fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Bróðir Sveins var myrtur í varðskipinu Tý: Sorg er grátur, sorg er hiti, blóm og kertaljós

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Föstudaginn 4. maí 2018 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson er ennisbreiður, brúnamikill, kjálkabreiður, hálsdigur og herðamikill, hakan breið. Harðleitur en augun opin og góðleg en myrkvast þá hann verður reiður. Granstæðið vítt og skegg mikið og úlfgrátt. Sveinn er allur vel í vexti. Röddin er sterk, ákveðin en vinaleg. Engu líkara er en að Sveinn Hjörtur hafi risið upp af einni af blaðsíðum Íslendingasagnanna. Það er því engin tilviljun að kvikmyndaframleiðendur og atvinnuljósmyndarar óska reglulega eftir þjónustu hans til að bregða sér í hlutverk víkinga. Síðast birtist hann áhorfendum í auglýsingahléi Ofurskálarinnar í febrúar síðastliðinn þar sem hann reri víkingaskipi af miklum djöfulmóð í auglýsingu Dodge Ram.

Sveinn Hjörtur er fæddur í maí 1971. Hann er markþjálfari og í framboði fyrir Miðflokkinn. Hann hefur komið víða við, starfað í garðyrkju, verið dyravörður, unnið hjá neyðarlínunni og verið sjálfboðaliði hjá Mæðrastyrksnefnd. Hann er einnig fyrrverandi formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur en hann yfirgaf flokkinn og fylgdi Sigmundi Davíð yfir í Miðflokkinn. Hann var búsettur lengi í Keflavík. Þar starfaði Guðfinnur faðir hans sem lögregluþjónn en móðir hans var heimavinnandi. Eignuðust hjónin sex börn, tvö þeirra létust. Systir Sveins lést í fæðingu en bróðir hans, Einar Óli, var myrtur um borð í varðskipinu Tý þann 7. janúar 1980, en Einar Óli var aðeins 18 ára. Morðinginn, Jón G. Guðmundsson, drap einnig annan ungan mann, Jóhannes Olsen að nafni, áður en hann kastaði sér svo fyrir borð. Þessi harmleikur skók íslenska þjóð og vakti mikinn óhug. Síðan tóku aðrar forsíðufréttir við og fennti smám saman yfir málið. Eftir sat fjölskylda harmi slegin með ung börn sem fékk enga áfallahjálp á þeim tíma. Þetta var þegar fólk átti að harka af sér og bera harm sinn í hljóði. Fjölskyldan var brotin og sárin greru aldrei að fullu.

Sveinn Hjörtur hefur aldrei rætt áður opinberlega um þennan mikla missi. Sveinn var óviss um að ræða þetta erfiða mál og sérstaklega á þeim tímapunkti er hann er í framboði. Vildi hann ekki að liti út fyrir að hann væri að nýta harmleik til að koma sér á framfæri. Sveinn samþykkti að lokum að ræða þann atburð sem markaði hann fyrir lífstíð ef það yrði til þess að af því mætti draga lærdóm. Hann var aðeins tíu ára þegar fyrirmynd hans lést. Öllum þessum árum síðar snertir fortíðin, harmleikurinn, viðkvæma strengi í þessum stóra manni. Sveinn lærði á erfiðasta hátt sem hugsast getur hvað sorg er, og sorg er grátur, sorg er hiti, blóm og kertaljós og eitthvað sem enginn þorir að segja eða tala um.

Kanasjónvarp og hasarblöð

Í gegnum starf föður síns kynntist Sveinn hermönnum og börnum þeirra á Keflavíkurflugvelli. Hann varð vitni að því þegar þeir tóku morgunhlaup eða marseruðu um svæðið.

