Strætóbílstjóri þurfti að leita aðhlynningar á slysadeild eftir að farþegi réðist á hann í Borgarnesi í morgun.
Að því er fram kemur í frétt RÚV hafði bílstjórinn vísað manninum út úr vagninum, en maðurinn hafði greitt fyrir far frá Reykjavík í Borgarnes en vildi komast lengra. Þegar bílstjórinn tók það ekki í mál lét farþeginn höggin dynja á honum.
Í frétt RÚV kemur fram að bílstjórinn hafi verið með áverka á höndum. Árásarmaðurinn var handtekinn og er hann nú vistaður í fangaklefa í Borgarnesi. Haft er eftir lögreglu að maðurinn hafi virst vera í annarlegu ástandi.