Hjónum gert að flytja úr íbúð sinni eða vera borin út ella
Íbúar útgerðarbæjarins Grindavíkur skiptast nú í tvennt í afstöðu sinni vegna íbúa íbúðar einnar í blokkinni Suðurhópi 1 í Grindavík. Um er að ræða 20 íbúða blokk sem byggð var árið 2006 sem ætluð er íbúum 50 ára og eldri. Ein íbúðin var seld í byrjun árs til hjóna sem verða 50 ára á þessu ári og því næsta. Telur húsfélagið að þau uppfylli ekki aldurkröfur samkvæmt húsreglum og kvöð eignaskiptayfirlýsingar og er nú gerð krafa um að þau flytji úr íbúð sinni og selji hana, eða verði ellegar borin út með aðstoð dómstóla.
Málavextir eru þeir að 2. janúar síðastliðinn er skrifað undir kaupsamning vegna íbúðar 0202 í Suðurhópi 1 í Grindavík. Blokkin sem í eru 20 íbúðir er í daglegu tali kölluð 50 plús blokkin, enda flestir eigenda og íbúa þar komnir yfir fimmtugt. Kaupendur íbúðarinnar eru hjón sem eru að nálgast fimmtugt, hún í september á þessu ári og hann í ágúst á næsta ári. Fljótlega fór að bera á styrr um að þau væru orðnir eigendur og íbúar í húsinu. Samkvæmt heimildum DV kom til viðræðna um að þau myndu ekki flytja inn í íbúðina fyrr en minnst annað þeirra væri búið að ná fimmtugsaldri og að foreldrar mannsins myndu búa í íbúðinni þangað til þeim áfanga væri náð. Varð þó ekki úr því og fluttu hjónin inn.
Í eignaskiptayfirlýsingu sem gerð var 2. október 2005 og þinglýst 2. janúar 2006 stendur orðrétt „Húsið er ætlað íbúum 50 ára og eldri.“ Vilja sumir meina að þarna sé tekinn allur vafi af með að í húsinu megi ekki búa einstaklingar sem ekki hafa náð 50 ára aldri, þó að eigendur íbúða geti verið yngri. Aðrir vilja meina að hér sé um að ræða kvöð á húsinu og að hvorki eigendur né íbúar hússins megi vera yngri en 50 ára. Sé hins vegar horft á bæði núverandi og fyrrverandi íbúa hússins er ljóst að reglan/kvöðin hefur verið beygð og það oftar en einu sinni.
Í fundarboðinu er sérstaklega vísað til sonar eigenda íbúðar 0202, en hann verður 19 ára í júní næstkomandi. Er með því vísað til þess að íbúar hússins verði að vera orðnir 50 ára eða eldri. Ljóst er að sú regla er og hefur verið þverbrotin þar sem að í minnst sjö íbúðum af 20 hafa einstaklingar yngri en 50 ára búið hjá foreldrum sínum, um lengri eða skemmri tíma og búa sumir þeirra þar enn í dag. Í minnst tveimur íbúðum búa í dag karlmenn hjá foreldrum sínum og hefur hvorugur þessara karlmanna náð 50 ára aldri. Annar þeirra býr þar einn hluta af ári, meðan foreldrar hans dvelja erlendis, og fær til sín börn sín aðra hvora helgi eða oftar. Samkvæmt heimildum DV hefur ekki verið amast við búsetu hans í húsinu. Í íbúð formanns húsfélagsins hafa bæði sonur hans og dótturdóttir eiginkonu hans búið og bæði eru þau undir 50 ára aldri.
Ljóst er að húsfélaginu gæti reynst erfitt fyrir að bera fyrir sig kvöð um að enginn geti orðið eigandi að íbúð í húsinu nema hafa náð 50 ára aldri, þar sem eigandi íbúðar 0302 fékk afsal að sinni eign degi fyrir 49 ára afmælið sitt í apríl 2014. Voru því húsreglurnar og kvöðin, sem húsfélagið telja að felist í eignaskiptayfirlýsingunni, brotnar þar.
Fasteignasala Reykjavíkur kom að sölunni og þar var málið skoðað af starfsmönnum og lögfræðingi sem töldu að ekki væri um kvöð að ræða. Dagbjartur Willardsson, sem starfar á starfsstöð fasteignasölunnar í Grindavík sá um að sýna eignina og selja. Í samtali við Grindavík.net segir hann:
„Þetta eru húsreglur, ekki þinglýstar kvaðir á eigninni. Sérhæft fólk innan Fasteignasölu Reykjavíkur fór yfir öll gögn sem fylgdu íbúðinni og gátu ekki fundið neitt sem hefði átt að koma í veg fyrir þessa sölu, við gátum ekki beint við kvöð heldur stendur einungis í húsreglum að blokkin er ætluð 50 ára og eldri,“ segir Dagbjartur. Hann segir einnig að skiptar skoðanir séu á húsreglum og þau ættu að fá þessum reglum þinglýst. Þegar grindavik.net sagði honum að íbúar blokkarinnar héldu því fram að þessi tiltekna regla væri þinglýst, varð hann hissa, því farið hafði verið yfir öll gögn á skrifstofunni og það ekki komið fram. Einnig hafi sýslumaður skoðað gögn og ekki heldur gert neina athugasemd, „hins vegar eru til dæmi um það að mistök hafa átt sér stað“ segir hann, „lögin eru bara þannig, teygð fram og til baka.“
Boðað hefur verið til húsfundar næsta miðvikudag kl. 18 í bílakjallara hússins. Þar verða tvær tillögur bornar upp til samþykktar eða synjunar.