„Það var svo gaman að upplifa það. Þetta var framandi heimur og ég hafði aðgang að Bubble Double tyggjógúmmíi og hasarblöðum. Ég horfði á kanasjónvarpið og tók þátt í Halloween og las um Kaftein America, Hulk og Spider-Man og allt það gengi,“ segir Sveinn. „Herinn kom hingað með gríðarleg tækifæri og nýbreytni. Samfélagið blandaðist og við tókumst á við nýjar áskoranir, í samgöngum og flugmálum sérstaklega. Þetta breytti öllu alveg gríðarlega og við tókum risastökk á örskömmum tíma inn í nýja framtíð. Með hernum komu peningar, fyrirtæki byggðust upp sem því miður, eins og sagan segir, voru misnotuð af stjórnmálaflokkum, sem er sorglegt. Það er eitthvað sem við þurfum að læra af og má aldrei gerast aftur.“

Hvernig varstu sem barn?

„Ég var svolítill grallari en nokkuð hlédrægur, ég stamaði. Pabbi heitinn stamaði, það var ekkert mikið en ég var hlédrægur og rólegur. Ég þótti svolítið sérstakur. Ég var að hlusta á Vilhjálm Vilhjálmsson, Hauk Morthens, Ragnar Bjarnason og Óðinn Valdimarsson. Ég var forn í öllu, einn af fáum í skóla sem hafði gaman af Íslendingasögunum. Gísli Súrsson er svona ædolið mitt og Grettir Ásmundarson,“ segir Sveinn. „Ég var ljóshærður hnokki og með blá augu. Ég var mjög vinsæll hjá svörtum börnum amerískra hermanna og var oft beðinn um að sitja fyrir á myndum. Ég man alltaf eftir því hvað mér fannst þetta vinalegt, en svo þegar maður elst upp sem barn er talað um negra. Ég var búinn að kynnast blökkumanninum og mér fannst þetta ekkert mál og þótti vænt um krakkana sem ég kynntist. Þess vegna þykir mér það oft sérstakt þegar margir stimpla mig sem einhvern rasista.“

Alkóhólismi litaði heimilislífið

„Ég ólst upp við alkóhólisma. Faðir minn var alkóhólisti og starfaði sem lögreglumaður og seinna meir sem forvarnarfulltrúi en alkóhólisminn var alltaf til staðar og það var erfitt að horfast í augu við hann. Pabba tókst að halda sér án áfengis oft í lengri tíma en féll svo og neyslan hafði djúpstæð áhrif á heimilislífið.“

Sveinn bætir við að þó hinum veika takist að halda sig frá áfengi, þá geti sjúkdómurinn engu að síður litað heimilislífið.

„Það er ákveðin barátta ef menn taka þetta á hnefanum, löngunin verður svo erfið,“ segir Sveinn. „Það var ekkert rætt um þetta áður fyrr. Konur voru ekkert að leita aðstoðar eða neitt. Þetta var erfitt oft og tíðum.“

Sveinn ber sterkar tilfinningar til föður síns og gerir sér grein fyrir að hann átti við veikindi að stríða. Sjúkdóminn fékk Sveinn svo í arf en hann hefur verið án áfengis í sex ár.

„Pabbi var ofsalega góður vinur minn. Hann var fyrirmynd mín og ég var stundum farinn að halda að þetta væri einhvers konar meðvirkni en það var ekki þannig. Við áttum rosalega margt sameiginlegt.

Margir segja í dag að ég sé mjög líkur pabba mínum, bæði gleðst ég yfir því og óttast það. Pabbi gekk í gegnum mikil veikindi og gríðarlega sigra í lífinu, en mér finnst alltaf svo gott að leyfa hinum látna að vera með þá minningu sem hann hefur. Það sem var, það var og það sem er, það er.“

Sveinn hefur unnið í sjálfum sér og fyrir margt löngu skilið eftir allan beiskleika og biturð. Hann telur mikilvægt að vera þakklátur, þakka fyrir sig og leyfa sér að vera þakklátur.

