Sæborg Ninja Guðmundsdóttir og Alda Villiljós fullyrða að öll ummæli sem féllu í hlaðvarpsþættinum Hvað er svona merkilegt hafi verið kaldhæðni í samtali við Stundina. Stundin fullyrðir að þær hlægi meðan öll ummælin falla en sé hlustað á hlaðvarpið má einungis greina hlátur þegar Sæborg segir að karlar séu slæmir fyrir samfélagið. Þegar Sæborg lætur þyngstu ummælin falla, líkir körlum við kakkalakka, þá má ekki greina neinn hlátur. Rétt er þó að taka fram að Alda segir snemma í fyrra þættinum að það sé fáránleg hugmynd að „femínismi snúist um það að við viljum útrýma öllum karlmönnum“.
Þær segja að markmið ummælanna hafi verið að vekja fólk til umhugsunar. „Já, við höfum sagt í djóki að við og femínistar almennt vilji í raun taka yfir heiminn, útrýma karlkyninu eins og það leggur sig, halda nokkrum karlmönnum eftir sem „breeding machines“ og þrælum, og svo framvegis. Þessi frétt er rosa mikið að koma höggi á femínista sem þora að tala og taka pláss,“ hefur Stundin eftir Öldu.
Hlaðvarpið birtist fyrst fyrir nokkrum mánaðarmótum en vakin var athygli á því á Pírataspjallinu fyrir fjórum dögum þegar til stóð að þær myndu halda erindi á vegum Femínistafélags flokksins. Í kjölfar þess birti íslenski myndbandsbloggarinn Lord Pepe myndband um málið. Það myndband fór víða en þar klippti hann út og birti eldfimustu ummæli Sæborgar og Öldu.
Líkt og DV hefur áður greint frá þá má gróflega staðsetja hugmyndafræði hans innan Alt-Right, stefnu aðskilur sig einna helst frá hefðbundnar hægristefnu með andstöðu við hnattvæðing og fjölmenningu. Lord Pepe, Brynjólfur Sveinn Ívarsson, birtir þó ummæli Sæborgar og Öldu óbreytt. Hér fyrir neðan má sjá myndband hans. Á mínútu fjögur má heyra ummæli þeirra um karlmenn sem lemja konunnar sínar og á mínútu níu má heyra ummælin um karla og kakkalakka. Líkt og fyrr segir þá fullyrða þær báðar að ummælin hafi verið léttúð.
Uppfært – leiðrétting frá Brynjólfi
Brynjólfur Sveinn Ívarsson, gerir athugasemdir við að vera flokkaður sem Alt-Right í stjórnmálaskoðunum sínum og skilgreinir sig sem frjálslyndan hægrimann/þjóðernissinna/femínista eða bara klassískan frjálshyggjumann.