunni á Drafnarstíg. Hann bætir við að hann eigi afmæli 18. desember. Logi er að klára áttunda bekk og gengur í Hagaskóla. Bróðir Loga, Máni Hrafnsson festi kaup á húsi ömmu sinnar, Jóhönnu Kristjónsdóttur á Drafnarstíg og býr Máni þar ásamt eiginkonu sinni, systkinum og nokkrum köttum. Ástæða þess að blaðamaður hefur mælt sér mót við Loga er að hann fékk heldur óvænta kveðju frá einni stærstu kvikmyndastjörnu veraldar, Ryan Reynolds, sem klæddi sig sérstaklega upp til þess að gleðja Loga á afmælisdaginn. Logi er sonur Elísabetar Ronaldsdóttur sem er einn okkar fremsti kvikmyndagerðarmaður. Hún klippti t.d. kvikmyndirnar John Wick, Atomic Blonde og nú Deadpool og hefur hlotið mikið hrós fyrir vinnu sína. Deadpool er í dag sú vinsælasta í Bandaríkjunum.

„Hann vildi gleðja mig þegar mamma var veik af melanoma. Hann vissi líka að ég hélt mikið upp á Deadpool,“ útskýrir Logi aðspurður um hvernig kveðjan varð til. „Ég fór með vinum mínum í bíó á afmælisdaginn minn og þá var myndbandið sýnt á undan afmæliskvikmyndinni. Mamma hafði látið gera það án þess að ég vissi af því.“

Elísabet Ronaldsdóttir ásamt Ryan Reynolds í hlutverki Deadpool.

Móðir Loga er Elísabet Ronaldsdóttir kvikmyndagerðarmaður og einn af bestu klippurum í bransanum, þá teljum við Hollywood vitanlega með. Hún hefur starfað með stórstjörnum á borð við Keanu Reeves, Charlize Theron og Ryan Reynolds og mörgum fleiri.

Elísabet hefur einnig látið mikið að sér kveða til að vekja athygli á konum í kvikmyndagerð og er yfirlýstur femínisti. Eitt af fyrstu orðunum sem koma upp í hugann þegar nafnið Beta Ronalds ber á góma er töffari og það er hún svo sannarlega, hún er eldklár húmoristi sem reykti sígarettu á þann hátt sem töffararnir gerðu í svarthvítu kvikmyndunum í gamla daga. Þá hefur hún sýnt öðrum konum sem langar til að ná frama í kvikmyndagerð að sá draumur geti orðið að veruleika. Ljóst er að Logi hefur erft marga mannkosti móður sinnar, hann er klár, viðræðugóður og er ekkert að kippa sér of mikið upp við það að fá kveðju frá Deadpool og brosir bara eins og hann kenni í brjósti um blaðamann þegar hann upplýsir Loga um að hann öfundi hann af kveðjunni.

Móðir Loga varð alvarlega veik í ágúst á síðasta ári en þá voru tökur á Deadpool nýlega hafnar. Í ljós kom að Elísabet var með fjórða stigs melanoma sem hafði hreiðrað um sig í brisi. Staðan var alvarleg og leikstjórinn, framleiðandinn og aðalleikarinn Ryan Reynold réru nú öllum árum að því að bjarga Elísabetu. Þá stóðu fjölskylda og hennar nánustu þétt við bakið á henni. Ryan Reynolds bauðst meðal annars til að mæta í Deadpool búningum í barnaafmæli færustu lækna heims til að auka líkur á að hún næði sér sem fyrst. Með samstilltu átaki fjölskyldu og vina gerðist kraftaverkið. Eftir þrjá mánuði á spítalanum hafði æxlið minnkað um 60 prósent og í apríl á þessu ári var það alveg horfið. Elísabet verður í ítarlegu viðtali við DV um kvikmyndagerð, ferilinn og lífið sjálft í næsta helgarblaði.