„Lífið er ferðalag, og eins og ég segi stundum: steinar lífsins eru hálir, við dettum. Það er bara spurning hvenær. Sumir flýta sér yfir ána og detta en mikilvægast er að standa upp strax aftur og halda áfram,“ segir Sveinn ákveðinn, þagnar um stund en heldur svo áfram: „Það er eins og Guð hafi lagt fyrir mann ákveðnar raunir. Ég trúi að hann setji aldrei of mikið og hann ætlast til þess að maður læri af því. Ég gæti í raun og veru lýst þessu þannig að það er göngumaður sem er að ganga upp á tindinn og horfir til baka, þá sér hann og hugsar: þarna hrasaði ég, þarna sneri ég ökklann, þarna var ég næstum hættur við, þarna gafst ég upp en með örlítilli birtu ákvað ég að halda áfram. Það er fullt af ósigrum, en líka sigrum. Þeir þurfa ekki endilega að vera stórir, en þeir eru hvatning til að halda áfram.“

Þú talar um Guð. Hvaða Guð er þetta sem þú trúir á?

„Guð er þannig í mínum huga að hann er eitthvað æðra sem ég leita til og treysti, en hvort þetta er barnatrúin veit ég ekki. Ég hef alveg yfirgefið Guð, bara í reiði. Ég hef ýtt honum í burtu þegar ég hef verið við það að bugast.“

Sveinn Hjörtur sagði sig úr Þjóðkirkjunni þegar Ólafur Skúlason var sakaður um kynferðisbrot.

„Ég fer með bænir og sé Jesúm Krist sem leiðtoga, en ég sé hann með allt öðrum hætti en margir aðrir. Mín túlkun á Jesú Krist er sú að hann hefur verið til á sínum tíma; heimspekilegur ungur maður sem var á undan sinni samtíð og hafði margt fram að færa. Hann gerði hluti sem sumir segja að séu bara sögusagnir og voru ekki til, en fyrir mér var hann bara félagi minn, hann gæti verið mótorhjólafélagi minn eða hver sem er. Þannig trú hef ég. Hvort sem það endar þannig að við erum öll á sama stað eftir Paradís hef ég ekkert velt fyrir mér. Ég lifi í núinu. Lífið hefur kennt mér það að ef þú ætlar að græja þig eitthvað langt fram í tímann, sem oft þarf að gera, þá gerir þú engin meistaraplön því þau geta hrunið hálftíma eftir á.“

Skipverjarnir sem urðu fyrir árás, Morgunblaðið 8. janúar 1980

Bróðurmissir

Sveinn Hjörtur hefur, eins og áður segir, aldrei opnað sig opinberlega um það þegar hann missti bróður sinn. Það er ekki hjá því komist í miðju viðtali að rekja þá atburðarás sem kollvarpaði heimsmynd tíu ára saklauss drengs. Mánudaginn 7. janúar árið 1980 átti sér stað harmleikur um borð í varðskipinu Tý þegar tveir skipverjar voru stungnir til bana af þeim þriðja sem talið var að hafi í kjölfarið varpað sér frá borði. Mennirnir sem stungnir voru hétu Jóhannes Olsen háseti og Einar Óli Guðfinnsson léttadrengur, bróðir Sveins Hjörts. Báðir voru þeir um tvítugt, búsettir í Reykjavík og ókvæntir. Maðurinn sem framdi verknaðinn, Jón D. Guðmundsson, 32 ára, starfaði sem vélstjóri um borð og var kvæntur tveggja barna faðir en lík hans fannst aldrei.

„Hann er brjálaður! Hann stakk mig!“

Týr sigldi úr höfn föstudaginn 4. janúar og var að fylgjast með loðnuveiði norðaustan við Kolbeinsey þegar atburðurinn gerðist að morgni mánudagsins. Klukkan var níu um morgun og Jón hafði nýlokið vakt þegar hann gekk inn í eldhús skipsins þar sem Jóhannes og Steinar M. Clausen bátsmaður voru fyrir.

