fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fréttir

Nýr ritstjóri Fréttatímans segir ósatt

Jóhannes Gísli Eggertsson tengist nýja miðlinum – Fiskkaupandinn Guðlaugur er ritstjóri

Ritstjórn DV
Laugardaginn 13. janúar 2018 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikil leynd hefur ríkt yfir nýjum eigendum Fréttatímans. Fréttatíminn var úrskurðaður gjaldþrota en vefurinn birtist aftur á netinu nokkrum mánuðum síðar í breyttri mynd. Á síðunni kom hvergi fram um hver væri eigandi miðilsins.

Samkvæmt heimildum DV keypti Jóhannes Gísli Eggertsson lénið. Jóhannes hefur á síðustu árum verið umfjöllunarefni fjölmiðla vegna auðgunarbrota og hlotið fjóra refsidóma frá árinu 2012. Í mars árið 2015 sagði Jóhannes Gísli í viðtali við DV að hann hefði snúið við blaðinu og vildi fá að njóta sannmælis. Nær sléttu ári síðar var hann gómaður við að svíkja vörur út úr vefverslun ELKO. Fyrir það fékk hann sex mánaða fangelsisdóm fyrir ríflega ári, í lok árs 2016, og hefur hann tekið út þann dóm. Þá vakti athygli fjölmiðla seint á síðasta ári þegar Jóhannes Gísli þóttist vera unglingsstúlka til að koma upp um barnaníðinga. Segir Jóhannes Gísli í samtali við DV að hann vilji nú aftur bæta ráð sitt.

Skráður eigandi og titlaður ritstjóri er Guðlaugur Hermannsson fiskkaupandi. Þær upplýsingar voru ekki birtar fyrr en DV fór að grennslast fyrir um málið. DV ræddi við Guðlaug sem í fyrstu fór undan í flæmingi en kvaðst vera eigandi lénsins en neitaði allri aðkomu Jóhannesar að fjölmiðlinum. Jóhannes hafði skrifað frétt á vef Fréttatímans án þess að nafn hans kæmi þar fram. Í myndskeiði þar sem fjallað var um aðgerðir sérsveitar í Faxafeni mátti heyra rödd Jóhannesar þar sem hann titlaði sig blaðamann. Þá var sagt að blaðamaður Fréttatímans, sem var Jóhannes Gísli hefði verið á staðnum. Þá hefur Jóhannes kynnt sig sem blaðamann miðilsins. Nýr ritstjóri Fréttatímans, fiskkaupandinn Guðlaugur, ákvað að segja blaðamanni DV ósatt og fljótlega eftir samtalið var fréttinni breytt og birt yfirlýsing um að Jóhannes hefði ákveðið að gefa Fréttatímanum myndskeiðið.

„Hann er ekkert að vinna neitt við [Fréttatímann]. Ég veit ekki alveg hvaðan þú hefur það en hann er ekkert að vinna við þetta,“ sagði Guðlaugur þrátt fyrir að Jóhannes hefði verið titlaður blaðamaður í fréttinni og hafi samkvæmt heimildum DV séð um fréttaskrif á vefinn. Vildi Gunnlaugur ekki upplýsa hvaða blaðamenn skrifa á Fréttatímann og sakaði blaðamann DV um árásir á nýjan miðil.

DV ræddi við Jóhannes sem vildi í fyrstu ekki kannast við að starfa fyrir miðilinn. Hann viðurkenndi síðan að hafa starfað fyrir Fréttatímann. Óttaðist hann að vera dæmdur vegna vafasamrar fortíðar en kvaðst dreyma um að verða blaðamaður. Að sögn ritstjóra verður framtíð Jóhannesar ákveðin í næsta mánuði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu