Á Facebook-síðu eiginkonu Sindra Þórs Stefánssonar strokufanga má sjá að hún hefur undanfarin misseri stundað flugnám og er ljóst af nýjustu myndum að hún er langt komin með námið. RÚV greinir frá því að hún hafi verið yfirheyrð ásamt fjölda fólks en Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum, fullyrti í samtali við Vísi í gær að Sindri hafi átt vitorðsmann í flótta sínum frá landinu.
Hér verður ekkert fullyrt um hvort eiginkona Sindra hafi nokkuð með flóttan að gera en þó má ætla að hún hafi þekkt flugbransann vel í gegnum nám sitt. Flugfélög eru til að mynda ekki öll eins ströng á því að vegabréfi sé framvísað við innritun. Í því samhengi má benda á að WOW air var gagnrýnt í fyrra fyrir að krefjast vegabréfs þó flogið væri innan Schengen.
Líkt og hefur verið greint frá þá flúði Sindri land með vél Icelandair klukkan 07:34 til Svíþjóðar og lenti á Arlanda-flugvellinum í gær. Ekki er talið að hann hafi framvísað fölsuðum skilríkjum. RÚV greinir frá því að eiginkona Sindra hafi verið búsett erlendis og DV hefur fengið það staðfest frá bæði Icelandair og WOW air að hún hafi ekki starfað hjá flugfélögunum.
Flest allar myndir sem eiginkona Sindra hefur birt á Facebook síðustu mánuði tengjast flugnámi hennar. Í mars í fyrra birti hún mynd af sér við eins hreyfils flugvél og segir „Fyrsta flug sem pilot in command“. Sindri eiginmaður hennar skrifar athugasemd og vísar í fallhlífastökk sem virðist hafa haft hug hans undanfarið: „Þu ert snillingur, til hamingju með árangurinn.. Bráðum geturu hent mér úr flugvélinni.“