Jón tók stóran brauðhníf úr rekka og eftir stutt orðaskipti rak hann hnífinn fyrirvaralaust djúpt í síðu Jóhannesar. Síðan dró hann hnífinn úr sárinu og hljóp út úr eldhúsinu og í átt að borðsalnum. Á ganginum var Einar, sem hafði nýlokið við að taka niður jólaskraut og var að ryksuga. Jón hljóp að Einari og stakk hann í brjóstið en enginn varð vitni að þeirri árás. Einar náði að komast inn í borðsalinn þar sem nokkrir skipverjar sátu en þar hneig hann niður. Jón var hins vegar á bak og burt.

Eftir að Steinar varð vitni að árásinni á Jóhannes hljóp hann rakleiðis upp í brú til að segja stýrimanninum sem var á vakt hvað gerst hafði. Nokkrum sekúndum síðar kom Jóhannes sjálfur upp, helsærður og öskraði: „Hann er brjálaður! Hann stakk mig!“ Jóhannes var lagður á gólfið og skyrtu hans haldið að sárinu. Hann var með fullri rænu en mjög kvalinn og fékk morfínssprautu til að lina þjáningarnar.

Opin hurð og blóðdropar

Skipverjum var mjög brugðið við þetta og fóru þeir samstundis í það verk að reyna að bjarga Jóhannesi og Einari og var Jóhannes talinn í meiri lífshættu. Bjarni Helgason skipherra fyrirskipaði að Týr tæki stefnuna að Grímsey og reyndi að fá annaðhvort sjúkraflugvél eða þyrlu á staðinn. En símtölin við lækna og Landhelgisgæsluna gengu treglega. Loks þegar átti að ræsa sjúkraflugvél af stað var það um seinan. Í miðju símtali lést Jóhannes af innvortis blæðingum og Einar hálftíma síðar og vélin fór því aldrei í loftið. Andlát Einars kom skipverjunum verulega á óvart því að þeir töldu meiðsli hans umtalsvert minni en Jóhannesar. Endurlífgunartilraunir voru gerðar en báru engan árangur.

Læstu sig inni í klefa

Eftir að búið var að hlúa að Jóhannesi og Einari eins og hægt var hófst leitin að Jóni. Skipverjar gripu kylfur og héldu af stað nema þeir yngstu sem læstu sig inni í klefum sínum. Tvisvar sinnum leituðu skipverjarnir í hverjum krók og kima en hvorki fannst Jón né hnífurinn. Eftir klukkutíma, þegar skipverjarnir höfðu leitað af sér allan grun, töldu þeir öruggt að Jón hefði stokkið útbyrðis. Þeir sáu að hurð á þyrluskýli hafði verið opnuð og tveir blóðdropar þar nálægt. Þótti þeim það líklegt að Jón hefði farið þar út. Skipið var þá komið svo langt frá staðnum þar sem Jón sást síðast að útilokað var að finna hann á lífi í hafinu. Enginn maður lifir lengur en 12 mínútur í sjó á þessum slóðum í janúar.

Þess í stað var Tý beint að Akureyrarhöfn og þar lagðist skipið að bryggju klukkan sex um kvöld. Lögreglan beið eftir skipinu á bryggjunni og fjórir rannsóknarlögreglumenn, sem kvaddir voru til frá Reykjavík, og einn frá Akureyri stigu um borð til að rannsaka vettvang og yfirheyra skipverjana. Með þeim í för var Þóroddur Jónasson héraðslæknir. Fyrst um sinn mátt enginn fara frá borði nema með sérstöku leyfi en síðar voru yfirheyrslurnar færðar yfir á lögreglustöðina á Akureyri. Þegar líkin voru flutt úr skipinu stóð áhöfnin heiðursvörð á afturþiljunum. Þau voru síðan flutt með flugi til Reykjavíkur daginn eftir.

Kisturnar fluttar til Reykjavíkur.

Starði út í loftið og keðjureykti

Sjódómur á Akureyri tók málið til meðferðar þriðjudaginn 8. janúar og reynt var að skilja verknað Jóns. Hann hafði unnið hjá Landhelgisgæslunni í þrjú ár og talinn hinn besti starfsmaður. Skipverjarnir báru vitni einn af öðrum og kom þá ýmislegt í ljós. Jón hafði verið órólegur alveg frá því að Týr fór frá Reykjavíkurhöfn á föstudeginum. Til dæmis hafði hann muldrað eitthvað rugl þegar skipverjarnir sátu saman og horfðu á íþróttaþátt í sjónvarpinu. Einnig sást til hans sitja í matsal yfirmanna, stara út í loftið og keðjureykja. Kvöldið fyrir árásina sást til hans ganga sífellt fram og aftur um ganga skipsins og gat ekki verið kyrr. Engu að síður fannst skipverjunum árásin tilefnislaus og hlyti að hafa verið gerð í æðiskasti. Engin áfengis- eða lyfjaneysla hafði verið um borð.

Steinar var lykilvitni í málinu og fyrir dóminum. Um aðdraganda árásarinnar sagði hann:

„Ég veitti Jóni ekki sérstaka athygli en fékk mér kaffi í könnu. Tók ég þá eftir að Jón var með stóran brauðhníf í höndunum, en slíkir hnífar eru geymdir í rekka yfir eldhúsborðinu. Jón hélt um skaftið með vinstri hendi en oddurinn lék við fingur hægri handar. Ég sá hann ekki taka hnífinn úr rekkanum Ég gekk að hlið Jóhannesar með kaffið í könnunni. Jón sagði eitthvað sem ég heyrði ekki og Jóhannes svaraði: Þú ert ekki maður til að valda svona vopni. Um leið tók Jón hnífinn í hægri hendi, steig skref fram og keyrði hnífinn að Jóhannesi, sem hafði snúið sér við. Jóhannes fékk högg og ég hélt að hann hefði verið sleginn. Hann kiknaði við. Jón lyfti hnífnum og nú var hann alblóðugur. Jóhannes stóð álútur og ég sá mikið blóðstreymi. Jón stóð nú álengdar með hnífinn reiddan til höggs en ég heyrði hann aldrei segja orð“ og enn fremur „Hann leit fram starandi, tryllingslegu augnaráði. Ég hugsaði nú um það eitt að forða mér og hljóp upp í brú og tilkynnti fyrsta stýrimanni hvað gerst hafði.“

Steinar sagðist hafa þekkt Jón í nokkur ár og aðeins haft góða hluti um hann að segja. Þeir hafi ekki verið nánir vinir en Jón hafi verið léttur og skemmtilegur félagi.

Bjarni skipherra sagði sömu sögu um Jón:

„Ég þekkti Jón Guðmundsson lítið persónulega en ég varð ekki var við neitt óvenjulegt í fari hans. Hann kom mér fyrir sjónir sem algjörlega heilbrigður maður.“

Svona er sorgin

Er hann enn í fersku minni þessi dagur, þegar þér var tilkynnt um lát bróður þíns?

„Alveg nákvæmlega! Þetta var sjöundi janúar,“ segir Sveinn og bætir við: „Ég var að leika mér í Breiðholtsskóla og labbaði á milli Bakkanna og svo þegar ég kem fyrir hornið sé ég mergð af bílum. Bílaplanið var fullt.“ Taldi Sveinn að það væri veisla heima en annað átti eftir að koma í ljós.

„Ég man að ég var svo hissa að einn bíllinn hafi verið merktur Landhelgisgæslunni. Mér datt strax í hug að það væri veisla og ég geng í hægum skrefum að útidyrahurðinni og ég skynjaði einhvern ótta. Ég stíg inn í anddyrið og það var búið að draga fyrir gluggatjöld, það voru kerti logandi og blóm komin í blómavasa. Þetta var svo yfirþyrmandi allt og ég heyri grátur í fjarska sem mér fannst svo óskaplega stingandi. Það var svo erfitt og ég vissi ekki hver það var. Ég hugsaði með mér: „hver grætur svona?“

Hér situr fólk inni og kemur auga á mig og enginn þorir að gera neitt eða segja. Þá kemur pabbi út með annan bróður minn og heldur á honum og hann grætur mikið, en pabbi er alveg eins og klettur. Við förum inn í herbergi Einars. Pabbi biður mig um að setjast á rúmið sem Einar átti og annar bróðir minn var þarna líka. Ég man svo ofboðslega vel eftir hitanum þarna inni. Mér fannst ég vera að kafna.

