Í gær var tilkynnt innan Facebook-hóps Vesturbæinga að til stæði að rífa afgreiðsluborðið í Ísbúð Vesturbæjar. Viðbrögðin voru nær alfarið á eina leið, þetta væru menningarverðmæti sem mættu ekki fara. „Þetta er algjörlega einstök innrétting og ísbúðin algjör perla. Er einhver sem þekkir til og getur bent eigendunum á hversu miklar menningarminjar þessi verslun er þegar orðin,“ skrifaði Guðfinna Mjöll innan hópsins í gær.
Tónlistarkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir leist ekkert á þetta og tjáði það í athugasemd. „Nei nei nei nei!!! Ég mótmæli harðlega,“ skrifaði hún. Þingkonan Helga Vala Helgadóttir tók undir með henni: „Neihhhh glætan!“
Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason fræddi svo Vesturbæinga um þessa innréttingu. „Man eftir því þegar þessi innrétting var sett upp, manni þótti hún stórskrítin, hún var ekki í samræmi við neitt sem var í tísku þá. Ísbúðin var stofnuð af manni sem ég finn nú á netinu að hét Aðalsteinn Bjarnfreðsson, bróðir Magnúsar sjónvarpsmanns og Aðalheiðar alþingismanns. Þetta var hinn vænsti karl. Ég man að hann var mjög stoltur af því að Bobby Fischer hefði komið í ísbúðina á tíma heimsmeistaraeinvígisins 1972 og fengið sér mjög þykkan sjeik. Spurði stundum hvort maður vildi hafa sjeikinn jafn þykkan og Fischer. (Maður ætti hins vegar tæplega að versla við þessa ísbúðakeðju fyrr en þeir hætta að nota styrofoam málin.),“ skrifaði Egill.
Tónlistarmaðurinn Úlfur Eldjárn taldi nauðsynlegt að beita skyndifriðun því innréttingin væri mikilvæg menningarverðmæti. „Verst að Sigmundur Davíð er ekki lengur forsætisráðherra. Hann myndi pottþétt beita skyndifriðun á þetta,” skrifaði Úlfur.