Rússnesk yfirvöld hafa krafið hann um aðgang að Telegram svo þau geti fylst með öllu sem þar fer fram og rússneskir dómstólar hafa úrskurðað að yfirvöld eigi að fá aðgang að skilaboðaþjónustunni. Durov er ekki á þeim buxunum að veita yfirvöldum aðgang að þjónustunni enda væri hún gagnslítil ef yfirvöld geta fylgst með öllu sem þar fer fram.
Durov stofnaði rússneska samfélagsmiðilinn VK en var neyddur til að selja hann þar sem samfélagsmiðillinn var mikið notaður til að gagnrýna Pútín. Durov hagnaðist samt sem áður vel á dæminu og gat nýtt fjármunina til að flytjast úr landi og koma sér fyrir í Dubai.
En það eru ekki bara rússnesk stjórnvöld sem eru ósátt við Telegram því það eru stjórnvöld í Íran einnig en þau líta á þessa skilaboðaþjónustu sem beina ógn. Í Íran er talið að um 40 milljónir manna noti Telegram en helmingur netumferðar í landinu fer í gegnum Telegram. Á heimsvísu er talið að um 200 milljónir manna noti Telegram.
En vandinn sem stjórnvöld standa frammi fyrir ef þau vilja loka á Telegram er að þau verða bókstaflega að slökkva á internetinu. Þetta hafa rússnesk stjórnvöld gert og hafa lokað á milljónir IP-talna, þar á meðal netþjóna Google.
Rússnesk yfirvöld segja að þau verði að fá aðgang að Telegram og öðrum skilaboðaþjónustum sem notast við dulkóðun því hryðjuverkamenn og glæpamenn noti þessar þjónustur. Þetta fellur auðvitað vel að stefnunni í ríkjum eins og Rússlandi, Íran og Kína þar sem almenningur má helst ekki hugsa sjálfstætt eða gagnrýna stjórnvöld.
En Telegram er líka þyrnir í augum vestrænna leyniþjónusta sem eru lítt ánægðar með að fólk geti komist hjá eftirliti yfirvalda. Í samtali við Bloomberg sagði Durov að Telegram sé ekki til sölu og það skipti engu þótt honum verði boðnar 20 milljarðar dollara fyrir forritið.