Við setjumst inn, bróðir minn tekur utan um mig og ég sé að hann grætur mikið. Það var óskaplega erfitt að horfast í augu við þetta,“ segir Sveinn og tár læðast fram í augnkrókana. Hann tekur sér hvíld, þerrar tárin.

„Ég verð svo hrærður við það að lýsa þessu, því þetta sat svo rosalega í mér, að sjá bróður minn, fyrirmyndina mína, sem er núna elsti bróðir minn, hvað hann grét,“ bætir Sveinn við: „Mér fannst þetta svo sárt, ég gat ekki gert neitt og ég var bara barn. Ég var samt þannig barn að ég gerði mér grein fyrir því að svona væri sorgin.“

Guðfinnur settist fyrir framan son sinn og sagði: „Sveinn minn, hann Einar bróðir þinn, hann er dáinn.“ „Ég hugsaði með mér: „Ókei, dáinn … hvað þýðir það?“ Ég man að ég var svolítill kjáni, ég stend upp, lyfti hægri hönd og blessa eins og prestar gera en ég vissi aldrei að prestar gerðu þetta. Ég gaf þeim svona krossmark, báðum, tíu ára gamall og gaf bæði pabba og Sigga bróður mínum blessun og segi: „Pabbi, þegar ég verð stór ætla ég að verða prestur“ og svo labba ég út.“

Sveinn bætir við að seinna um daginn gerði hann dálítið sérstakt. En þá teiknaði hann myndir af atburðarásinni og átti móðir hans þær teikningar í mörg ár. Þá hafði enginn greint Sveini frá því hvað hafði átt sér stað um borð. Kveðst hann ekki geta útskýrt það.

„Þarna vissi ég að sorgin væri grátur, að sorgin væri hiti, blóm eða kertaljós og eitthvað sem enginn þorir að segja eða tala um. En ég settist niður og teiknaði flugvélina sem var komin með þrjár kistur. Það létust tveir og annar þeirra var talinn af. Ég teiknaði tvær kistur, menn og rosalega margt annað sem hafði átt sér stað. Þá eiginlega áttaði mamma og pabbi sig á því að ég væri ofboðslega næmur. Mamma sagði oft hvað ég væri líkur bróður mínum, með göngulag og vaxtarlag og ýmislegt. Það var stundum erfitt að bera það og heyra það. Ég kæmi aldrei í stað fyrir Einar, en það breyttist svo margt. Það breyttist allt.“

Breyttist mikið á heimilinu eftir bróðurmissinn?

„Algjörlega. Þessi missir myndi ég segja að hafi rústað fjölskyldunni. Við tókumst öll hvert og eitt á við vandamál en fengum ekki hjálp við það. Mamma fékk enga hjálp. Pabbi vann þá sem lögreglumaður og Landhelgisgæslan, löggæsla hafsins, lætur það viðgangast að sé drukkið um borð og allir vissu hvernig ástandið var.“

Sveinn Hjörtur bætir við: „Þegar ég kom í skólann eftir þetta var þögnin skerandi. Krakkarnir vissu ekkert hvað átti að segja, kennarinn ráðvilltur. Ég hefði getað skilað af mér auðri blaðsíðu og fengið tíu í einkunn. Vinir mínir vissu ekki neitt hvað átti að gera og ég var bara út undan. Það lék enginn við mann, en svo hægt og rólega var farið að ræða við mann. Svo var þetta í fjölmiðlum, sem var erfitt. Þetta var alls staðar og það vissu allir hvað gerðist. Það vissu allir um sukkið sem var um borð. Það vissu allir hvernig Landhelgisgæslan hagaði sér. Þetta var svo erfitt fyrir foreldra til að bera í svona litlu samfélagi.“

