fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Fréttir

Fjögur ár síðan Skarphéðinn Andri gaf fimm manns nýtt líf

„Tökum afstöðu til líffæragjafar” segir Steinunn móðir hans

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 29. janúar 2018 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag eru fjögur ár liðin frá því að Skarphéðinn Andri, 18 ára gamall, lést. Hann var ekki skráður sem líffæragjafi, en hafði rætt afstöðu sína til líffærajafar við foreldra sína. Fimm manns öðluðust nýtt líf vegna líffæragjafar Skarphéðins Andra og hvetur móðir hans, Steinunn Rósa Einarsdóttir, fólk til að taka afstöðu til líffæragjafar, en 29. janúar er notaður til að minna á umræðuna þar til Íslendingar hafa tekið upp dag líffæragjafa.

Þann 12. janúar 2014 lentu kærustuparið, Skarphéðinn Andri Kristjánsson, 18 ára, og Anna Jóna Sigurbjörnsdóttir, 16 ára, í bílslysi á Vesturlandsvegi við Fornahvamm í Norðurárdal. Skarphéðinn Andri var ökumaður fólksbifreiðar sem lenti í árekstri við flutningabifreið úr gagnstæðri átt. Anna Jóna lést í slysinu, en Skarphéðinn Andri slasaðist lífshættulega.

Skarphéðinn Andri Kristjánsson og Anna Jóna Sigurbjörnsdóttir.
Kærustuparið: Skarphéðinn Andri Kristjánsson og Anna Jóna Sigurbjörnsdóttir.

Fimmtán dögum síðar var ljóst að baráttan var töpuð og 28. janúar var Skarphéðinn Andri úrskurðaður látinn. Hann var ekki skráður líffæragjafi, en hafði fyrir slysið rætt þau mál við foreldra sína, Steinunni Rósu Einarsdóttur og Kristján Ingólfsson, og voru þau því viss um hver afstaða sonar þeirra væri og samþykktu líffæragjöf. „Hann hafði nokkrum sinnum rætt líffæragjöf við okkur og var með spjald í veskinu sínu sem fannst aldrei,“ segir Steinunn Rósa.

Fimm manns öðluðust nýtt líf vegna gjafar Skarphéðins Andra. „Hjartað fór til 16 ára drengs, bæði lungun fóru til rúmlega sextugs manns, lifrin fór til rúmlega fimmtugs manns, annað nýrað fór til fertugs manns og hitt nýrað til rúmlega fimmtugs manns. Nýtt líf er tekið við hjá öllum þessum einstaklingum og gengur vel,“ sagði Steinunn Rósa í viðtali við DV.

Einkunnarorð Skarphéðins Andra voru: „Allt sem að þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra,“ segir Steinunn Rósa og hvetur fólk til að kynna sér líffæragjöf og taka afstöðu til hennar.

Bíósýning til styrktar Annað líf og pallborðsumræður

Í kvöld kl. 18.20 verður kvikmyndin Lífs eða liðinn, sem fjallar um líffæragjafir og líffæraþega,sýnd í Háskólabíói, miðaverð er 1.000 kr. og rennur ágóði sýningarinnar til styrktar Annað líf, félagi um líffæragjöf. Að sýningu lokinni verða pallborðsumræður, þar sem Steinunn Rósa situr ásamt Kjartani Birgissyni, hjartaþega, Runólfi Pálssyni, lækni og Silju Dögg Gunnarsdóttur, þingmanni. Stjórnandi pallborðsins verður Sigurlaug Margrét Jónasdóttir.

Atriði úr myndinni Lífs eða liðinn, sem sýnd er í kvöld til styrktar Annað líf.
Lífs eða liðinn Atriði úr myndinni Lífs eða liðinn, sem sýnd er í kvöld til styrktar Annað líf.

Taktu afstöðu til líffæragjafar

Á vef Landlæknis geta allir tekið afstöðu til líffæragjafa, einungis þarf rafræn skilríki eða íslykil frá Þjóðskrá. Hægt er að velja: líffæragjöf sem nær til allra líffæra, líffæragjöf sem takmarkast við ákveðin líffæri eða að heimila ekki líffæragjöf.

„Eins og undanfarin ár minni ég á mikilvægi þess að ræða líffæragjöf og vera í appelsínugulu,“ segir Steinunn Rósa, sem mætir með fjölskyldu sinni á sýningu myndarinnar Lífs eða liðinn í kvöld.

Í stöðufærslu á Facebook í gær minnist Steinunn Rósa sonar síns með eftirtöldum orðum, en fjölskyldan heldur minningu Skarphéðins Andra sérstaklega á lofti 29. janúar ár hvert:

„Í dag eru 4 ár frá því Skarphéðinn Andri var úrskurðaður látinn. Í gær um kl. 23 voru 4 ár frá því við Kiddi héldum í hendur hans og heili hans dó. Hugur manns á svona tímum eru skrýtnir eða kannski ekki, það er erfitt að festa hugan við dagleg mál í janúar þar sem svo margt er að fara í gegnum kollinn á okkur. 12. janúar er dagurinn sem allt breyttist, 27. janúar er dagurinn sem við fengum að vita að vonin um líf með Skarphéðni dó og 28. janúar var hann úrskurðaður látinn.

Hugurinn leiðir mann aftur til þess tíma og líka til þess tíma þegar við fengum gullmolann okkar í fangið. Við erum komin á þann stað að geta glaðst yfir lífi hans, þótt það komi einstaka dagar þar sem maður verður lítill í sér. Lífið er óútreiknanlegt og hver dagur dýrmætur, við vorum heppin að fá Skarphéðinn í þau ár sem hann var hjá okkur. Dagurinn var ágætur, kveiktum á tveimur kertum við leiði Skarphéðins Andra fyrir þau Önnu Jónu og hann, kertin eru appelsínugul og loga til dagsins á morgun þegar fjögur ár eru frá því hann gaf fimm manns nýtt líf.

Fórum í dag saman í keilu, fengum risastórt morgunknús frá Sveinþór Andra sem er farið að faðma eins og nafni sinn með útréttar hendur til beggja hliða og skottan okkar hún Steinunn Björg í humátt á eftir með annað knús sem bræðir mann alveg. Steinunn Björg var svo yfir gerð eftirréttar kvöldsins með afa sínum „Royalbúðing“. Þessi dagur fer í minningabankann og hjálpar okkur á sama tíma að ári.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Egill Þór er látinn

Egill Þór er látinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fjöldamorðinginn í Madgeburg var yfirlýstur andstæðingur Íslams

Fjöldamorðinginn í Madgeburg var yfirlýstur andstæðingur Íslams
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sakamál ársins I: Æði rann á fjölskylduföður, Interpol lýsti eftir Pétri, stórþjófar í Hamraborg og barnaníðingur í Dalslaug

Sakamál ársins I: Æði rann á fjölskylduföður, Interpol lýsti eftir Pétri, stórþjófar í Hamraborg og barnaníðingur í Dalslaug
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka