Besta myndin, besti leikstjórinn og sjö verðlaun til viðbótar
Íslenski leikstjórinn Hlynur Pálmason kom sá og sigraði í gærkvöldi þegar dönsku kvikmyndaverðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn. Hlynur leikstýrði myndinni Vinterbrødre (Vetrarbræður) en kvikmyndin var sigurvegari kvöldsins að öðrum ólöstuðum.
Myndin hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda en hefur á móti átt erfitt uppdráttar við að ná til kvikmyndahúsagesta. Myndin fékk níu verðlaun í gærkvöldi, þar á meðal sem besta mynd ársins og Hlynur var valinn besti leikstjórinn.
„Þetta er klikkað, alveg frábært. Þetta er mikill heiður og viðurkenning til allra sem komu að gerð myndarinnar,“ sagði Hlynur þegar niðurstaðan lá fyrir í gærkvöldi. Danska ríkisútvarpið skýrir frá þessu.
Það eru meðlimir dönsku kvikmyndaakademíunnar sem standa fyrir valinu.
Vetrarbræður fjallar um námuverkamanninn Emil og bróður hans en báðir vinna þeir í kalknámu. Elliott Crosset Hove, sem leikur Emil, var valinn besti karlleikarinn og Victoria Carmen Sonne var valin besta leikkonan í aukahlutverki. Auk þess fékk myndin verðlaun fyrir búninga, leikmynd, hljóð, myndatöku og förðun.