Jónína Benediktsdóttir er hætt í detoxinu. Þetta kemur fram í hjartnæmri yfirlýsingu hennar á Facebook-síðu hennar. Jónína, sem er íþróttafræðingur að mennt, hefur um árabil boðið upp á meðferð sem þróaðar voru af læknunum dr. Dabrowsku og dr. Lemanczyk. Í meðferðinni felst að skapaðar eru þær aðstæður í líkamanum að hann lækni sig sjálfur og vinni bug á óheilbrigði, sé það fyrir hendi. Meðferðin tók um tvær vikur og var dagskráin sem var í boði nokkuð hefðbundin til þess að öðlast aukið heilbrigði, hreyfing, hóflegt magn af hollum mat, nudd, böð, hvíld og slökun. Það sem vakti þó mesta athygli landans var ristilskolun.
Herma heimildir DV að aldrei hafi landar vorir fyllst jafnmiklum krafti og þrótti og þegar pólsku röri var smokrað upp í endaþarm þeirra og síðan var vatni hleypt á.
„Kæru vinir. Ég er ekki lengur að bóka í detoxið og mun ekki vinna við það meira eins og staðan er,“ segir Jónína í yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni. Hún sefar þó áhyggjur þeirra sem ólmir vilja komast í detox með því að benda þeim á pólska samstarfskonu sína sem geti bókað fólk í meðferð. Þá sé eiginmaður hennar, Gunnar Þorsteinsson, enn í Póllandi og sé boðinn og búinn að aðstoða fólk.
„Takk fyrir traustið í gegnum árin. Lífið heldur áfram en þekkingin skilar sér um föstur og heilsu lengi vel,“ segir Jónína og vonar að allt sem hún hafi kennt muni vara lengi. „Mér þykir vænt um alla mína viðskiptavini og hlakka til þess að hitta ykkur á Íslandinu okkar góða,“ segir Jónína.