Kveðja Deadpool

Deadpool bendir ógnvekjandi á Loga og segir: „Við munum hafa uppá þér.“

Þegar myndbandið sem Ryan Reynolds tók upp fyrir Loga hefst er engu líkara en að verið sé að sýna brot úr gerð myndarinnar. Það var eins og áður segir sýnt á undan kvikmynd sem hann fór að horfa á með félögum sínum. Rödd heyrist segja: „Taka tvö, tilbúin og byrja.“ Ryan Reynolds birtist í Deadpool búningnum og lyftir upp mynd sem hann hafði teiknað af Loga og frænda hans Ronald. Deadpool er þekktur fyrir það í kvikmyndum og teiknimyndasögum að dunda sér við að draga upp myndir af skrípaköllum á meðan hann bíður eftir að brytja óvini sína í spað.

„Hefur einhver séð þennan náunga?“ spyr Deadpool, lyftir upp myndinni og bendir á teikninguna af Loga og Ronald. Deadpool bætir við: „Hann heitir Logi og hann starfar náið með þessum náunga hérna, Ronald, en hann stjórnar helsta glæpahringnum í Reykjavík. Við fréttum að Logi ætti afmæli í dag. Við viljum aðeins óska þér til hamingju með afmælið,“ segir Deadpool og bætir svo ógnandi við og bendir á upptökuvélina. „Við munum hafa uppá þér.“ Síðan bakkar hann hægt og hverfur sjónum.

Ryan Reynolds hafði orðið sér úti um ljósmynd af Loga og frænda hans Ronald, sem er sonur Mána. Hafði hann síðan teiknað myndina, skrifað á hana kveðju og fékk Logi hana líka að gjöf. Logi og Ronald teiknuðu svo mynd og færðu leikaranum að gjöf og heldur stjarnan mikið uppá þá mynd.

Aðspurður hvort vinir hans hafi ekki verið afbrýðisamir vegna kveðjunar frá einni stærstu kvikmyndastjörnu samtímans í hlutverki Deadpool, svarar Logi neitandi. Þeir hafi samglaðst.

Hver er uppáhaldsofurhetjan þín?

„Þær eru svo margar ofurhetjurnar,“ segir Logi hugsi en bætir svo við: „Ég myndi samt segja Deadpool, hann er öðruvísi en aðrar hetjur og svo er hann fyndinn. Það er mikilvægt að þær séu ekki allar eins ofurhetjurnar.“

Hér má sjá hið skemmtilega myndband þegar Deadpool ber Loga kveðjuna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Foreldrar leikskólabarna fagna áfangasigri – Eru afar ósátt við dómsmálaráðherra

Foreldrar leikskólabarna fagna áfangasigri – Eru afar ósátt við dómsmálaráðherra
Fréttir
Í gær

Dómur mildaður yfir Henry Fleischer fyrir að smygla gífurlegu magni af fíkniefnum með skútu

Dómur mildaður yfir Henry Fleischer fyrir að smygla gífurlegu magni af fíkniefnum með skútu
Fréttir
Í gær

Jörgen segir að nauðganir séu allt að því refsilausar – „Dómskerfið undir leiðsögn Al­þing­is stendur sig afleitlega“

Jörgen segir að nauðganir séu allt að því refsilausar – „Dómskerfið undir leiðsögn Al­þing­is stendur sig afleitlega“
Fréttir
Í gær

27 faldur hagnaður á einbýlishúsi unga öryrkjans – „Eitt skýrasta dæmi óréttlætis sem hægt er að hugsa sér“

27 faldur hagnaður á einbýlishúsi unga öryrkjans – „Eitt skýrasta dæmi óréttlætis sem hægt er að hugsa sér“
Fréttir
Í gær

Smjörþjófnaður eykst í Rússlandi – Er merki um undirliggjandi vanda

Smjörþjófnaður eykst í Rússlandi – Er merki um undirliggjandi vanda
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristrún bregst við bloggskrifum Þórðar Snæs – „Mér leið eins og ég hefði verið kýld í magann“

Kristrún bregst við bloggskrifum Þórðar Snæs – „Mér leið eins og ég hefði verið kýld í magann“