Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af nemanda Fjölbrautaskólans við Ármúla fyrr í dag vegna Facebook-færslu. Nemandinn er sagður hafa skrifað: „Eitt like og ég skít upp skolan minn“.
Mbl.is greinir frá þessu. Ólafur H. Sigurjónsson, skólastjóri FÁ, segist ekki hafa haft sambandi við lögreglu en staðfestir að lögreglumenn hafi rætt við nemandann í morgun. „Þeir höfðu einhverjar upplýsingar um nemanda. Ég held þetta hafi bara verið strákapör en lögregla brást alveg rétt við. Mér fannst viðbrögð lögreglu mjög markviss og eðlileg,“ segir hann í samtali við mbl.is
Ólafur segir að óeinkennisklæddir lögreglumenn hafi rætt við nemandann sem hafi svo farið heim.