Ásgeir Helgi Hjaltalín segir farir sínar ekki sléttar af samskiptum við Jón Þór Ólafsson, þingmann Pírata. Ásgeir Helgi skrifaði komment við frétt Vísis í gær um metoo frásagnir erlendra kvenna. Kommentið gat auðveldlega misskilist sem virðingarleysi og fordómar, þó Ásgeir hafði ekki meint það þannig. Jón Þór sendi skilaboð á Ásgeir og fjölda vina hans á Facebook og segist Ásgeir hafa eytt miklum tíma í gær að slökkva elda vegna skilaboða þingmannsins.
Ásgeir var fyrstur til að kommenta á fréttina sem birtist um níuleytið í gærmorgun. „Þetta er farið að hafa afríkubaukaáhrif á mig,“ skrifaði Ásgeir og viðurkennir hann vel að þetta komment gæti misskilst. Hann segir í samtali við DV að meining hans með þessu kommenti væri að segja að vandamálið vegna kynferðislegra áreitni væri risastórt, líkt og vandamál Afríku þegar hann var að alast upp.
„Viðbrögð mín við að lesa þetta voru að þetta væri svakalegt og það sem kemur mér til hugar er að þegar ég var barn þá voru söfnunarbaukar út um allt fyrir sveltandi börn í Afríku. Ég man að þegar ég var krakki þá fannst mér það svo átakanlegt og reyndi alltaf að setja seðla í baukanna. Maður sá samt alltaf þessa bauka og því fannst mér eins og börnin væru alltaf sveltandi. Þessar frásagnir höfðu þau áhrif á mig, sama hvað ég gerði eða gerðist þá væri þetta alltaf jafn hræðilegt“ segir Ásgeir. Honum finnst eins og hann hafi séð þetta orð áður, þó ekkert komi upp á Google.
Ásgeir segist hafa gengið frá tölvunni og einungis um fimm mínútum síðar hefur eiginkona hans samband við hann og segir að einhver maður sé að reyna að ná í sig og sá maður hafi sennilega reynt að hafa samband við fleiri. Sá maður var Jón Þór. „Ég kíki á Facebook-ið hjá mér og sé skilaboð frá honum Jón Þór, þar sem hann segir að athugasemd mín gæti verið túlkuð sem virðingarleysi og fordómar,“ segir Ásgeir.
Ásgeir segist síðar hafa rætt við Jón Þór í síma. „Í símtali mínu við Jón Þór sagði hann að til að ná til mín hefði hann haft samband við vini mína. Ég benti honum þá á að það væri ekki rétt, hann hefði einnig haft samband við vini vina minna.. Allt frá fyrrverandi vinnuveitendum, fjölskyldumeðlimum þar með eiginkona mín og móðir, guðmóðir sonar míns og þeirra vinir og fyrrum viðskiptafélagar fengu þessi skilaboð. Í samtali okkar segir hann einnig að tilgangurinn með þessu, að hafa samband við fjölskyldu vini og vini og kunningja þeirra, hafi verið að vekja athygli mína á skilaboðum hans til mín. Fyrir mér þykir mér nokkuð augljóst að það hafi ekki verið ætlunin, heldur frekar að vekja athygli vina minna á fjölskyldu á meintu „afbroti“ mínu,“ segir Ásgeir.
Jón Þór segir í samtali við DV að það hafi líklegast verið mistök hjá sér að senda skilaboð á fleiri en Ásgeir sjálfan. Hann segist hafa óttast ýmist að Ásgeir væri ekki heil á geði eða að hann gerði sér ekki grein fyrir því hve auðmisskiljanleg ummælin væru. „Ég sendi ekki á alla vini hans, ég sendi á nokkra, því ég áttaði mig á því að ef þú ert ekki vinur viðkomandi þá detta skilaboð í þessa síu, sem ég skoða sjálfur ekki nema á mánaðarfresti. Ég hefði bara getað kommentað beint fyrir neðan hann í kommentakerfinu en eftir að hafa skoðað profile-inn hans þá er hann ekki með neina mynd. Þá fór að renna á mig tvær grímur hvort þetta væri fake-profile eða svo hvort hann væri eitthvað öðru vísi. Því hugsaði ég að ég þyrfti að ná í hann strax, til að gefa honum tækifæri til að breyta þessu ef hann áttaði sig ekki á því hve gríðarlega ónærgætið þetta væri,“ segir Jón Þór og segist hann skilja vel að Ásgeir hafi brugðist illa við því að móðir hans og eiginkona fengi slík skilaboð.
Jón Þór segir að markmið sitt hafi verið að koma í veg fyrir að umræðan yrði afvegaleidd með kommentum sem einkenndust af kynþáttahatri. „Eftir á að hyggja þá hefði ég átt að skoða þetta bentur en ég var að flýta mér, því þetta komment var komið inn. Svona komment geta haft gríðarlega neikvæð áhrif á umræðuna. Þarna eru konur af erlendu bergi brotnar sem eru að lýsa grófu kynferðislegu ofbeldi gagnvart sér og svo er einhver íslenskur karlmaður, hálfgerður huldumaður, sem setur fram ummæli eru í besta falli gríðarlega ónærgætin. Allt svoleiðis tal gefur öðrum svigrúm til að réttlæta það hjá sjálfum sér. Það er mjög þekkt fyrirbæri,“ segir Jón Þór.