Blaðamaður leitaði svara hjá Auði Björgu Jónsdóttur hæstaréttarlögmanni um hvort að leitað hefði verið „mýkri“ leiða til sátta, meðal annars hvort að boðað hefði verið til húsfundar áður þar sem hjónunum hefði verið bent á að þau uppfylltu ekki aldursreglur hússins og þeim gefinn kostur á að flytja eða selja. Taldi Auður að svo hefði ekki verið. Stjórn húsfélagsins hefði komið á fund hennar og ráðið hana til að gæta hagsmuna þess, hefði hún samið fundarboðið og væri aðeins að koma að málinu fyrst núna. Sagðist hún fastlega gera ráð fyrir að mæta á húsfundinn á miðvikudag.
Í frétt Grindavik.net kemur einnig fram að samkvæmt viðræðum við íbúa blokkarinnar þá snúist málið um prinsipp, en ekki að núverandi íbúum hennar sé illa við hjónin eða búsetu þeirra í blokkinni.
Það var Björn Birgisson, íbúi í Grindavík, sem fyrst vakti máls á málinu á Facebooksíðu sinni á föstudag, sagðist hann hafa átt erindi í blokkina og rekið augun í fundarboðið hangandi upp á vegg og aldrei hafa séð svona áður. Hefur færsla hans á Facebook vakið mikla athygli og fjöldi einstaklinga skrifað athugasemdir þar undir.
Enn meiri athygli, deilingar og athugasemdir vakti þó færsla Jóns Gauta Dagbjartssonar á Facebook. Þess má geta að hann er sonur seljanda íbúðarinnar, sem málið snýst um.
Í færslu sinni minnist Jón Gauti meðal annars á það sem enn meiri hita hefur sett í málið, en það er tímasetning og boðun húsfundarins. Samkvæmt heimildum DV fær eigandi íbúðarinnar tilkynningu um húsfundinn með tölvupósti á fimmtudagskvöldið í síðustu viku og er tilkynningin hengd upp í kjölfarið. Daginn eftir er hann að bera yngsta bróður sinn til grafar og vilja margir viðmælenda DV að hér sé verið að nýta sér sorgartíma fjölskyldunnar til að ná höggstað á henni og hér sé greinilega um persónulega árás að ræða á þau hjónin, frekar en einhver prinsipp, enda ljóst að prinsippin hafa verið og eru enn brotin í dag í öðrum íbúðum.
„Það er eitt að gera sig að fífli við að reyna setja stein í götu heiðarlegs fólks við að vilja setjast að í þessari glæsilegu blokk en að geta farið svona langt með það er ofar mínum skilningi?? Að geta lagst svo lágt sem íbúar þessarar blokkar gerðu með því að birta þetta „stórkostlega fundarboð“ sama dag og frændi minn og hans fólk báru hans yngsta bróðir til grafar er eitthvað sem er algjörlega fyrir neðan allar hellur, ljótt, óskiljanlegt, fáránlegt og aftur ljótt. ER YKKUR EKKERT HEILAGT????,“ segir Jón Gauti meðal annars í færslu sinni.
Lögmaður húsfélagsins sagði í samtali við DV að stjórn húsfélagsins hefði ekki vitað af andláti bróður íbúðaeigandans né að jarðarförin færi fram á föstudeginum.
Pétur Breiðfjörð hefur lagt til að friðsamleg athöfn fari fram um leið og húsfundurinn er, bæði til stuðnings hjónunum og eins öðrum íbúum hússins sem eiga vandasamt val fyrir höndum, að greiða með eða á móti, tillögum fundarboðsins.
„Þetta snýst um samfélagið sem við búum í, viljum við hafa þetta svona eða koma betur fram við hvort annað,“ sagði Pétur í samtali við blaðamann DV. „Þetta er ljótt og leiðinlegt mál og lyktar af því að einhver hafi bitið eitthvað í sig sem viðkomandi vill ekki bakka út úr. Ég hef ekki hitt neinn sem styður þessa framkomu húsfélagsins. Það er búið að ná athygli um að þetta er 50plús blokk. Tímasetningin er líka ómannúðleg, að fólk geti ekki syrgt fjölskylduvini í friði.“
Ljóst er að eigendur íbúða í Suðurhópi 1 eru í vondri stöðu um hvaða afstöðu þeir eigi að taka á húsfundinum á miðvikudag en samkvæmt 41. gr. laga um fjöleignarhús 26/1994, 6. tl. 2. mgr. þurfa 2/3 eigenda bæði miðað við fjölda og eignarhluta að samþykkja kröfu húsfélagsins.
Sjá einnig Við bjóðum þau ekki velkomin sem slík þegar þau brjóta lög