„Ég gæti ekki verið hamingjusamari með þær fréttir að hún sé á lífi og að hún eigi góða fjölskyldu,“ segir Christel Líf Ottósdóttir en árið 2010 týndist læðan hennar, hún Lolíta. Ekkert spurðist til kisunnar og átti Christel síst von á því að fá símtal þess efnis að Lolíta væri sprelllifandi og jafnframt við ágætis heilsu.
Christel deilir þessari mögnuðu sögu inni á facebookhópnum Kattavaktin. Lolíta hvarf árið 2010, stuttu fyrir átta ára afmælisdaginn en í samtali við DV.is segir Christel að Lolíta hafi farið í pössun annars staðar vegna flutninga og verið þar fæld í burtu af öðrum ketti.
Nýlega fékk faðir Christel síðan símtal frá dýralækni í Keflavík sem vildi vita hvort hann væri eigandi kattarins Lolítu.
„Við leituðum mikið af henni, og síðan hún týndist hef ég alltaf haldið í vonina um að finna hana eða þá fá fréttir af henni.“
Í ljós kom að fjölskylda á Suðurnesjum hafði fundið Lolítu í garðinum hjá sér. Hlúðu þau að kisu og hefur Lolíta verið í góðu atlæti hjá þeim síðan. Á dögunum leituðu þau með kisu til dýralæknis þar sem hún var með sár og að sögn Christel ákvað dýralæknirinn þá að skanna Lolítu. Í kjölfarið komu upp upplýsingar um fyrrum eigendur hennar.
„Skiljanlega voru þau hrædd um að við myndum taka hana aftur en pabbi tók það ekki í mál þar sem hún er búin að tengjast þeim,“ segir hún og bætir við að dýralæknirinn hafi vart trúað því að Lollíta væri komin á sextánda aldursár.
„Á morgun fæ ég vonandi svar um hvort ég geti fengið að sjá hana,“ segir Christel jafnframt um leið og hún kemur á framfæri bestu þökkum til fjölskyldunnar sem tók Lollítu að sér og veitti henni ást og alúð.