Afdrifaríkt símtal

Seinna átti þessa sára reynsla eftir að nýtast Sveini í starfi. Hann vann um tíma hjá Neyðarlínunni og sérhæfði sig í sjálfsvígsmálum. Þá sérhæfði hann sig í áfallahjálp. Hann átti eftir að koma að öðru máli sem einnig skók íslenska þjóð. Forsíðufrétt Fréttablaðsins þann 1. júní árið 2004 var svohljóðandi: „Ellefu ára stúlka stungin til bana.“ Morguninn áður hafði móðir Einars Zeppelin Hildarsonar myrt litlu systur hans og reynt að drepa hann. Einar tjáði sig í áhrifaríku viðtali við Fréttablaðið árið 2015 um harmleikinn. Sveinn Hjörtur var sá sem tók á móti símtalinu frá móður vinar Einars.

„Á nokkrum mínútum varð allt dimmara og dimmara og umfangsmeira. Frásagnir þeirra sem voru á vettvangi, að heyra í þeim lýsa tóminu í augum móðurinnar. En þennan tíma hafði ég svo miklar áhyggjur af stráknum og í mörg, mörg ár. Þetta var eina málið sem virkilega sat í mér. Ég ákvað að stíga til hliðar og hugsaði með mér að þetta væri orðið of mikið.

Veikindi móta skoðanir

Sveinn er óvirkur alkóhólisti og hefur verið án áfengis í tæplega sex ár. Hann er fráskilinn faðir þriggja barna. Hann er mikið með börnin og birtir reglulega myndir á samskiptamiðlum af sér og börnunum. Barátta hans við áfengi og kynni hans af öðrum sem hafa tekist á við sambærileg veikindi hafa mótað skoðanir hans. Þannig lagði hann mikla áherslu á það í stefnu Miðflokksins að hlúð væri að meðferðarúrræðum og betrun fanga.

„Fangar koma oft út með einn snjáðan plastpoka með eigum sínum. Þeir hafa engin réttindi. Það er skelfileg staða. Við eigum öll að fá tækifæri í lífinu.“

Hvenær byrjaðir þú í pólitík?

„Ég hef alltaf haft áhuga á pólitík. Ég tók fyrst þátt í starfi Framsóknarflokksins. Þegar við fórum af stað með Miðflokkinn áttaði ég mig á því að það er miklu meira frelsi í Miðflokknum og örugglega öðrum flokkum líka til að láta gott af sér leiða.“

Þú og Sigmundur Davíð, hver eru ykkar tengsl?

„Við erum góðir félagar. Sigmundur er mjög góður maður. Ég hef aldrei heyrt hann tala illa um neinn. Hann er auðvitað umdeildur en mikill hugsuður. Mér líkar hugsuðir.“

Af hverju ákvaðst þú að færa þig yfir í Miðflokkinn?

„Mér blöskraði vinnubrögðin í Framsókn. Ég var búinn að reyna að útskýra fyrir laganefnd flokksins og allt hvernig vinnubrögðin væru, en flokkurinn mun aldrei lagast. Ég treysti ekki Framsóknarflokknum með þeim formanni sem er í dag.“

Þú ákvaðst að ganga til liðs við flokk þar sem er að finna líklega tvo af umdeildustu stjórnmálamönnum landsins, þá er ég að tala um Sigmund og Vigdísi Hauksdóttur, oddvita Miðflokksins í Reykjavík.

„Vigdís er gríðarlega mikill leiðtogi. Hún er góður stjórnandi og veit alveg hvað hún er að gera. Það er niðurnjörvað það sem hún er að segja og hún fer yfir málin. Þetta er allt útpælt hjá henni. Það er gaman að vinna með henni.“

Hverju viljið þið breyta?

