Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir situr í 1.161 sæti á lista Forbes yfir milljarðamæringa heimsins en hann var í 1.415 sæti í fyrra. Eru eignir hans nú metnar á 1,8 milljarð Bandaríkjadala, eða rúmlega 185 milljarða króna.
Björgólfur Thor er eini Íslendingurinn sem komist hefur inn á umræddan lista Forbes en árið 2007 var hann í 249. sæti yfir ríkustu menn veraldar. Greint er frá því á vef Forbes að Björgólfur Thor hafi komist nálægt því að missa allt sitt í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 og því þurft að finna leið að losna við skuldabagga sem hljóðaði upp á minnst 40 milljarða íslenskra króna. Á sama tíma hafi verið sótt hart að honum á Íslandi, skemmdarverk framin á heimili hans í Reykjavík og litið á árið 2008 sem hans „dánarár.“
Þá er vitnað í ummæli Björgólfs Thors sjálfs sem viðurkenndi að hafa „klúðrað málunum“ líkt og allir aðrir. Björgólfur Thor gerði í kjölfarið samkomulag við kröfuhafa sína sem gerði honum kleift að greiða upp skuldir sínar en halda þó eftir hlut sínum í nokkrum eignum, þar á meðal í pólska fjarskipafélagsinu Play.
Björgólfur Thor komst aftur inn á listann árið 2015 og voru þá eignir hans metnar á 1,3 milljarð dala. Hefur hann færst ofar á listanum síðan þá en á seinasta ári var auður hans metinn á 1,6 milljarð dala.
Bill Gates, stofnandi Microsoft vermir toppsæti listans í sautjánda sinn en eignir hans eru metnar á 86 milljarða dala. Þá Warren Buffett, forstjóri Berkshire Hathaway í öðru sæti og Jeff Bezos stofandi Amazon í því þriðja.
.