Maður vikunnar er að öðrum ólöstuðum pistlahöfundurinn og fyrrverandi blaðamaðurinn Bragi Páll Sigurðsson. Bragi Páll heimsótti landsfund Sjálfstæðisflokksins um síðustu helgi og skrifaði tvo eitraða pistla um upplifun sína. Var honum fagnað sem hetju hjá andstæðingum flokksins en Sjálfstæðismenn urðu brjálaðir og kölluðu Braga Pál öllum illum nöfnum. Meðal annars kallaði Páll Magnússon alþingismaður Braga Pál og Stundina, sem birti pistlana, „endaþarm íslenskrar blaðamennsku“.
Svo skemmtilega vill til að Páll deilir vinnustað með föður Braga Páls. Það er Sigurður Páll Jónsson, alþingismaður fyrir hönd Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi. Sigurður Páll var áður varaþingmaður Framsóknarflokksins, síðan 2013. Bragi Páll er róttækur vinstri maður og því er óhætt að fullyrða að feðgarnir séu á öndverðum meiði í pólitík.