„Það er svo margt. Ég hef áhuga á velferðarmálum. Við þurfum að breyta húsnæðismálum, málefnum öryrkja og heimilislausra, það er mitt hjartans mál. Ég er að fara í jarðarför í næstu viku hjá tveimur einstaklingum þar sem alkóhólisminn tók líf og einmanaleikinn sem fylgir félagskerfinu eins og það er í dag getur sett fólk í gröfina. Kerfið er gallað og virkar ekki sem skyldi og einangrar fólk sem byggði upp þetta samfélag. Það á betra skilið.

Það er gríðarlega mikilvægt að fólk gleymi því ekki hvernig þetta er búið að vera, hvernig gatnakerfið er, hvernig félagslegt húsnæði er gjörsamlega í molum. Við erum með fullt af tækifærum. Hvar ætlum við að enda eftir tíu til fimmtán ár ef það skyldi verða annað hrun, ætlum við að búa á hótelum?

Ef við gerum þetta ekki núna, þá verðum við með næstu fjögur ár borgarstjórn sem heldur áfram ákveðinni spillingu, eins og með Valssvæðið og Hlíðarenda, flugvallarmálin og alls konar mál sem eru algjör hneyksli. Það er óásættanlegt að þessi borgarstjórn haldi áfram. Við höfum þetta val, það eru kosningar. Menn hugsa kannski að þetta séu bara innantóm loforð, en ég er búinn að berjast við þetta kerfi endalaust og það eina sem það gerir, það gerir mig sterkari. Þess vegna er ég í pólitík í dag, mér blöskrar og ég vil breytingar,“ segir Sveinn og hverfur svo mörg ár aftur í tímann og er aftur lítill ljóshærður strákur með pabba sínum.

„Einu sinni á aðfangadag vöknuðum við snemma og pabbi er að græja sig og segir við mömmu að hann ætli að fara í smá hring. Hann spyr hvort ég vilji koma með. Pabbi var hljóður, það var kalt, alveg ofboðslega, og pabbi keyrir í rólegheitum á nokkra staði og ég uppgötvaði ekki fyrr en eftir á hvað hann var að gera. Hann var að kíkja eftir utangarðsmönnum sem sváfu úti og hann hafði áhyggjur af þeim, hvar þeir yrðu á aðfangadag, var þeim kalt? Borða þeir? Af pabba lærði ég að ef maður hefur á föt sem maður er hættur að nota, að þá gefur maður þau.

Í Orðskviðunum stendur, 17. kafla, 17. vers, „Vinur elskar ætíð og í nauðum er hann sem bróðir“ og ég hef haft þetta sem leiðarljós. Kannski er ég í einfeldni minni að trúa þessu. En ég trúi því að á meðan ég get hjálpað einhverjum, vini mínum eða hvaða manneskju sem er, ef ég get hjálpað henni eins og ég væri bróðir hennar, þá er það alveg nóg fyrir mig. Ég hef tileinkað mér þetta og ég reyni eftir mesta megni, hvern einasta dag, að gera það. Stundum get ég ekki alltaf gert það, geri ég það samt sem áður með einhverju móti. Þess vegna er ég í framboði og fái ég tækifæri mun ég reyna að bæta okkar litla fallega samfélag, og sólin kemur alltaf upp að lokum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund
Fréttir
Í gær

Ákærð fyrir stórfellda líkamsárás á starfsmann Vinakots

Ákærð fyrir stórfellda líkamsárás á starfsmann Vinakots
Fréttir
Í gær

Salka Sól sendir borgarstjóra væna pillu – „Þú situr bara víst við þetta samningsborð Einar!“

Salka Sól sendir borgarstjóra væna pillu – „Þú situr bara víst við þetta samningsborð Einar!“
Fréttir
Í gær

Nýju gögnin í Geirfinnsmálinu eiga að fara til Keflavíkur – „Þarna var sáð fræi sem varð að mesta réttarmorði Íslandssögunnar“

Nýju gögnin í Geirfinnsmálinu eiga að fara til Keflavíkur – „Þarna var sáð fræi sem varð að mesta réttarmorði Íslandssögunnar“
Fréttir
Í gær

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt